136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu á þingskjali 189, um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja að í gærkvöldi samþykkti stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir sitt leyti, einróma, að því er ég best veit, að ganga frá málinu hvað sjóðinn varðar og veita þá lánafyrirgreiðslu sem um er að ræða á grundvelli þeirrar áætlunar um efnahagsmál sem liggur fyrir í yfirlýsingu frá íslenskum stjórnvöldum. Málið er sem sagt komið í höfn hvað varðar sjóðinn. Ríkisstjórnin taldi eðlilegt í ljósi þeirra umræðna sem verið hafa í þjóðfélaginu og í ljósi þess hve mál þetta er óvenjulegt og kemur fram á óvenjulegum tímum að þingsályktunartillaga yrði borin fram á Alþingi, rædd hér og afgreidd í stað þess að ríkisstjórnin ein afgreiddi málið. Það hefði þó fyllilega komið til greina á grundvelli þeirra lánsfjárheimilda sem Alþingi hefur þegar veitt ríkisstjórninni.

Sú þingsályktunartillaga sem hér er flutt er fram komin til þess að kalla fram vilja Alþingis gagnvart samkomulaginu sem ríkisstjórnin hefur gert við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og stjórnin samþykkti í gærkvöldi. Ég tel eðlilegt að þessi leið sé farin og beitti mér þess vegna fyrir henni vegna þess að ég vil gjarnan að afstaða einstakra þingmanna gagnvart þessu samkomulagi og samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn liggi fyrir. Það komi skýrt fram hér í atkvæðagreiðslu hvort menn eru með eða móti því að fara þessa leið.

Þá vil ég í leiðinni geta þess að allur sá málflutningur sem uppi hefur verið hafður um launung og leynd yfir þessu máli er fullkomlega út í hött og ekki á rökum reistur. Þingsályktunartillagan var lögð hér fram á sama degi og starfsreglur sjóðsins heimiluðu birtingu hennar. Það er þá lagt fram sem þingsályktunartillaga sem er lengra gengið heldur en jafnvel stjórnarandstaðan hafði orðað eða farið fram á. Það teljum við eðlilegt að gera. Ég vil bæta því við vegna þess að talað hefur verið um leynimakk og pukur í kringum þetta mál að formenn stjórnarandstöðuflokkanna fengu skjalið í trúnaði, reyndar í aðeins öðruvísi þýðingu, níu dögum áður en málið var gert opinbert hér á Alþingi. Þeir hafa því haft tíma til að átta sig á þessu og er það bæði eðlilegt og sjálfsagt.

Allt frá því að bankakerfið riðaði til falls í byrjun október hefur ríkisstjórnin unnið hörðum höndum við að leysa þá fjármála- og gengiskreppu sem hagkerfið stendur nú frammi fyrir í kjölfar hamfaranna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Fljótlega varð ljóst að eina raunhæfa lausnin á þessum vandamálum grundvallaðist á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fjárhagslegri fyrirgreiðslu frá sjóðnum til þess að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans, enda er sjóðurinn eina alþjóðastofnunin sem hefur umboð, getu og úrræði til þess að aðstoða þjóðir við að takast á við vandamál af þeirri stærðargráðu sem við stöndum nú frammi fyrir. Það er þess vegna engin tilviljun að það er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem gegnir lykilhlutverki við leit að lausnum á þeim mikla fjármálavanda sem nú steðjar að heimsbyggðinni. Hann leikur jafnframt lykilhlutverk á fundum ráðamanna stærstu ríkja þar sem verið er að fjalla um þau mál.

Samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eykur því traust á þeim skrefum sem við þurfum nú að taka. Er það samdóma álit þeirra sem að vinnunni komu að samstarf við sjóðinn sé ekki aðeins rétt heldur nauðsynlegt við núverandi aðstæður.

Þrátt fyrir að við stöndum frammi fyrir verulegum efnahagsvandræðum má ekki gleymast að undirstöður hagkerfisins eru í meginatriðum traustar. Þjóðin er vel menntuð, úrræðagóð og ung að árum. Innviðir samfélagsins eru traustir og lífeyrissjóðakerfið sterkara en víðast hvar annars staðar. Síðast en ekki síst höfum við aðgang að mikilli hreinni orku og gjöfulum fiskimiðum sem veita okkur útflutningstekjur sem styðja munu við gjaldmiðil þjóðarinnar og hagsæld hennar til framtíðar.

Áætlun ríkisstjórnarinnar, sem unnin er í samstarfi við Seðlabankann og fjölmarga hagsmunaaðila ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, mun, auk lána frá öðrum sem henni fylgja, gera Íslandi kleift að endurvinna traust alþjóðafjármálakerfisins og gefa okkur tækifæri til þess að nýta þá miklu krafta sem þjóðin og landið búa að til framtíðar.

Viljayfirlýsingin sem liggur til grundvallar fjárhagslegri fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum upp á 2,1 milljarð bandaríkjadala til þess að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabanka Íslands er í meginatriðun þríþætt: Í fyrsta lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með markvissum og öflugum aðgerðum, í öðru lagi að styrkja stöðu ríkissjóðs og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi.

Við núverandi aðstæður er brýnasta verkefni stjórnvalda, ekki síst Seðlabanka Íslands, að tryggja stöðugleika krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu gengisins. Núverandi fyrirkomulag gengismála sem verið hefur við lýði hér í nokkrar vikur er að sjálfsögðu skammtímaráðstöfun og ljóst að krónan verður sett á flot á nýjan leik, eins og það er kallað. Hins vegar er ljóst að í kjölfar þeirra áfalla sem fjármálakerfið hefur orðið fyrir er hætt við að krónan verði fyrir skammtímaþrýstingi fyrst í stað.

Því er gert ráð fyrir að til mjög skamms tíma sé hægt að beita ýmsum aðgerðum til þess að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar. Seðlabankinn mun því ekki aðeins nýta stýrivexti sína til þess að hafa áhrif á fjármagnsflæði heldur mun hann einnig beita aðhaldi í lánum til bankanna, nýta gjaldeyrisforðann og beita tímabundnum gjaldeyrishöftum á fjármagnsviðskipti. Eins og áður segir verða þessar aðgerðir allar til skamms tíma og er ekki ætlað að hindra eðlilega verðmyndun á krónunni.

Aukinn stöðugleiki á gjaldeyrismarkaði mun svo leiða af sér hraða lækkun verðbólgu sem ætti að geta gefið svigrúm til verulegra og snöggra vaxtalækkana. Reiknað er með að í kjölfar þeirra aðgerða sem lýst er að framan styrkist krónan fljótlega og að verðbólga á ársgrundvelli verði komin í 4,5% undir lok ársins 2009. Gert er ráð fyrir að krónan styrkist enn og verðbólgan haldi áfram að hjaðna árið 2010. Smám saman verður Seðlabankanum því kleift að reiða sig aftur á stýrivexti sem aðalstjórntæki peningamála innan ramma sveigjanlegrar gengisstefnu.

Þrátt fyrir styrka stjórn ríkisfjármála undanfarin ár með mikilli lækkun skulda hins opinbera er ljóst að brúttókostnaður ríkisins vegna endurfjármögnunar, bæði viðskiptabankanna og Seðlabankans, auk þess halla sem verður á ríkisbúskapnum næstu árin og hugsanlegrar ábyrgðar vegna innstæðutrygginga mun setja verulegar auknar byrðar á ríkissjóð.

Þrátt fyrir að nettókostnaður verði lægri vegna endurheimtu fjármuna með sölu á eignum bankanna er ljóst að sýna þarf verulegt aðhald í ríkisfjármálum næstu árin. Árið 2009, þegar efnahagslægðin verður dýpst, er þó gert ráð fyrir að fjárlagahallinn aukist í takt við aukin útgjöld og lægri tekjur vegna hagsveiflunnar til þess að auka ekki frekar á samdrátt í þjóðarbúskapnum. Hins vegar verður verulega dregið úr fyrri áformum um slaka í ríkisfjármálum. Öll viðmið um þróun ríkisfjármála næstu árin miðast þó við svokallaðan hagsveifluleiðréttan jöfnuð sem gefur ríkissjóði tækifæri á ákveðinni aðlögun ef efnahagslægðin verður dýpri en nú er gert ráð fyrir.

Til þess að tryggja betur stjórn ríkisfjármála verður farið yfir umgjörð þeirra þegar litið er til lengri tíma og lagðar fram tillögur þar að lútandi sem einnig munu ná til þess hvernig fjármál sveitarfélaga verða betur samræmd áformum í ríkisfjármálum.

Í ljósi allra þessara aðgerða er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins komi sér saman um að gera kjarasamninga sem samrýmast þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi.

Í ljósi þess að rót vanda hagkerfisins er að finna í falli bankakerfi landsins er áætlun um enduruppbyggingu þess og endurskoðun gjaldþrotareglna grundvallarþáttur í viljayfirlýsingu og stefnu ríkisstjórnarinnar.

Í því efni er í fyrsta lagi unnið skipulega að sambærilegu samkomulagi við alla þá erlendu aðila sem hagsmuna eiga að gæta gagnvart Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta hér á landi í samræmi við lagaramma EES. Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja.

Í öðru lagi er viðurkennt að það sé lykilatriði í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknum bönkum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum. Með það að leiðarljósi hefur verið komið upp gagnsæju ferli þar sem tvö teymi sjálfstæðra endurskoðenda munu sjá um að meta sannvirði eigna.

Í þriðja lagi verður regluumgjörð fjármálastarfsemi og framkvæmd bankaeftirlits endurskoðuð til að efla viðbúnað gegn hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni. Að síðustu verður svo farið yfir lagarammann um gjald- og greiðsluþrot þannig að taka megi á niðurfærslu skulda og heimtu eigna í bönkum, fyrirtækjum og hjá heimilum á skilvirkan hátt.

Fjárhagsleg fyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mun í heild nema rúmum 2 milljörðum bandaríkjadala og er ætlað að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans eins og fram hefur komið. Fyrstu 830 milljónirnar eða þar um bil koma til afgreiðslu á næstu dögum í kjölfar þess að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur nú samþykkt að veita þá fyrirgreiðslu. Afgangurinn af láninu kemur svo til greiðslu ársfjórðungslega næstu tvö árin eða svo.

Viljayfirlýsingin sem fylgir með sem fylgiskjal við þingsályktunartillöguna er forsenda fyrirgreiðslu af sjóðsins hálfu. Því er brýnt að henni verði framfylgt. Þeir áfangar sem þurfa að nást eru allir skýrt tilgreindir í viljayfirlýsingunni og nánar útlistaðir á fylgiskjölum. Áfangarnir eru allir mikilvægir þættir í þeirri áætlun sem nú verður unnið eftir og ríkisstjórnin telur að muni veita hagkerfinu tækifæri til þess að vinna sig hratt og örugglega út úr núverandi efnahagsástandi á næstu misserum.

Með fjárhagslegri fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, frekari lánum frá góðum vinum og bandamönnum, og þeirri efnahagsáætlun sem viljayfirlýsingin og lánin byggjast á getum við nýtt þá krafta sem búa í landinu og þjóðinni til þess að koma stöðugleika á að nýju og byggja hagkerfið upp til framtíðar.

Ég vil nota tækifærið og beina þökkum til þeirra ríkja sem ákveðið hafa að ganga til samstarfs við okkur um þetta mikilvæga verkefni. Ég legg til, virðulegi forseti, að þessari tillögu verði að umræðunni lokinni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar. Tel ég eðlilegt að nefndin leiti álits annarra þeirra þingnefnda sem málið varðar.