136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa málefnalegu og efnismiklu ræðu. Það vakti athygli mína að það ber nokkuð nýrra við hjá þessum fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en þegar maður hlustar á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, formann hreyfingarinnar. Hér djarfaði fyrir gagnrýnni hugsun í garð Seðlabankans og varaformaður Vinstri grænna gagnrýndi verklag á þeim bænum. Meira hefur borið á því á undanförnum vikum að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tali eins og þar fari leiðtogi lífs hans þar sem er formaður bankastjórnar Seðlabankans. Guð láti gott á vita að ekki séu allir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði búnir að ákveða að ganga þann hörmungargang sem formaður flokksins hefur ákveðið að ganga (Gripið fram í: En Samfylkingin?) í eilífri afsökun (Gripið fram í: Það er Samfylkingin sem …) fyrir bankastjórn Seðlabankans og miðstjórn hennar. (Gripið fram í: Hver er í ríkisstjórn? Og styður Davíð þar?) Það hefur ekki skort á gagnrýni úr okkar ranni í garð (Gripið fram í: Gagnrýni? …) bankastjórnar Seðlabankans.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir vakti athygli á að hætta væri á að menn ætluðu að spara sig út úr kreppunni. Nú vil ég vekja athygli á því að í 13. lið í áætluninni er gert ráð fyrir að sjálfvirk sveiflujöfnun ríkisfjármála verði látin virka til fulls á árinu 2009. Til að ekki verði aukið frekar á samdrátt verði fjárlagahalla leyft að aukast í takt við aukin útgjöld og lægri tekjur vegna hagsveiflunnar. Það er því alveg ljóst að ekki stendur til af hálfu ríkisstjórnarinnar að beita þeirri aðferðafræði sem þingmaðurinn óttast með réttu og yrði án efa, eins og hún bendir réttilega á, til að reyna að dýpka kreppuna og gera hana erfiðari og verri viðureignar.