136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:55]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst svara því sem hæstv. ráðherra talaði um varðandi ríkisstjórnirnar í nágrannalöndunum, að þær hefðu sett það skilyrði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi að borðinu. Ég vil þá fá að vita hvort ríkisstjórnin hefur gert þessum nágrannaþjóðum okkar grein fyrir þeim skilyrðum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur.

Ég hef ástæðu til að ætla að þegar Norðurlandaþjóðirnar heyra öll skilyrðin og átta sig á því í hvaða spennitreyju verið er að setja íslenska þjóð muni viðhorf þeirra til þessara mála breytast. Ég hef ástæðu til að ætla að fólk segi, þegar spennitreyjan er höfð í huga, að til séu aðrar leiðir og að skoða beri þær samhliða.

Það er í þessu sem ég ásaka ríkisstjórnina fyrir að hafa legið á liði sínu. Hún hefur ekki reiknað neina aðra sviðsmynd en þessa einu. Það eru engir valkostir í stöðunni, ekki frekar en þegar þeir buðu út álverin. Þá var bara álver eða dauði. Nú er það bara Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða dauði. Það er ekki forsvaranlegt að ríkisstjórnin stilli ekki upp fleiri valkostum fyrir fólk til að skoða, fyrir okkur hér á Alþingi, fyrir þjóðina og fyrir ríkisstjórnir nágrannalanda okkar.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um að nægur gjaldeyrir þurfi að vera til staðar til þess að krónan geti haldið einhverju stöðugengi. Það er alveg rétt. Ég hef stólpatrú á útflutningsatvinnuvegunum okkar. Ég hef mikla trú á því að sjávarútvegurinn eigi eftir að skapa okkur verulega mikinn gjaldeyri og ferðaþjónustan verulega mikinn gjaldeyri. Kannski ekki á jafnskömmum tíma og uppbyggingin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en við eigum að vera með opin augun fyrir því hversu mikinn gjaldeyri þessar atvinnugreinar okkar geta skapað og á hvaða tíma. Það er það sem ég er að tala um. Þá útreikninga og þær áætlanir eigum við að hafa og geta borið saman við það sem hér er borið á borð.