136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:57]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því bjóða nýjan þingmann velkominn í okkar hóp, hv. þm. Eygló Harðardóttur. Hún flutti sköruglega ræðu hér á undan og fór yfir ýmislegt sem betur hefur mátt fara og má það um margt vera rétt. Ég vil hins vegar undirstrika að ekki má gleyma því að sá ágæti flokkur, Framsóknarflokkurinn stjórnaði bankamálaráðuneytinu, viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu, frá 1995 og í tvö kjörtímabil þar á eftir þannig að einhver ábyrgð hlýtur að liggja þar. Á þeim tíma var meðal annars bankakerfið okkar einkavætt og undir stjórn þess bankamálaráðuneytis óx það bankakerfi, sem nú er hrunið, mest, svo að því sé haldið til haga. Ábyrgðin liggur því kannski ekki síst hjá þeim flokki ef einhver á að bera ábyrgð á þessum blessuðu bönkum.

Hins vegar vil ég halda því fram og hef sagt það svo sem hér að í þeim hamförum sem nú hafa riðið yfir landið er Ísland ekkert eyland og því miður verð ég að segja. Þetta ástand sem nú varir er ekkert séríslenskt fyrirbæri. Þó að bankarnir og bankakerfið sem slíkt hafi ekki fallið í kringum okkur eins og hér hefur gerst er það samt sem áður svo að bankakerfin í kringum okkur hafa í raun fallið. Bankakerfið í Belgíu hefur í raun fallið. Bankakerfið í Bretlandi hefur í raun fallið, Bandaríkjunum líka, Svíþjóð jafnvel og Danmörku. Er ekki dálítið óvenjulegt að ríkið skuli koma með almannafé og dæla inn í bankakerfið með þeim hætti sem þar var gert? Það er búið að bjarga bönkunum frá því að hrynja. En það er engu að síður búið að dæla almannafé inn í þessi bankakerfi og þar með í rauninni bjarga þeim frá falli, kerfunum sem slíkum. En bankarnir sjálfir hafa fallið þó að þeir starfi enn þá.

Ég veit það ekki. Mér finnst þetta í rauninni alveg ótrúlegt. Ég var að hitta mann sem var að koma að utan, frá Þýskalandi. Hann sagði að þetta væri dálítið sérstakt og Þjóðverjarnir eru farnir að hlæja að þessu sjálfir. Það er alltaf verið að horfa á Ísland, Ísland, Ísland. En hvað er að gerast bara í Þýskalandi? Hvað er að gerast þar? Það er verið að bjarga bönkum þar á hverjum degi. Er það allt Íslandi að kenna? Hvernig byrjaði vandamálið hérna á Íslandi? Hver má segja að sé upphafsdagurinn hjá okkur? Það skyldi þó ekki vera daginn sem Lehman féll? Þá þurftu íslenskir bankar að byrja að afskrifa milljarða, lánalínur lokuðust sem gerði síðan fjármögnun inn í framtíð bankanna mjög erfiða vegna þess að það var búið að fá loforð frá þessum snilldarbanka Lehman.

Það er allt í lagi. Það má alveg hrópa á torgum og hrópa hér úr ræðustól að það hefði átt að gera hlutina allt öðruvísi og það hefði eflaust mátt gera ýmislegt betur. En það er ekki hægt að láta eins og þetta sé allt íslensku ríkisstjórninni og íslenskum eftirlitsstofnunum að kenna. Það er ekki svo og ég segi bara aftur, því miður. Það sem er að gerast í kringum okkur er að markaðir falla dag frá degi, dag eftir dag eftir dag er það orðið þannig að markaðir falla.

Ég var að líta á bandarísku bílafyrirtækin Ford og General Motors. Ég meina, þau eru orðin einskis virði. Þau eru komin á lægra gengi en bara ... (JM: Krónan.) heldur en krónan, er kallað í salnum, ja, heldur en bara fyrir 10, 15, 20, 30 árum. Þessi fyrirtæki eru bara búin. Bankarnir lækka dag frá degi og eru að verða einskis virði á þessum mörkuðum, því miður. Okkar von lá fyrst og fremst í því að umheimurinn mundi batna og það er það alvarlega í þessu því að við munum hugsanlega standa frammi fyrir því og það er þegar byrjað að gerast að verð á okkar útflutningsvörum er farið að lækka og það var auðvitað ekki það sem við vildum. Ég ætla svo sannarlega að vona að þessar aðgerðir sem verið er að grípa til, þessar risaupphæðir sem verið er að dæla inn í einstök fyrirtæki, inn í bankakerfið og svo framvegis, þ.e. að sú aðstoð virki. Okkar von liggur í því.

Þá komum við að aðstoð IMF eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við höfum um tvær leiðir að velja eins og hér hefur verið bent á, annars vegar að þiggja ekki lán og þar með mundum við vera rúin trausti áfram og þar með væri alveg fyrirséð að við mundum lenda einhvern tíma í miklum vandræðum með viðskipti við útlönd og það yrðu ýmsir til þess að bregða fyrir okkur fæti. Við mundum áfram eiga í miklum vandræðum með gjaldeyrisviðskipti og svo framvegis. Hins vegar er hér lagt til að það verði farin önnur leið og aðstoðin þegin og þessi háu lán verði tekin í þeirri von að hér verði hægt að reisa við íslenskt efnahagslíf mun fyrr en ella og að eðlileg viðskipti með krónuna geti farið að eiga sér stað. Það verður þó að taka það skýrt fram, af því að hér hefur verið talað um ástandið eins og það var í Argentínu þar sem lánaforðinn sem fenginn var hvarf niður um klósettið á nokkrum klukkustundum, að þá hefur það verið tekið sérstaklega fram að sú leið verður ekki farin hér. Það hefur verið tekið fram hér úr þessum stól.

Það er alveg gríðarlega mikilvægt þegar við fleytum krónunni að við látum strax reyna á markaðinn. Ef það er virkilega svo að krónan hríðfellur gæti það kannski verið lykill að ákveðinni lausn fyrir okkur líka því þá er alveg ljóst að við erum að greiða fyrir erlend krónulán á miklum mun lægra verði, kannski þrisvar sinnum lægra verði en við fengum þau á. Kannski verða 600 milljarðarnir bara í rauninni 200 milljarðar ef því er að skipta. Hins vegar getur líka verið að þetta háa vaxtastig verði til þess að fjármagnið verði þolinmóðara og krónan hríðfalli ekki.

Þá kemur að því sem er mikið áhyggjuefni og hér hefur líka verið komið inn á, þ.e. þetta varðandi vísitöluþáttinn og að hann bætist ofan á lánin ef krónan fellur meira og það er auðvitað alveg rétt. En það getur líka — þó að við höfum ekki séð það og eigum erfitt með að trúa því — þá væri í rauninni eðlilegt að ef vísitalan hríðfellur og við hreinsum út úr kerfinu þessi krónubréf þá ætti krónan að koma býsna hratt til baka og þar með ætti vöruverð að snarlækka. Um leið er mjög líklegt að fasteignamarkaðurinn lækki. Hann er að lækka og lækkanirnar eru að koma í gegn. Ef þetta hvort tveggja gerist, því að fasteignamarkaðurinn telur jú 16% inni í vísitölunni, þá í sjálfu sér ætti vísitalan að koma til baka. (Gripið fram í: En lánin lækka ekkert.) Vísitalan kemur til baka þannig að vísitölugrunnurinn sem reiknað er út frá er annar — þ.e. grunnurinn er sá sami en vísitalan sem gengið er út frá lækkar. Það yrði náttúrlega mjög gott ef það gerðist. Hins vegar er ákveðin hætta í því að fyrirtæki í verslun verði orðin svo veik, svo dæmi sé tekið, að þau verði mjög treg til að lækka verð þó svo að krónan styrktist. Það er því mikil áhætta í þessu og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Hins vegar verð ég að segja að ég sé ekki aðra leið fram úr þessu. Ef við viljum reyna að sjá ljósið fram undan, ef við gerum þetta ekki er ég ansi hræddur um að við verðum rúin trausti í mjög langan tíma til viðbótar.

Hér hefur það verið tekið fram að við séum að skuldsetja komandi kynslóðir og það er auðvitað ansi sárt að svo þurfi að vera. Við megum þó ekki gleyma því hverju við erum að skila til þessara komandi kynslóða. Við erum með gríðarlega mikið og öflugt vegakerfi á Íslandi sem hefur kostað mjög mikið að byggja upp á undanförnum árum. Við munum skila því af okkur, skólunum, sjúkrahúsunum, heilsugæslunni, leikhúsunum, höfnunum, flugvöllunum. Þetta eru alveg ótrúlega mikil verðmæti sem þessi 300 þúsund manna þjóð á, gríðarleg verðmæti. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að komandi kynslóðir taki einhvern þátt í því að borga fyrir afnotin af þessu, ef svo má segja.

Þar með er ég ekki að gera lítið úr þessu. Ég hefði svo sannarlega viljað vera laus við þetta. Sú er þó staðreyndin að við erum með það umfram mörg önnur ríki að vera með mjög öflugan infrastrúktúr hérna í hvívetna á Íslandi. (ÁÞS: Sérstaklega bankana.) Sérstaklega bankana, er sagt. Ja, þeir hrundu og því er nú verr. En það er þó verið að gera allt til þess að byggja þá upp að nýju. (Forseti hringir.)

Svo vil ég, herra forseti, segja að það er náttúrlega alveg nauðsynlegt að horfa fram á veginn og við þurfum að gera allt til þess að laða hér að erlenda fjárfestingu og við þurfum líka að gera allt fyrir íslensk fyrirtæki (Forseti hringir.) sem starfandi eru í útlöndum til þess að þau geti komið með frekari starfsemi heim til Íslands.