136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör við þeim spurningum sem ég bar fram. Ég fagna afstöðu hennar til vaxtamálanna og því sem hún segir um þær stofnanir sem við höfum verið að ræða um, bæði Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Auðvitað má ræða um bankana sjálfa í þessu efni líka. Bankarnir hafa brugðist og þeir sem þar hafa haldið um stjórnvölinn. Það er rétt, sem hefur komið fram hjá ýmsum, að ábyrgð þeirra er ekki lítil.

Ekki er hægt að horfa fram hjá því að ríkisstjórnin í landinu ber mikla ábyrgð, óhjákvæmilegt er að horfast í augu við það, og ríkisstjórnarflokkarnir verða, að mínu mati, að gera það. Talað er um að Seðlabankinn sé rúinn trausti, Fjármálaeftirlitið sé rúið trausti o.s.frv. — og hv. þingmaður sagði: Alþingi er rúið trausti. En ríkisstjórnin er einnig rúin trausti. Hún er hér að fara að takast á við framtíðina á algjörlega nýjum grunni, allt öðrum forsendum en þeim sem lágu til grundvallar þegar síðast var kosið til Alþingis. Í hvaða umboði ætlar ríkisstjórnin að fara í þá vinnu?

Hún veit að á mótmælafundum hér skipti eftir skipti, á Austurvelli, í Iðnó og víðar í borginni, kemur fram krafa um að ríkisstjórnin víki eða sjái a.m.k. til þess að landsmenn fái að segja álit sitt á því hvort þeir vilja þessa flokka áfram í ríkisstjórn — þeir geta tekið ákvörðun um það í kosningum — eða hvort þeir vilja breyta um áherslur. Getur þingmaðurinn ekki verið sammála því að óhjákvæmilegt sé að til þess komi fyrr en síðar?