136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

eftirlaunalög o.fl.

[10:40]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að ég kom eitthvað við kaunin á hæstv. utanríkisráðherra þegar ég fór að tala um ósamstöðuna í ríkisstjórninni og framkomu hv. þingmanna og ráðherra á síðustu dögum sem varðar samstarfið. Þegar hún talar um að samfylkingarfólk haldist við í flokknum þá er það samt svo að það er ekki nema um helmingur kjósenda Samfylkingarinnar sem styður ríkisstjórnina og það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir hæstv. ráðherra.

En í sambandi við eftirlaunalögin krefst ég þess að hæstv. forsætisráðherra, sem annar forustumaður í ríkisstjórn Íslands, greini okkur frá því hvort frumvarp sé á leiðinni og hvort við þingmenn og við formenn stjórnarandstöðuflokkanna megum eiga von á að fá upplýsingar um hvernig það frumvarp er vaxið. Ég tel að það sé mikill árangur og lýsi ánægju með það ef stjórnarflokkarnir hafa náð samstöðu vegna þess að það er einmitt það sem hefur staðið á fram til þessa. Stjórnarflokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um hvernig þetta nýja frumvarp eigi að líta út. Það mun ekki standa á okkur framsóknarmönnum að breyta lögunum.