136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn.

139. mál
[13:44]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé, eins og ég sagði áðan, algerlega nauðsynlegt að menn átti sig á því hvaða fjárhæðir hér er um að ræða. Ég tel ekki eðlilega röksemdafærslu að segja: Safnið þarf að hafa heimildir til þess að innheimta gjöld til þess að hafa upp í kostnað sem hugsanlega kann að aukast á næstunni. Þetta er ekki boðleg stjórnsýsla. Til þess voru lagaákvæði sett um að frumvörpum skyldi fylgja yfirlit yfir kostnaðarauka eða tekjuauka sem í þeim kynni að felast gagnvart ríkissjóði.

Það er alveg ljóst að ef gjaldtökuheimildir skila safninu einhvers konar sértekjum gæti ríkissjóður hugsanlega lækkað framlag sitt til safnsins sem því næmi. Það hefur auðvitað gerst víða í samfélaginu að menningarstofnanir og rannsóknastofnanir hafa verið settar undir þá kvöð að þurfa alltaf að afla sér meiri og meiri sértekna. Menn hafa farið í alls kyns kostun og leitað leiða til þess að mæta þessari kröfu ráðuneytisins um sértekjur og ég sé ekki betur en að verið sé að varpa slíkri kvöð yfir á Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Því segi ég og endurtek: Áður en hv. Alþingi samþykkir tillögur sem þessar hlýtur að þurfa að liggja fyrir hversu mikið á að innheimta því að það er alveg ljóst samkvæmt orðanna hljóðan í 8. gr. að það á að innheimta gjald, það á að heimila innheimtu gjalds fyrir útlánastarfsemi á safninu, og það er jú það sem stúdentar og kennsla við Háskóla Íslands byggir á.