136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[14:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ágætu Íslendingar, þið sem fylgist með þessari umræðu heima eða á vinnustöðum. Ég fagna því að það skuli gefast tækifæri til þess að fara vel yfir stöðu mála á Íslandi í dag og að það skuli gefast tækifæri til þess að ræða aðeins ástæður þess að við erum í þeim sporum sem við erum í og hvað verið er að gera af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að byggja samfélagið upp að nýju eftir það kerfishrun sem hér hefur átt sér stað.

Formaður Framsóknarflokksins, hv. þingmaður Valgerður Sverrisdóttir, hóf ræðu sína á því að segja að nú hefði dregið ský fyrir sólu hjá ríkisstjórninni sem hefði byrjað svo vel með svo mikinn þingmeirihluta og svo mikinn stuðning hjá þjóðinni á Þingvöllum fyrir 16 eða 18 mánuðum en nú hefði sem sagt dregið ský fyrir sólu hjá ríkisstjórninni.

Það er auðvitað algert aukaatriði hvort það hefur dregið ský fyrir sólu hjá þessari ríkisstjórn eða ekki þegar þess er gætt að það hefur dregið ský fyrir sólu hjá þjóðinni við þær aðstæður sem nú eru uppi. Það hefur orðið kerfishrun í íslensku samfélagi og verkefnið sem við stöndum andspænis öll, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, er að byggja upp þetta samfélag aftur. Reisa það úr þeim rústum kerfishrunsins sem við stöndum andspænis. Við getum haft skoðanir á því hvernig á þessu kerfishruni stendur. Við getum farið yfir forsögu mála í því efni og ég ætla að gera það hér á eftir, tæpa á því.

Verkefnið sem við stöndum andspænis er að byggja upp þetta samfélag að nýju og gera það saman að því marki sem okkur tekst það. En það er ekki verkefni okkar núna að leggjast í kosningabaráttu og kjósa fyrir áramót. Að verja tíma okkar núna, næsta einn og hálfa mánuðinn til þess að skylmast í kosningabaráttu og láta verkin öll bíða á meðan. Láta það bíða að vinna í áætluninni sem við höfum gengið frá gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, láta fjárlögin bíða, láta hag heimilanna bíða og það sem þörf er að gera á þeim vettvangi, láta það bíða að koma með úrræði í þágu atvinnulífsins í landinu, láta gjaldeyrismarkaðinn bíða, láta öll þessi verk bíða af því við erum svo upptekin af því að fara í pólitískar skylmingar og slá okkur til riddara við þær aðstæður sem nú eru í samfélaginu. Það er ekki verkefnið sem við eigum að vera að sinna núna fram að áramótum. Þetta er tillaga stjórnarandstöðunnar hér. Hún er með vantraust á ríkisstjórnina og kosningar fyrir áramót. Það er ábyrgðarkenndin sem stjórnarandstaðan hefur gagnvart þjóð sinni.

Við skulum fara yfir ástæður þess að við erum í þeirri stöðu sem við erum. Það láta margir og það tala margir eins og þetta ástand hafi dottið á okkur af himnum ofan. Þetta hafi bara gerst skyndilega og fyrirvaralaust. Það er auðvitað ekki þannig vegna þess að við höfum látlaust allt þetta ár verið að tala um íslenska fjármálamarkaðinn og íslenska fjármálakerfið og þær hættur sem að því steðjuðu.

Við töluðum líka um það á síðasta ári og ef menn muna þá voru ýmsir váboðar á lofti á vordögum 2006. Það var talið að íslenska fjármálakerfið væri í hættu statt vegna þess að það væru of mikil krosseignatengsl. Það væri of mikil áhættusækni. Það væri of mikil skuldsetning. Og það var þá sem gripið var til ákveðinna aðgerða, ef menn muna það. Það var gripið til ákveðinna aðgerða m.a. að undirlagi Fjármálaeftirlitsins. Þá kom út skýrsla eftir Frederic S. Mishkin og Tryggva Þór Herbertsson þar sem var talið að þessar aðgerðir hefðu skilað árangri og að þær hefðu skipt máli. Ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða þá hefðum við verið ver sett á árinu 2007 og 2008 en raunin varð síðan.

En váboðarnir voru ekki þar með horfnir vegna þess að heimurinn var allur að fara í gegnum ákveðna fjármálakreppu. Lánsfjárkreppu og hún var ekki horfin. Á árinu 2007, reyndar í nóvember 2007, voru gerð álagspróf á íslensku bönkunum af hálfu Fjármálaeftirlitsins og það var talið að bankarnir hefðu staðist þau álagspróf ágætlega en slík próf eru gerð með reglulegu millibili. Það var líka gefin út skýrsla sem þeir skrifuðu Richard Portes og Friðrik Már Baldursson, báðir virtir og góðir hagfræðingar, og að því ég best veit þá er Portes m.a. hjá seðlabanka Bandaríkjanna núna. Í þeirri skýrslu kom fram að íslenska bankakerfið hefði mikla aðlögunarhæfni og stöðugleika. Í skýrslunni kom líka fram að stofnanir kerfisins fengu góða einkunn.

Og nú erum við hér venjulegir leikmenn. Við erum ekki sérfræðingar í fjármálakerfinu. Við tökum auðvitað mark á því sem okkar helstu fræðimenn á þessu sviði segja og eftirlitsstofnanir okkar. Og það var talið að fjármálastofnanirnar okkar stæðu nokkuð vel en við vissum samt öll að það væri tvennt sem ógnaði þeim. Það væri annars vegar áhlaup á bankakerfið og hins vegar alþjóðleg lánsfjárkreppa.

Við vissum þetta og við vissum að það var ákveðin kerfislæg áhætta í kerfinu vegna þess að það var of stórt. Það var of stórt fyrir íslenskt hagkerfi. Það var tólf sinnum stærra en íslenskt hagkerfi miðað við það að eiga að búa við gjaldmiðil, íslenska krónu sem skoppaði eins og korktappi á ólgusjó og seðlabanka sem var allt of lítill fyrir þetta stóra fjármálakerfi og hafði byggt upp of litlar varnir, þó að þær væru umtalsverðar borið saman við það sem gerist á Norðurlöndunum en miðað við stærð hagkerfisins voru þær of litlar, miðað við þetta stóra fjármálakerfi.

Og nú spyr formaður Framsóknarflokksins sem sat í ríkisstjórn frá 1995–2007, hvernig gat það gerst að bankakerfið óx hagkerfinu yfir höfuð? Hvernig gat það gerst á vakt hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur sem var viðskiptaráðherra á þeim tíma sem bankakerfið óx hagkerfinu yfir höfuð? Ég minni á sérstaka skýrslu um fjármálakerfið sem var unnin, ef ég man rétt, að undirlagi þáverandi formanns Framsóknarflokksins Halldórs Ásgrímssonar þar sem hann talaði einmitt um mikilvægi þessa stóra bankakerfis okkar og hvernig við ættum að nota það til þess að draga meira fjármagn inn í landið. Þetta var stefnumörkunin sem þá var. Það var ekki minnst einu orði á þá hættu sem væri því samfara að vera með þennan litla gjaldmiðil og þessar litlu varnir í íslenskum seðlabanka. Það var ekki minnst á það einu orði í þessari skýrslu þar sem formaður nefndarinnar og skýrsluhöfundur var, ef ég man rétt, Sigurður Einarsson, bankastjóri og forstjóri Kaupþings. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir á því ekki að koma hér upp og spyrja þessarar spurningar. Hún á að standa hér og svara því hvernig það gat gerst á hennar vakt að þetta fór með þessum hætti. (Gripið fram í.)

En ég sagði að það hefði farið fram umræða allt þetta ár um íslenska fjármálakerfið og stærð þess og þá hættu sem því væri samfara, annaðhvort að það væri gert áhlaup á það eða vegna alþjóðlegrar lánsfjárkreppu og nú ætla ég að rifja það upp af því að seðlabankastjóri er að minnast á fund sem hann átti með okkur formönnum stjórnarflokkanna í febrúar. Hér er talað eins og þetta hafi verið eitthvað leyndardómsfullt og þar hafi verið rædd einhver trúnaðarmál um að bankakerfið okkar stæði ekki nógu sterkum fótum, eitthvað sem enginn annar hefði vitað um. Umræðan hófst í mars og ég get nefnt það að á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar var að mínu frumkvæði m.a. rætt um að varnirnar væru of litlar og það þyrfti að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Það var rætt um þetta látlaust og linnulaust frá því í mars, að gjaldeyrisvaraforðinn okkar væri of lítill og það þyrfti að styrkja hann, (Gripið fram í: Á hvaða ári?) frá því í mars á þessu ári, 2008. Seðlabankinn fékk það verkefni að fara og leita leiða til þess að styrkja gjaldeyrisvaraforðann.

Og þið munið kannski að það var alltaf verið að spyrja okkur stjórnmálamennina m.a. hvenær stóra lánið kæmi. Hvenær kemur stóra lánið sem á að styrkja og standa við bakið á bankakerfinu okkar? Það var umræðan. Þannig ef menn halda því fram að þessi vandi hafi dottið ofan á þá bara rétt si svona af himnum ofan þá er það rangt. Þá hafa þeir sofið a.m.k. frá því í mars á þessu ári því það lengi hefur umræðan um þetta staðið. (Gripið fram í: Af hverju kom ekki stóra lánið?) Við skulum fara yfir það og ræða síðar af hverju það kom ekki.

En við stöndum ekki einungis andspænis þeim vanda að hið íslenska hagkerfi sé of stórt, það var líka of mikil skuldsetning og áhættusækni í kerfinu. Við getum líka horft til baka og horft til síðasta kjörtímabils og ég ætla ekkert að draga þar undan, að þar hafi menn farið of geyst. Menn fóru allt of geyst og leyfðu allt of mikilli þenslu að ná fótfestu í íslensku samfélagi með stóriðjuframkvæmdum, með skattalækkunum, með því að gefa bönkunum lausan tauminn í íbúðalánunum. Allt þetta gerðist á síðasta kjörtímabili, m.a. á vakt hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, formanns Framsóknarflokksins. Þess vegna á hún ekki að koma hér og spyrja. Hún á að koma hér og svara.

Vantrauststillagan sem hér liggur fyrir er væntanlega lögð fram vegna þess að það er skoðun stjórnarandstöðunnar að stjórnarliðið valdi ekki verkefni sínu við þær aðstæður sem núna eru í samfélaginu. (Gripið fram í: Það er rétt.) Væntanlega hefur hin sama stjórnarandstaða þá einhverjar lausnir fram að færa á þeim vanda sem við er að etja. Þær hafa aldrei heyrst. Þær lausnir hafa aldrei heyrst enda er stjórnarandstaðan auðvitað innbyrðis sundurþykk. Ekki bara milli flokka heldur líka innan flokka.

Ætla menn að segja okkur það að stjórnarandstaðan, Framsóknarflokkur, Vinstri grænir og Frjálslyndir, geti komið fram sem einhver heild og boðið upp á einhverjar lausnir við þær aðstæður sem nú eru? Að sjálfsögðu ekki. Framsóknarflokkurinn logar stafna á milli. Frjálslyndi flokkurinn logar stafna á milli og pólitískt uppgjör hefur ekki enn farið fram hjá Vinstri grænum en á væntanlega eftir að fara fram og það gæti verið spennandi að sjá þegar það mun gerast.

Þessir flokkar hafa ekki borið fram nokkra áætlun um hvað þeir vilja gera. Framsóknarflokkurinn studdi áætlunina um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ef ég man rétt og taldi að það væri verið að fara rétta leið í því að leggja fram áætlun og leita lánsfjár hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og mig minnir að frjálslyndir hafi talað í þá veru líka. Vinstri græn eru að sjálfsögðu algjörlega á móti því vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er handbendi hins illa ef maður skilur þá rétt, þessi stofnun sem við höfum samt verið aðilar að mjög lengi. Þeir tala líka þannig að nú eigum við hvergi að draga saman seglin, hvergi að skera niður, heldur þvert á móti að bæta í í fjárlögunum. Bæta nú í í fjárlögunum vegna þess að staðan er eins og hún er. (Gripið fram í.)

Gott og vel. Það getur vel verið að það eigi að bæta í í fjárlögunum. En það er ekki bæði hægt að bæta í og neita því að taka lán. (Gripið fram í.) Það er ekki bæði hægt að neita því að fá lán, m.a. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hjá þeim ríkjum Evrópu sem vilja lána okkur gegn því að við förum einmitt og gerum efnahagsáætlun í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það vilja vinstri grænir alls ekki að við gerum.

Virðulegur forseti. Sjö vikur eru síðan að neyðarlögin voru sett. Á þeim sjö vikum hefur gríðarlega mikið starf verið unnið en það er mikið starf enn þá óunnið. Við erum bara búin að fara í gegnum fyrsta fasann, ef svo má segja, á langri leið. En þessi fyrsti fasi er mjög mikilvægur vegna þess að í honum hefur efnahagsáætlun og samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verið samþykkt og samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn felur m.a. í sér endurskoðun og uppstokkun í íslensku bankakerfi.

Áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins felur það í sér að það á að vera tryggt að hér sé unnið faglega og í samræmi við alþjóðlegar leikreglur í bankakerfi okkar. Ég er ekki viss um að allir viti hvernig að þessu er staðið. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna aðkomu fyrrverandi forstöðumanns finnska fjármálaeftirlitsins sem á að koma hér og stýra endurskoðun alls regluverks á fjármálamarkaðnum okkar. Stýra endurskoðun á öllu regluverkinu og skoða hvar menn hafa farið á svig við það regluverk. Þar er m.a. getið um það að hafi menn gert það þá skuli þeir ekki starfa í bönkum næstu þrjú árin. Þá erum við ekki endilega að tala um refsivert athæfi heldur að menn hafi brotið með einhverjum hætti trúnaðarskyldu.

Það ganga líka tröllasögur um það að eignum gömlu bankanna sé auðvelt að skjóta undan og það sé gert núna unnvörpum. Staðreyndin er sú að samkvæmt viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefur alþjóðlegu fyrirtæki, Oliver Wyman, verið falið að verðmeta og taka út hverja einustu eign, hverja einustu færslu sem úr gömlu bönkunum fer í nýjan banka. Þetta var eitt af því sem við gerðum og ákváðum í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að það skyldi vera óháð fyrirtæki sem ekki hefði nein tengsl á Íslandi sem skyldi meta allar þessar eignir, hvernig þær flyttust og væru metnar úr gömlu bönkunum í nýja. Með öllum skilanefndum bankanna starfa endurskoðunarfyrirtæki sem eru alþjóðleg í eðli sínu og hafa tengsl í öðrum löndum til þess að tryggja það að ekki séu hagsmunatengsl á Íslandi. Þannig er unnið að því að velta við hverjum einasta steini í þessum efnum.

Það er líka unnið að því og við höfum átt ágætt samstarf við stjórnarandstöðuna um það að koma á sérstakri rannsóknarnefnd sem mun taka sér góðan tíma í að skoða alla þætti þessa máls. Það verður athugað hvort stjórnvöld hafi brugðist, stjórnmálamennirnir, Alþingi, ríkisstjórnin, eftirlitsstofnanir, bankarnir, alla þessa þætti á hún að skoða og velta við hverjum steini og skila Alþingi skýrslu um málið á næsta ári. Embætti sérstaks saksóknara hefur verið stofnað til þess að hægt sé að taka með hraði á öllum þeim refsiverðu málum sem upp kunna að koma í því sambandi.

Allt þetta skiptir máli fyrir trúverðugleika þeirrar vinnu sem hér fer fram. En það skiptir ekki síður máli að við vinnum að því núna, og það er verkefnið eftir að við erum búin að koma þessari áætlun varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá, að tryggja að heimilin í landinu verði ekki fyrir meiri skakkaföllum en óhjákvæmileg eru vegna þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu. Það er líka verkefni okkar núna að tryggja það að fyrirtækin sem eru mörg góð og eru með ágæta framlegð og eiga ágæta framtíð fyrir sér lendi ekki í kröppum dansi vegna gjaldþrotahrinu. Þetta eru þau verkefni sem við eigum að vera að sinna núna á næstu vikum. Við höfum verið í heilmiklu björgunarstarfi að undanförnu og það mun halda áfram. Og meðan við erum í því starfi þá eigum við ekki að leggjast í pólitískt karp í aðdraganda kosninga.

Það er mikið verk fram undan þótt mikið hafi verið unnið. Ég vil nefna hér atriði sem skipta miklu máli, af því það hefur verið talað eins og þetta séu smáhlutir sem gerðir hafa verið varðandi hag heimilanna, en það er mjög mikilvægt að það hefur verið tekið á því og lagt fram frumvarp um að greiðslubyrði verðtryggðra lána lækki um 10–20%, það er frysting gengistryggðra lána, það er sveigjanleiki gagnvart fólki í greiðsluvanda, auknar heimildir til Íbúðalánasjóðs til þess að mæta því fólki, lagabreytingar um að lækka dráttarvexti tímabundið, þak á innheimtukostnað, skilyrði um að það sé gengið varlega gagnvart því fólki sem skuldar opinber gjöld og það sé ekki gengið að launum þess með þeim hætti sem oft hefur tíðkast. Það á að koma í veg fyrir að barnabætur séu jafnaðar út á móti sköttum og tryggja að vaxtabætur fari beint til heimilanna en verði ekki teknar til að skuldajafna og að búinn verði til sveigjanleiki til samninga um skattaskuldir og mildari innheimtuaðferðir.

Allt þetta hefur verið ákveðið. Allt þetta skiptir máli. En þetta er ekki það eina sem þarf að gera því það er auðvitað margt fleira sem við verðum að vinna að og við verðum að tryggja það að heimilin í landinu komist sæmilega í gegnum þetta mikla brim sem á okkur skellur núna.

Virðulegur forseti. Ég hef nefnt hér aðeins bæði aðdragandann að þeirri stöðu sem við erum í og þau verkefni sem við stöndum andspænis. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt að ég tel mikilvægt að við snúum bökum saman og sinnum þessum verkefnum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu á komandi vikum en eyðum ekki dýrmætum tíma fram að áramótum í karp um kosningar og skylmingar sem því fylgja.