136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa ágætu umræðu en bendi á það að frumvarpið sem við hér ræðum er í rauninni sjálfsagt. Þegar vörur eru fluttar á milli landa á að taka af þeim tolla og gjöld þegar þau er flutt inn í löndin og síðan á að endurgreiða þann toll með afskriftum þegar þær eru fluttar til baka. Þetta er mjög eðlileg aðferð og eðlilegt frumvarp og eiginlega það eina athugaverða sem ég sé við það er að það skuli vera tímasett, að það skuli renna út 1. apríl 2009. Ég legg til að það verði skoðað í hv. nefnd.

Það hefur borið á því undanfarið eftir að krónan féll og öll þessi vandræði komu upp að fólk hafi tekið gengistryggð lán þrátt fyrir viðvaranir um annað. Nú er það komið í mikil vandræði. Maður keypti kannski jeppa upp á 4 milljónir með jenaláni, jenið hefur tvöfaldast eða rúmlega það þannig að nú skuldar hann allt í einu 8 milljónir. Lánið sem fjölskyldan taldi sig ráða við er orðið svo mikið og þungt að vöxtum að fjölskyldan ræður ekkert lengur við það. Nú er spurningin hvort við eigum við að segja: Ja, þú gast vitað þetta sjálfur, þetta er bara þér að kenna. Það tel ég ekki sæmandi. Við vitum líka að öllu fólki er ráðlagt að reykja ekki en þegar það þarf samt seinna á heilbrigðiskerfinu að halda vegna reykinga segjum við ekki: Heyrðu, þú reyktir, vinurinn, og nú skaltu bara borga sjálfur. Það gerum við að sjálfsögðu ekki. Við tökum tillit til stöðu fólks sem það er komið í, hvort sem það olli þeirri stöðu sjálft eða ekki. Mér finnst mjög mikilvægt að við tökum á þessari stöðu og reynum að leysa hana eins og hægt er.

Það er ljóst að allir þessir bílar með erlendu gengisláni eru með lánið í gjaldeyri þannig að þegar menn selja þá til útlanda og fá gjaldeyri fyrir reikna ég fastlega með að viðkomandi eigendur borgi lánið sitt með gjaldeyri þannig að þeir flytji gjaldeyrinn heim. Annað væri afskaplega vitlaust, að skulda áfram gjaldeyri og eiga gjaldeyri í útlöndum. Ég sé ekki annað en að menn mundu bara losa sig við dæmið með því að flytja gjaldeyrinn heim. Ég skil ekki af hverju menn óttast að þessi gjaldeyrir skili sér ekki. Það getur vel verið að einhver eigi bíl sem er ekki með gengisláni, þá er það eins og hver annar útflutningur og hann skilar þá væntanlega gjaldeyrinum heim, nýtir háa gengið sem er á gjaldeyrinum í dag, lága gengið á krónunni eins og aðrir sem eru í útflutningi. Ég sé ekki annað en að gjaldeyririnn muni skila sér heim á þennan eða hinn háttinn.

Svo má benda á að allur þessi bílafloti, sem væntanlega er ónotaður því að menn væru varla að selja bílana nema af því að þeir eru ónotaðir, grotnar niður. Þessir bílar eru ónýtir eftir átta eða tíu ár, það er afskriftatími bíla. Þeir grotna niður í hverjum einasta mánuði og það er þjóðhagslega mikilvægt að koma þessum bílum í verð, í notkun, þó að það sé í útlöndum og alveg sérstaklega er gott fyrir þjóðina að fá gjaldeyri í staðinn.