136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég fullvissa hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um að það er engin nauðsyn eða þörf á því að hotta á okkur í Samfylkingunni sem sitjum í þessari nefnd. En nú keppast þingmenn allra flokka um að koma upp í pontu og lýsa því yfir að þeir ætli alls ekki að tefja þetta mál eða koma í veg fyrir framgang þess og það er vel. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að hv. þm. Helgi Hjörvar spyrjist fyrir um störf þingsins sem þessi liður fjallar um og kalli eftir upplýsingum í þingsal um það hvernig nefndarstarfið gengur varðandi þetta mikilvæga mál. Sömuleiðis skiptir miklu máli að hér koma fulltrúar allra flokka og segja að þeir ætli að einbeita sér að því að tefja ekki málið og það er vel. Þá liggur sú afstaða fyrir og það hjálpar okkur í allsherjarnefnd að klára málið svo það megi komast sem allra fyrst hingað í þingsal. Það er þverpólitísk samstaða um það og þá liggur það fyrir. Þess vegna held ég að þessi umræða sé gagnleg.

Það skiptir einnig miklu máli að mínu mati að við hröðum hinu málinu sem lýtur að óháðu rannsóknarnefndinni sem ég á von á að komi mjög fljótlega inn á borð þingsins. Sú vinna þarf einnig að vera mjög hröð á vettvangi þingsins. Ég get alveg tekið undir orð þeirra þingmanna sem hafa sagt að við getum ekki tafið mjög mikið við upphaf rannsókna á þessum málum. Ég held að það sé algjör forsenda fyrir því að hér geti hafist endurreisnarstarf að þessar rannsóknir fari báðar í gang því annars mun okkur ekki takast að auka trúverðugleika og traust í samfélaginu en það er númer eitt, tvö og þrjú að mínu mati.