136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

jafnræði kynja í ríkisbönkum.

126. mál
[14:47]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir skuli tala hér um jafnrétti kynjanna í nýju bönkunum og vil minna á þrjú atriði.

Í fyrsta lagi: Eitt af því sem ku hafa orsakað bankakreppur á Norðurlöndunum í byrjun tíunda áratugarins var einmitt hin gríðarlega áhættusækni ungra bankamanna, karlkyns, sem sérstaklega þótti hafa valdið þessu. Ég held að þegar við veltum við öllum steinum munum við kannski komast að svipaðri niðurstöðu. Hugtakið áhættumeðvitund var kynnt fyrir mér í fyrsta skipti af stjórnendum Auðar Capital. Auður Capital er fjármálafyrirtæki sem stýrt er af konum. Ég fagna því að við skulum ræða þetta sérstaklega.

Mig langar í öðru lagi að nefna að rannsóknir sýna að konur standa betur í skilum en karlar.

Í þriðja lagi langar mig að nefna (Forseti hringir.) að ungar konur í Háskólanum í Reykjavík vöktu athygli mína á því að þær fengju gjarnan stöður á fyrstu hæð (Forseti hringir.) á meðan ungu drengirnir, skólafélagar, sem jafnvel stóðu sig ekki eins vel í námi, fengu stöðurnar á efstu hæðinni. (Forseti hringir.) Ég vildi gjarnan segja meira um þetta en nóg í bili.

(Forseti (ÞBack): Meira verður ekki sagt á einni mínútu.)

Nei.