136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

skipan nýs sendiherra.

[10:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég veit ekki betur en að Samfylkingin hafi gagnrýnt mjög á síðasta kjörtímabili að offramboð væri á sendiherrum í utanríkisþjónustunni og að utanríkisþjónustan væri að blása út. En það er staðreynd (Gripið fram í.) að núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur skipað fjóra sendiherra á stuttum tíma í sinni tíð, þar af einn fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins og nú síðast nánasta samverkamann sinn til margra ára.

Verið er að beita pólitískum ráðningum og þegar hæstv. ráðherra segir að starfsmenn utanríkisþjónustunnar eigi að fá eðlilegan framgang í störfum sínum vil ég benda á að Kristín Árnadóttir hefur einungis unnið í ráðuneytinu í eitt ár á meðan við höfum hæft starfsfólk í utanríkisráðuneytinu sem þarf að bíða enn lengur eftir því að fá framgang í starfi. (Forseti hringir.) Hér er um einkavinavæðingu að ræða í utanríkisráðuneytinu og hér erum við að tala (Forseti hringir.) um utanríkisráðherra núverandi sem talaði fyrir siðbótum í íslenskum stjórnmálum en hefur verið manna duglegust á stuttum tíma í embætti (Forseti hringir.) við að ráða pólitíska skipaða sendiherra og hindra þar með framgang mjög hæfra embættismanna í utanríkisþjónustunni.