136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:02]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var eins og hv. þingmaður læsi hugsanir mínar því að í lok ræðu sinnar fór hann nánar í þau atriði sem ég vildi að hann skýrði betur, en ég vildi aðeins biðja hv. þingmann að hnykkja frekar á því hvernig hann sér hlutina ganga fyrir sig. Mér skilst á honum að hann sé að boða breytingar í allsherjarnefnd, hann nefndi 13. gr. og hann nefndi fyrirkomulag stóru nefndarinnar, þ.e. rannsóknarnefndarinnar sjálfrar. Hann talar annars vegar um heildstæða rannsókn og hins vegar um hliðarrannsóknir og hann talaði fyrir því að hliðarrannsóknirnar færu undir heildarrannsóknina.

Mig langar að heyra bara á einfaldan hátt, hæstv. forseti, frá hv. þingmanni hvort hann er að mæla fyrir því að rannsóknarnefndin sjálf, sem mælt er fyrir um í 1. gr., verði stækkuð og hvort hann er að mælast til þess að þeir háskólamenntuðu einstaklingar, sem samkvæmt 2. gr. er gert ráð fyrir að skipi sjálfstæðan vinnuhóp um hinn siðferðilega þátt, eigi þá sæti í nefndinni sem mælt er fyrir um í 1. gr.