136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[15:58]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu umboð Alþingis til ríkisstjórnarinnar til að semja við Evrópusambandið um hvernig — ekki hvort heldur hvernig — hinir umtöluðu Icesave-reikningar skulu greiddir. Í plagginu kemur fram að unnið hafi verið skipulega að því í gegnum tengslanet utanríkisþjónustunnar að kynna málstað og málaleitan Íslands fyrir aðildarríkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í hverju fólst sú vinna, virðulegi forseti? Hverjir unnu hana, hvernig og hvar? Hver var málstaðurinn og hvernig var málaleitanin? Nauðsynlegt er að fá þetta upp á yfirborðið til að hægt sé að gera sér grein fyrir því hvers vegna málið er borið fram.

Eitthvað gerðist, virðulegi forseti, sem enginn treystir sér til að segja frá. Framan af virtust samningaviðræður við Breta og Hollendinga vera í góðum farvegi. Það næsta sem þjóðin veit er að hryðjuverkalöggjöf hefur verið beitt á Íslendinga. Þó flytur seðlabankastjóri þjóðinni fregnir í véfréttarstíl um að hann viti um símtöl sem áttu sér stað sem skýrt geti hvað gerðist. En formaður Samfylkingarinnar felur þennan sama seðlabankastjóra undir pilsfaldi sínum, sem verður að teljast einkennilegt í ljósi sögunnar.

Í plagginu er talað um einangrað Ísland og hæstv. utanríkisráðherra minntist reyndar á það áðan. Hvers vegna ætli það sé? Svo virðist sem einhvers konar loforð hafi verið gefin af hæstv. viðskiptaráðherra á fundi með fjármálaráðherra Breta 2. september, eða eftir atvikum forsætisráðherra eitthvað síðar. Ekki er auðveldlega hægt að átta sig fyllilega á því þar sem upplýsingar um einstaka fundi eru trúnaðarmál eins og svo margt annað þessa dagana. Þessi loforð dró hæstv. fjármálaráðherra til baka í frægu símtali sem lesa mátti um í ýmsum miðlum 23. og 24. október og í millitíðinni birtust dæmalausar hótanir seðlabankastjóra um að menn ætluðu ekki að borga skuldir óreiðumanna erlendis. Daginn eftir það viðtal sagði forsætisráðherra á blaðamannafundi að skuldir bankanna væru meiri en þjóðarbúið réði við en sérstök áhersla var lögð á að kröfuhöfum yrði ekki mismunað, t.d. á grundvelli þjóðernis. Síðar sagði þessi sami forsætisráðherra: Við munum ekki láta kúga okkur. En þá hafði málið snúist í höndunum á þeim og Íslendingar áttu ekki bara í höggi við Breta og Hollendinga heldur 27 ríki Evrópusambandsins.

Málið sem rætt er í dag er því að öllum líkindum til komið vegna þess að menn höfðu ekki hugmynd um hvert þeir voru að fara með það og ekki verður betur séð en menn hafi gefið loforð og dregið þau svo til baka og algerlega ópólitískur seðlabankastjóri hafi sent afar skýrar hótanir um vanefndir eftir hrunið mikla. Hvernig eiga menn að skilja svo mótsagnakennd skilaboð í alþjóðasamstarfi? Þetta er ekki trúverðugt, virðulegi forseti, og ekki til þess fallið að verða okkur til framdráttar. Af þeim sökum er í dag til umræðu mál sem fæstir hv. þingmanna hafa nokkra hugmynd um.

Frú forseti. Í stjórnarskránni segir í 1. gr. að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Ég leyfi mér að leggja sérstaka áherslu á þessi tvö síðustu orð, þingbundinni stjórn. Ekki ríkisstjórnarbundinni stjórn heldur þingbundinni stjórn. Á undanförnum vikum hafa komið fram alls kyns mál sem meira eða minna eru neyðarviðbrögð við því ástandi sem skapaðist í byrjun október. Þingmenn hafa lesið um flest þeirra í blöðunum vegna þess að ríkisstjórn landsins treystir sér ekki til að hleypa fleirum að borðinu. Sum mál eru umdeildari en önnur en grunninn lögðu neyðarlögin, sem brjóta freklega gegn viðurkenndum hugmyndum um réttarríkið, og í framhaldinu hafa stjórnvöld svo haldið áfram að leika sér að stjórnarskránni, þingræðinu og valdinu.

Fyrir þingið er í dag lögð tillaga um að ríkisstjórninni verði falið að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um. Hvaða viðmið eru það, virðulegi forseti? Það er viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu, eins og segir í plagginu. Hver er þessi lagalega staða? Hún er sú að Íslendingar gefa frá sér allan rétt til að fara með deilumál um réttarstöðu sína til viðeigandi dómstóla. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, íslensk stjórnvöld beygja þjóð sína í duftið eftir að forsætisráðherra fullvissaði okkur um að við mundum ekki láta kúga okkur og leggja á herðar hennar þyngri byrðar en fyrirfinnast á byggðu bóli. Stjórnvöld hafa ekki bara sent íslensku þjóðinni heldur heimsbyggðinni allri mótsagnakennd skilaboð sem ómögulegt er að ráða í. Skilaboð, sem hæfa ekki sjálfstæðri og stoltri þjóð sem nú er litið á sem glæpamenn og ribbalda. Þetta voru skilaboð sem sendu okkur beint á lista í félagi við talíbana og al Kaída liða, þökk sé núverandi ríkisstjórn. Við eigum í dag að veita þessari sömu ríkisstjórn, sem skiptist á að senda loforð og hótanir til þeirra ríkja sem deilan tók til, umboð til að semja fyrir okkar hönd um greiðslur reikninganna — og nú detta mér í hug gamlir sjónvarpsþættir sem hétu Húsbændur og hjú. Í hvaða samningsstöðu eru íslensk stjórnvöld gagnvart Bretum eftir að hafa veifað atgeirnum, haft yfir hótanir og skellt hurðum í ráðherrabústaðnum á Tjarnargötunni? Hér bjuggu menn til alþjóðadeilu sem snerist m.a. um loftrýmiseftirlit og teygðu sig inn í NATO. Munu íslensk stjórnvöld eftir þá framkomu setjast að samningaborðum eins og fínt fólk, íslensk stjórnvöld sem eru í raun umboðslaus, enda hefur íslenska þjóðin hafnað þeim?

Við vitum ekki hvaða kjör við fáum á lánin sem Bretar og Hollendingar ætla að veita okkur. Það kom fram í svari hæstv. utanríkisráðherra áðan en fróðlegt væri, virðulegi forseti, að vita hvað varð til þess að Bretar beittu hryðjuverkalöggjöfinni. Hvers vegna er seðlabankastjóri ekki dreginn upp á dekk og látinn tala? Hvað hefur hann að fela? Hvernig getur formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, haft geð í sér til að geyma manninn undir pilsfaldi sínum eftir að hafa látið bóka á ríkisstjórnarfundi að sami seðlabankastjóri sitji ekki í umboði Samfylkingarinnar? Í minni sveit hét þetta hræsni, virðulegi forseti.

Vel má vera að hægt sé að lögsækja Breta fyrir beitingu laganna en fyrst þurfum við að átta okkur á staðreyndunum og svo væri gott að vita hvað hæstv. utanríkisráðherra átti við þegar hún sagði að ummæli seðlabankastjóra um að við ætluðum ekki að borga skuldir óreiðumanna erlendis trufluðu mögulega lögsókn.

Rétt er að minnast á að kannski er orðið dálítið seint að sækjast eftir þessu umboði löngu eftir að ríkisstjórnin hefur gengið frá öllu saman. Við vitum að sá samningur sem ríkisstjórnin óskar umboðs fyrir í dag er forsenda þess að lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fáist. Það er því málamyndagerningur að koma með þetta plagg inn í þingið eftir að fyrsta greiðsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er komin inn á reikning Seðlabanka Íslands í seðlabanka Bandaríkjanna. Þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna í gær sá Davíð Oddsson seðlabankastjóri ástæðu til að leiðrétta frétt Ríkissjónvarpsins um hvenær fyrsta greiðsla bærist, frétt sem höfð var eftir stjórnvöldum á fundi í gær. Svo halda menn því fram að ríkisstjórnin og Seðlabankinn gangi í takt, virðulegi forseti. En fyrsta greiðsla hefur borist, þrátt fyrir að stjórnvöld hafi enn ekki fengið formlegt umboð þingsins til að semja um forsendur þess að lánið fáist.

Þá hlýt ég að minna enn og aftur á að Ísland er lýðræðisríki með þingbundinni stjórn. Umboðið sem Alþingi á að veita ríkisstjórninni eftir það sem á undan er gengið — og eftir atvikum hvort menn treysta henni fyrir slíku umboði — er eitt. Hitt er síðan hvert umboðið er og þá langar mig, virðulegi forseti, að leggja fram nokkrar spurningar og fróðlegt væri að vita hvort búið er að leggja mat á hverjar heildarskuldbindingarnar eru ef allt er talið, lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þessir samningar og allt annað sem ríkissjóður eða fólkið í landinu þarf að standa undir og hvaða afleiðingar það hefur. Hafa menn reiknað út hvað hægt er að skuldsetja þjóðina mikið áður en grunnstoðir samfélagsins bresta? Hver er sársaukaþröskuldur landsmanna hvað varðar skatta og skerðingu á grunnþjónustu samfélagsins, eins og menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu. Hvaða umboði er óskað eftir í dag? Hvað þýðir t.d. síðasta setningin í 3. lið, með leyfi, virðulegi forseti:

„Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.“

Ég óttast að ríkisstjórnin fari afar frjálslega með skilgreiningar á „eftir því sem aðstæður krefjast“.

Nú er mér sem umboðsmanni kjósenda í Suðurkjördæmi óhætt að skrifa upp á óútfylltan tékka hvað þetta varðar. Hvers vegna, virðulegur forseti, krefst alþjóðasamfélagið þess að Íslendingar, þessi ríflega 300 þúsund manna þjóð, taki á sig hlutfallslega margfaldar byrðar ef réttarstaða þeirra er lögóákveðin? Hvað gerðist, virðulegi forseti? Fróðlegt væri að fá svör við því áður en þingheimur svarar spurningunni um hvort umboð stjórnvalda til að semja um innstæður á Icesave-reikningum erlendis fáist.