136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[03:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að ég hafi sagt að þarna væri um að ræða óskyld mál. Þau eru auðvitað tengd eins og kom fram í fyrra andsvari mínu. Hins vegar er um að ræða sjálfstæða ákvörðun sem Alþingi stendur frammi fyrir varðandi að samþykkja þetta frumvarp eða ekki. Það er sjálfstæð ákvörðun sem Alþingi getur tekið eða hafnað eftir atvikum og það var það sem ég vildi leggja áherslu á. Það stendur ekki í einhverjum lögbundnum tengslum við þá þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður vísaði til.

Varðandi tímann sem hefur verið gefinn til þess að fjalla um þetta mál þá er hann vissulega stuttur. Ég held að ég tali fyrir munn allra þingmanna sem að þessu máli hafa komið að auðvitað er vont að vera í þeirri stöðu að þurfa að afgreiða málið með svo skjótum hætti. Hins vegar á það sér skýringar eins og kom fram í máli hv. formanns allsherjarnefndar áðan. Þetta mál er þess eðlis að því verður að ljúka áður en markaðir opna þannig að aðilar geti ekki reynt að spekúlera eða hagnýta sér í fjármagnshreyfingum að frumvarpið sé komið fram og þær áætlanir sem þar birtast.

Ég hygg að hv. þm. Jón Bjarnason hljóti að hafa skilning á að það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að einhverjir aðilar nýti sér slíkar upplýsingar til þess að spekúlera vegna þess að afleiðingar þess gætu verið skaðlegar. Það skýrir hversu hratt þarf að vinna þetta mál hér í þinginu.

Hins vegar eru efnisatriðin sem frumvarpið felur í sér ekkert afskaplega flókin. Það felur í sér ákveðnar hömlur á fjármagnsflutningum, ákveðnar gjaldeyrishömlur, og (Forseti hringir.) ég held að það væri gagnlegt ef hv. þm. Jón Bjarnason gæti lýst skoðun sinni á nauðsyn slíkra ráðstafana í síðara andsvari sínu.