136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

svæðisstöðvar RÚV.

[11:03]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Á morgun er fyrirhuguð utandagskrárumræða um rekstrarstöðu og stöðu Ríkisútvarpsins og er það vel. En ég vil beina orðum mínum til hæstv. samgönguráðherra sem ráðherra sveitarstjórnarmála um það hvort hann muni beita sér fyrir því að halda svæðisstöðvum Ríkisútvarpsins gangandi og opnum og efla þær frekar en hitt og beita sér gegn þeim fyrirhugaða niðurskurði að loka (Gripið fram í.) stöðvunum.

Ég vil beina þessum orðum til hæstv. samgönguráðherra vegna stöðu sveitarfélaganna og mikilvægi svæðisstöðvanna í að efla og styrkja atvinnu á viðkomandi svæðum úti á landi vegna þeirrar stefnu að dreifa opinberum störfum og mikilvægi þess að koma rödd hinna dreifðu byggða inn í svæðisútvarpið. Koma á framfæri málefnum, viðburðum og öðrum sjónarmiðum en við heyrum á stöðvunum sem fólk á höfuðborgarsvæðinu ljær raddir sínar. Það þarf að fá raddir hinna dreifðu byggða inn í Ríkisútvarpið.

Því beini ég orðum mínum til hæstv. samgönguráðherra en ekki menntamálaráðherra, sem situr fyrir svörum á morgun, og ekki til iðnaðarráðherra út af ferðaþjónustunni. En þetta allt styrkir byggð í landinu. Svæðisútvörpin eru mikilvægur póstur til að styrkja byggð í landinu og mikilvægt fyrir sveitarstjórnir að hafa þann stuðning sem svæðisstöðvarnar eru.