136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[18:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil óska okkur öllum og hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með náttúruverndaráætlunina sem er komin fram og hafna þeim athugasemdum að vont sé að fá málið fram svo skömmu fyrir lok þingsins fyrir jól og vil taka fram að ekki stendur til að ljúka umfjöllun um málið á þeim skamma tíma sem við erum á þingi núna. Ástæða er til að vekja athygli á því að iðulega hafa þingnefndir talsvert svigrúm í janúarmánuði til umfjöllunar um mál áður en þing kemur saman að nýju og þá gefst tækifæri til að kalla eftir viðbrögðum í þá umræðu sem sannarlega er mikilvægt að fari fram um málið. Þar er ekki síst ástæða til að fagna þeim stóru og merkilegu áföngum sem Langisjór og Þjórsárver eru í áætluninni.

Efnisleg umfjöllun um einstök svæði sem áætlunin nær til bíður 2. umr. um málið þegar við höfum leitað viðbragða við því og fjallað um það í umhverfisnefnd. Ég vil þó segja að það er sjaldan í ræðustól Alþingis að sá sem þar stendur sakni sjónar sinnar en þegar fjallað er um þetta mál — og af svipuðum ástæðum og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi — er ekki aðeins þingmálið einstaklega vel úr garði gert heldur úir þar og grúir af óvenjulega fallegum og lýsandi íslenskum orðum yfir hvað eina í íslenskri náttúru eins og hv. þingmaður vakti athygli á. Við þann lestur eykst manni skilningur á því hvers vegna hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson hafa stundað líffræði, því það hlýtur að vera hrein unun að lesa til prófs jafnfallegt mál og hér er víða að finna. Ég hvet þá sem fylgjast með umræðunni til að fara á vef Alþingis (Gripið fram í.) — samanber Jónas, hæstv. iðnaðarráðherra. (Iðnrh.: Samanber Jónas?) Já, — og kynna sér málið því þar er marga perluna að finna.

Efnislega eru nokkur atriði sem eru umhugsunarverð fyrir okkur í umfjöllun áætlunarinnar. Mér þykir að hér hafi menn lært af þeirri reynslu sem hefur fengist frá því að lögin voru sett 1999 og að nálgunin, það að leitast við að verja plöntur, mosa, fléttur o.s.frv. og friða þess vegna tiltekin svæði en ekki að friðlýsa friðlýsingarinnar vegna, sé ákaflega vel rökstudd aðferðafræði og líkleg til að bæði skapa sátt um og ná þeim árangri sem máli skiptir í náttúruverndinni. Hins vegar hljótum við að velta því fyrir okkur hvers vegna ekki hefur tekist betur til með þær friðlýsingar sem fyrirhugaðar voru í þeirri náttúruverndaráætlun sem er að renna úr gildi. Þar verðum við að horfast í augu við að á undanförnum árum hefur, a.m.k. sums staðar, gætt nokkuð vaxandi andstöðu við friðlýsingar af hálfu landeigenda og hagsmunaaðila á svæðinu. Það held ég að megi sumpart rekja til þess að ýmis dæmi eru um að farið hefur verið út í friðlýsingar án þess að því hafi fylgt uppbygging og fjárfesting í kringum svæði sem skorður hafa verið settar við nýtingu á út frá þjóðarhagsmunum. Ef aðgerðir okkar á Alþingi til verndar náttúrunni fela ekki í sér neitt annað en takmarkanir á umsvifum manna er eðlilegt að andstaða við þá viðleitni vaxi. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að þessum aðgerðum fylgi jákvæðar og framsæknar aðgerðir til að styðja og styrkja þau svæði þar sem friðlýst er. Ég held að Vatnajökulsþjóðgarður, stærsti þjóðgarður Evrópu, verði gríðarlegur prófsteinn fyrir Alþingi í því hvort við látum fjármuni fylgja þeirri risastóru ákvörðun í gegnum súrt og sætt til að byggja upp atvinnu og hvers kyns starfsemi í kringum það sem við sköpum með þessum ákvörðunum þannig að bæði verði sátt og hreinlega ánægja og eftirsókn eftir slíkum aðgerðum.

Í því sambandi held ég að einnig verði óhjákvæmilegt fyrir okkur að ræða á næstu mánuðum í þinginu — sérstaklega í ljósi þess með hvaða hætti efnahagsmálin hafa þróast — hvort við séum í tengslum við það tilbúin til að ráðast í einhvers konar gjaldtöku í ákveðnum tilfellum til að standa straum af þeirri uppbyggingu sem Alþingi hefur iðulega ekki verið tilbúið til að láta fjármuni renna til og leitast þannig við að auka áhrif og eftirspurn eftir aðgerðum eins og þessum. Sömuleiðis held ég að við hljótum að þurfa að huga að skipan þessara mála og því að við höfum þjóðgarða með ólíkum yfirstjórnum og ólíku fyrirkomulagi. Við höfum friðuð svæði með öðru fyrirkomulagi, nefndir sums staðar, hlutverk Umhverfisstofnunar og fólkvanga, þar sem sveitarfélögin skipa í stjórnir, og öll virðist flóran vera orðin býsna margbreytileg. Þó að mikilvægt sé að flóra Íslands sé margbreytileg er ég ekki viss um að það sé endilega kostur þegar stjórnsýslan er annars vegar. Hér getum við líka nefnt Þingvallanefnd sem er svo enn sérstakt fyrirkomulag á því hvernig haldið er utan um þjóðgarða og svæði sem njóta friðunar af einu eða öðru tagi. Við hljótum að þurfa að ræða hvort við eigum ekki að halda utan um þessi gríðarlega stóru landsvæði, friðlýsingar- og náttúruverndarsvæði, sem orðin eru í einni stofnun undir einni stjórn. Þannig að þekkingu sé miðlað frá einu svæði til annars, frá stöðum sem lengi hafa verið í þróun og hafa mikla reynslu til annarra innan sömu skipulagsheildar. Ég held að almennt hljóti talsverð rök að hníga að því að árangursríkari aðferð við það væri að byggja vel og skipulega upp starfsemi í þjóðgörðum og friðlöndum á Íslandi heldur en aðferðirnar sem nú eru notaðar. Frekari umfjöllun um þetta bíður 2. umr. en ég hlakka til að taka málið til umfjöllunar í umhverfisnefnd og lofa því sem formaður hennar að gefa öllum þeim kost á því að koma að umsögnum og umfjöllun um málið, sem eftir því leita.