136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

samráð ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin.

[15:30]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það hefur gefist okkur vel að leita eftir virku samráði við launþegasamtök og stéttarfélög þegar fjárhagsvandi og atvinnuleysi hafa steðjað að okkar þjóð. Ég hygg að það sé okkar sameiginlega reynsla og að slíkt samráð hafi verið til bóta.

Eins og nú horfir í atvinnumálum eru því miður líkur á því að óbreyttri þróun mála að atvinnuleysi muni jafnvel nálgast 5% markið um áramót og að þá verði jafnvel allt að 9.000 manns hér á landi án atvinnu, þeir eru í dag þegar yfir 8.000. Verði svo sem hér var sagt er ljóst að enn getur harðnað á dalnum yfir háveturinn, þ.e. fram til marsmánaðar 2009. Þessi staða er grafalvarleg og ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvernig ríkisstjórnin ætli að vinna gegn því að staðan geti t.d. orðið sú á fyrstu mánuðum komandi árs að það verði jafnvel allt að 10.000 manns hér á landi án atvinnu.

Hæstv. forseti. Mér er tjáð að engin efnisleg vinna sé farin af stað millum launþegasamtaka og verkalýðsfélaga við ríkisstjórnina um hvað megi verða til varnar í atvinnumálum, t.d. um forgangsröðun verkefna á vegum ríkisins og/eða sveitarfélaga með aðkomu ríkisins í svokölluðum mannaflsfrekum framkvæmdum sem m.a. ráðherrar hafa nefnt iðulega í ræðum sínum.

Mörg verkalýðs- og sjómannafélög vítt og breitt um land sem og bæjar- og sveitarstjórnir hafa á undanförnum vikum og mánuðum tekið undir þá tillögugerð þingmanna okkar í Frjálslynda flokknum að auka þorskkvótann nú þegar á þessu fiskveiðiári. Ekki fer á milli mála að oft var þörf en nú er algjör nauðsyn að grípa til allra þeirra ráða sem geta aukið við atvinnu og tekjur þjóðarinnar.

Oft hefur áður við atvinnubrest og tekjufall verið gripið til þess að afla meira til að komast yfir erfiðleikatímabil, t.d. 1968, við hrun norsk-íslenska síldarstofnsins og eftir 1984 þegar veiðar voru m.a. heimilaðar á svæðum í öðrum fisktegundum en þorskinum.

Þá voru einnig gerðar víðtækar aðgerðir í lánamálum og vaxtalækkunum sem ráðherrar gætu jú kynnt sér og lært af.

Áður en ég vík frá sjávarútveginum vil ég spyrja ríkisstjórnina hvort það hafi verið rætt að auka síldveiðar úr sýktum síldveiðistofni á veiðisvæðum til bræðslu enda líkur á því að stór hluti síldarinnar drepist hvort sem er. Það gæti hins vegar aukið smit í aðra fiskstofna og varla er nú á það ástand bætandi.

Ég vil einnig nefna hvort ríkisstjórnin ætli sér að auka hvalveiðar, þar eru mörg atvinnutækifæri í boði.

Atvinnuleysið vex nú hraðast á Stór-Reykjavíkursvæðinu og því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvað ríkisstjórnin viti um ný verkefni til aukinnar atvinnu. Er t.d. væntanleg aukning á starfsemi og uppbyggingu Elkems á Grundartanga að því er varðar kísilflöguverksmiðju og hvað er á borðinu um hin svokölluðu netþjónabú sem talsvert hefur verið rætt um? Hafa farið fram viðræður milli ríkisstjórnar og sveitarfélaga um horfur í atvinnumálum sveitarfélaga á landsbyggðinni annars vegar og á Stór-Reykjavíkursvæðinu sérstaklega vegna þróunar atvinnumála á því svæði? Hafa launþegasamtök komið að þeim viðræðum ef þær hafa átt sér stað? Eru einhverjar þær framkvæmdir tilbúnar til útboðs, t.d. í einkaframkvæmd, sem auðveldað gæti fjármögnun verkefna eins og nú árar fyrir skuldugum ríkissjóði?

Ferðaþjónustan gæti einnig vaxið enn frekar og margt bendir í þá átt að vænlegt sé nú að efla kynningarstarf erlendis. Ekki veitir af að auka gjaldeyristekjur inn í landið. Ég spyr því hvort unnið sé að því að efla frekari stuðning við ferðamennskuna.

Launþegasamtökin hafa lagt mikla áherslu á að ná niður verðbólgu og ná þannig að vinna gegn kaupmáttarlækkunum launafólks. Verðbólgan nálgast nú 20% og mælir vísitölu verðtryggðra lána. Þeir fjölmörgu sem keypt hafa húsnæði á síðustu 4–5 árum munu brátt eiga minna en ekkert í húsum sínum. Íslendingar hafa löngum litið svo á að eign þeirra í (Forseti hringir.) eigin húsnæði væri hluti þess lífeyris sem fólk ætti eftir starfsævina.

Ég spyr einnig hér, hæstv. forseti, um verðtryggingar, (Forseti hringir.) ég spyr um það hvað megi verða til betri vegar að því er varðar lífeyrisréttindi fólks, t.d. frítekjumark (Forseti hringir.) og ég spyr um séreignarsparnað sem mætti nota til (Forseti hringir.) uppgreiðslu á húsnæðislánum — án skattlagningar, hæstv. forseti.