136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir margt sem fram kom í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar enda hygg ég að við séum sammála um málið í öllum megindráttum.

Varðandi það atriði sem hann nefndi síðast sem snertir stöðu Fjármálaeftirlitsins og skilanefnda reifum við ákveðnar vangaveltur um það í nefndarálitinu. Skilanefndirnar veita hinum nýju bönkum forstöðu og starfsmenn þeirra banka eru starfsmenn sérstakra félaga sem lúta eftirlitssviði Fjármálaeftirlitsins. Skilanefndirnar eru sjálfstæðar í störfum sínum og lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Því hygg ég eftir nokkra yfirlegu að ekki séu fyrir hendi þær formlegu vanhæfisástæður sem hv. þingmaður vék að í máli sínu. Ég hygg því að ekki sé ástæða til að ætla að Fjármálaeftirlitið verði vanhæft til að fjalla um hugsanleg brot sem kunna að hafa átt sér stað innan gömlu bankanna, sem við köllum svo, og á ábyrgð skilanefndanna heldur eigi Fjármálaeftirlitið að geta fjallað um það með sama hætti og annað.

Við leggjum hins vegar áherslu á, vegna þess að auðvitað verða þessi mál að vera hafin yfir grun og vafa eins og hægt er, að það verði skýrar boðleiðir milli embættis sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitsins í þessum tilvikum, að upplýsingagjöf Fjármálaeftirlits og upplýsingaskylda til saksóknara verði ríkari og meiri en lög gera ráð fyrir að öðru leyti. Það verður því ekkert leynimakk í þessu sambandi. En ég vek athygli á því að ég tel ekki að um sé að ræða vanhæfi Fjármálaeftirlitsins til að fjalla um hugsanleg brot sem kunna að eiga sér stað í störfum nýju bankana.