136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[18:49]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að fjalla stuttlega um þetta mál, frumvarp til laga um embætti sérstaks saksóknara. Ég held að allir í þessum sal og þjóðin átti sig á að það eru óvenjulegar aðstæður í samfélaginu og óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjuleg úrræði, enda ber að viðurkenna að það úrræði sem við erum að mælast til að verði að lögum er óvenjulegt fyrir margar sakir með því að fara þá leið sem hér á að fara, að stofna sérstakt embætti sem hefur það tiltekna hlutverk að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við og í kjölfar þeirra atburða sem leiddu til setningar neyðarlaganna. Ég held að slík rannsókn á vettvangi þessa embættis verði gríðarlega mikilvægur þáttur í því að byggja upp og auka traust og trúverðugleika í samfélaginu á nýjan leik. Það er ekki hægt að leyna því að maður skynjar mikinn óróa í samfélaginu. Það er tortryggni og vantrú á stjórnmálamönnum, ríkisstjórn, stofnunum, fjölmiðlum og verkalýðshreyfingu. Þetta er ástand sem ekki verður unað við að mínu mati og allir stjórnmálamenn þurfa að taka þátt í því að vinna gegn þessari tilfinningu sem óhjákvæmilega má finna hjá þjóðinni.

Þetta er ekki eini rannsóknarfarvegurinn sem þingið er að leggja til að þessi mál fari í. Til umræðu er líka í allsherjarnefnd frumvarp um óháða rannsóknarnefnd sem hefur annað og víðtækara hlutverk, eins og menn átta sig á við lestur þess máls, en ekki síður mikilvægt sem er að endurreisa hér trúverðugleika og traust og gera upp málin. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að uppgjörið, hvort sem það er á vettvangi sérstaks saksóknara eða hjá rannsóknarnefndinni, sé trúverðugt og að þjóðin hafi trú á að hér sé almennilega að hlutum staðið, að hér sé ekki á ferðinni neinn kattarþvottur eða einhver hagsmunatengsl sem trufla mat einstaklinga á viðkomandi vinnu. Þetta verður allt að hafa í huga þegar við fjöllum um þessi mál. Ég tel að þetta embætti verði mikilvægur farvegur. Þarna eru ýmis nýmæli sem ég vil minnast á og það er þá helst nýmælið sem lýtur að ákvæðinu um uppljóstrara, hvíslarana, að þeir hafi þarna aðgang til að koma með upplýsingar gegn því að losna við að verða fyrir saksókn. Þetta er úrræði sem á sér ekki fordæmi á Norðurlöndum en hefur þó nokkra stoð í ákvæðum samkeppnislaga og er gríðarlega mikilvægt. Ég hef reyndar lagt það til í þinginu að ganga lengra hvað þetta varðar, að hafa almennt ákvæði sem verndar heimildarmenn og uppljóstrara. Hlutverk uppljóstrara getur verið gríðarlega mikilvægt við að gera upp mál, koma á framfæri upplýsingum og eyða tortryggni og varpa ljósi á umdeild mál. Við sjáum þetta í löggjöf víða í kringum okkur og helst í hinum engilsaxneska heimi en það getur verið mikilvægur hluti af lýðræðinu að hafa svona farveg. Það er fagnaðarefni að þetta birtist með þessum hætti í þessu máli og verður fróðlegt að sjá hvort einstaklingar kjósi að fara þessa leið. Þessi leið er líka í frumvarpinu um rannsóknarnefndina, stóru sannleiksnefndina, og það verður einnig fróðlegt að sjá hvort menn nýti sér þetta úrræði þar.

Við breyttum þessu frumvarpi frá því að það kom fyrst í þingsal á þann veg að taka af öll tvímæli um að þessum sérstaka saksóknara beri að skoða einnig atburði sem áttu sér stað eftir setningu neyðarlaganna. Ég held að það sé mikilvægt. Sömuleiðis tel ég að óháða rannsóknarnefndin í hinu málinu þurfi einnig að skoða þá atburði sem áttu sér stað eftir setningu neyðarlaganna þannig að allt sé uppi á borðinu. Ég tel að það sé mjög gagnlegt einmitt fyrir þá einstaklinga sem snerta þessi mál og koma að þeim með einum eða öðrum hætti að þetta sé allt dregið í dagsljósið og öllum vafa sé eytt. Það gengur auðvitað ekki að sögur og orðrómur grasseri á meðan endurreisn samfélagsins fer fram, það þarf að eyða öllu slíku og það er ekki síst þeim einstaklingum sem hlut eiga að mál í hag.

Loks langar mig til að benda á og draga sérstaklega fram að þó að embættið um sérstakan saksóknara eða frumvarpið um rannsóknarnefndina sé ekki orðið að lögum, þá eru þær eftirlitsstofnanir sem við höfum að sjálfsögðu nú þegar farnar að rannsaka ýmsa þætti sem snerta bankahrunið. Við í viðskiptanefnd þingsins höfum haldið hartnær 20 fundi síðan bankahrunið átti sér stað og kallað eftir ýmsum upplýsingum til að varpa ljósi á málið því að það eru ótal spurningar sem vakna. Ég held að nefndin hafi sinnt hlutverki sínu ágætlega hvað þetta varðar en engu að síður þarf að gera miklu meira í þessum efnum og kalla eftir upplýsingum á vettvangi þingsins. Við höfum reynt það á vettvangi viðskiptanefndar og ég veit að aðrar þingnefndir hafa sömuleiðis gert það.

Fjármálaeftirlitið er auðvitað að sinna sínu hlutverki, hefur skoðað bæði innherjaviðskipti og kallað eftir skýrslu um hreyfingar í aðdraganda bankahrunsins og ég veit ekki betur en sú skýrsla hafi átt að koma til Fjármálaeftirlitsins um helgina. Það verður fróðlegt að vita hvar hún stendur og hvort hún verði með einhverjum hætti gerð opinber en við höfum auðvitað heyrt ýmsar sögur um óeðlilegar fjármagnshreyfingar í aðdraganda hrunsins, meðal annars hafa menn leitt líkur að því að það hafi á einhvern átt þátt í því að Bretar beittu íslensk fyrirtæki og Ísland hryðjuverkalögum. Þetta þarf að koma í dagsljósið að mínu mati.

Samkeppniseftirlitið er einnig á vaktinni. Það hefur sent sérstök tilmæli til nýju ríkisbankanna og sömuleiðis skilanefndanna um að hafa ákveðið leiðarljós í huga þegar kemur að ákvarðanatöku, að menn gæti sín á því innan bankakerfisins að hér myndist ekki óeðlileg staða á mörkuðum og annað slíkt því að það er alveg ljóst að nýju bankaráðin og skilanefndirnar hafa talsvert vald hvað þetta varðar. Þess vegna held ég að þessi tilmæli séu mikilvæg og mikilvægt að þessir aðilar virði þau í hvívetna.

Hið opinbera hefur sömuleiðis leitað eftir aðstoð erlendra aðila. Finnskur bankamaður er að koma til að skoða hluta af þessu hruni. Við höfum einnig fengið sænskan bankamann til að skoða afmarkaða þætti þess. Það er ýmislegt að gerast hvað þetta varðar þó að óþreyjan sé auðvitað mikil í samfélaginu og maður skilur það að sjálfsögðu.

Að lokum vona ég að þingheimur geti sameinast um þetta einstaka mál, um embætti sérstaks saksóknara. Ég held að það sé mikilvægt að slíkur saksóknari vinni vel með öðrum eftirlitsaðilum. Hér er ekki verið að hrófla við verkaskiptingu lögreglu annars vegar og annarra eftirlitsstofnana hins vegar, en það skiptir máli að menn vinni saman eins og lög heimila, þannig að við fáum botn í málin hratt og vel og réttindi þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli séu fullkomlega virt og varin. Svona embætti mun án efa kosta talsvert, lagt hefur verið mat á að það muni kosta 76 millj. á ársgrundvelli. Hér er ekki gert ráð fyrir aðkeyptri vinnu sem að mínu mati gæti verið talsverð en í svona málum tel ég mikilvægt að spara ekki þegar kemur að rannsókn þeirra, hvort sem það er á vettvangi þessa sérstaka saksóknara eða á vettvangi rannsóknarnefndarinnar en það mál kemur vonandi til afgreiðslu í þingsalnum sem allra fyrst eftir að allsherjarnefnd hefur lokið umfjöllun sinni um það.