136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, o.fl.

124. mál
[20:15]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga sem flutt er af öllum þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en það formaður flokksins, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem er 1. flutningsmaður frumvarpsins sem snýr að eftirlaunarétti þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna sem svo eru nefndir. Sem kunnugt er var gerð breyting á lífeyrisréttindum þessa hóps með lögum árið 2003, lögum sem voru umdeild á þeim tíma og gagnrýnd harðlega hér í þingsal og utan þingsins og hafa reyndar allar götur síðan sætt mikilli gagnrýni í þjóðfélaginu.

Með eftirlaunalögunum sem þá voru samþykkt voru fest í sessi forréttindi sem þessir hópar bjuggu við og í sumum tilvikum bætt í. Á það ekki síst við um ráðherra vegna þess að eftirlaunalögin eru kannski fyrst og fremst lög sem bættu verulega kjör ráðherra og sköpuðu þeim umframréttindi sem ekki eru sambærileg við réttindi þingmanna svo að dæmi sé tekið. En allir þessir hópar búa engu að síður við talsvert betri lífeyriskjör en almennt gerist í þjóðfélaginu.

Frumvarp okkar gengur út á að færa þessa hópa inn undir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. A-deild lífeyrissjóðsins er þeim öllum opin. Þar fara allar nýráðningar ríkisstarfsmanna inn og hefur svo verið frá 1. janúar árið 1997 en þá var lífeyrislögunum breytt, bæði almennum lífeyrisramma og einnig lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þetta frumvarp okkar gengur í fáum orðum út á að færa þessa hópa inn undir þá löggjöf.

Síðan er hér tillaga um breytingar á lögum um kjararáð þar sem gert er ráð fyrir því að draga úr kjaramismunun í kerfi þeirra sem heyra undir kjaradóm en tillagan er sú að á laun sem eru umfram 450 þús. kr. komi skerðing sem nemi tuttugu af hundraði.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál en vil aðeins vekja athygli á því að ríkisstjórnin, eða oddvitar ríkisstjórnarflokkanna öllu heldur, kynntu í flóðlýstu Þjóðmenningarhúsinu, það dugði nú ekki minna til, að í vændum væri eftirlaunafrumvarp frá ríkisstjórninni. Menn biðu nokkuð spenntir eftir því frumvarpi sem hefur verið lengi í mjög erfiðri fæðingu. Í stjórnarsáttmála í upphafi kjörtímabils þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr var boðað að breyting yrði gerð á umræddum eftirlaunalögum og menn biðu spenntir eftir því að sjá hver afraksturinn yrði. En hann var harla rýr.

Frumvarpið er reyndar ekki komið fram í þinginu. Mér finnst það gagnrýnisvert, mjög bagalegt. Ég hef boðað það hér áður að nái frumvarp okkar ekki fram að ganga, verði það ekki samþykkt, muni ég gera breytingartillögur við stjórnarfrumvarpið sem gengju þá í þá átt að færa lífeyrisréttindin undir A-deild LSR, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. En til þess þurfum við náttúrlega að fá að sjá þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar. Það er bagalegt ef menn ætla að halda sig við gamla hefð þegar sérréttindi ráðherra og þingmanna eru annars vegar, að koma með þetta svona undir þinglok eða birta slík áform í skjóli myrkurs, eins og stundum hefur verið gert, og reyna síðan að knýja málið í afgreiðslu hið allra fyrsta. Ég auglýsi þess vegna eftir því að frumvarp ríkisstjórnarinnar líti dagsins ljós.

Tillaga okkar um kjarabreytingar er frábrugðin tillögum ríkisstjórnarinnar að því leytinu að við viljum einvörðungu skerða kjör þeirra sem eru yfir tiltekinni upphæð en ekki láta skerðinguna ganga niður allan stigann eins og ríkisstjórnin leggur til í frumvarpi sem rætt var hér fyrr í dag um breytingu á lögum um kjararáð.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Það er búið að ræða þetta mikið í þjóðfélaginu. Þingið og þjóðin þekkir málavöxtu en mikilvægt er að frumvarpið gangi strax til nefndar og fari til umsagnar sem víðast í þjóðfélaginu og komi síðan til afgreiðslu fyrir þinglok.