136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

samráð við Fjármálaeftirlitið.

174. mál
[14:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og það er út af fyrir sig rétt að gert er ráð fyrir því í lögum að ráðherrann hafi ekki vald til þess að hafa áhrif á ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins eða að geta endurskoðað þær. En það er skýrt tekið fram að það ber að upplýsa hann um stöðu mála á hverjum tíma. Miðað við svörin frá hæstv. ráðherra skil ég það þannig að það sé stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins sem hafi það hlutverk að gera ráðherranum grein fyrir stöðunni reglulega. En það kom ekki alveg skýrt fram og væri rétt að ráðherrann gerði betri grein fyrir því hvernig upplýsingaflæðið er frá Fjármálaeftirlitinu til ráðherrans til að uppfylla þetta ákvæði 16. gr. laganna.

Í öðru lagi finnst mér enn vanta skýringar á því hvers vegna forstjóri Fjármálaeftirlitsins tekur svo til orða í útvarpsviðtali að ráðherra hefði mátt vera ljóst hver staða Icesave-reikninganna var sl. vor. Miðað við svör ráðherra er ekki annað að skilja en að hann hafi ekki fengið upplýsingar á þeim tíma um stöðu Icesave-reikninganna, það sé ekki mál af því tagi að ráðherra var gerð grein fyrir samtímis en hins vegar heldur forstjóri Fjármálaeftirlitsins því fram. Það gengur auðvitað ekki, virðulegur forseti, ef forstjóri eftirlitsstofnunarinnar er að vísa ábyrgð á herðar ráðherra á því að búa fyrir upplýsingum sem er svo kannski ekki rétt.