136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

aðgengi að menntun.

[11:05]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á mikilvægi menntunar sem úrræði gagnvart því atvinnuleysi sem við munum standa frammi fyrir á næsta ári í nokkuð ríkum mæli.

Það höfum við gert rétt á síðustu árum að við höfum verið að undirbyggja menntunina. Við höfum verið að auka fjölbreytni í námsframboði. Við höfum verið að efla iðn- og starfsmenntun. Við höfum verið að fjölga styttri námsbrautum. Við höfum verið að auka aðgengi fólks að menntun víðs vegar um landið. Þetta er ákveðin viðspyrna í þeim miklu erfiðleikum sem við stöndum nú frammi fyrir.

Ekki hefur verið sneitt hjá Suðurlandi varðandi uppbyggingu á sviði menntunar, það er af og frá. Hv. þingmaður veit til að mynda að í Vestmannaeyjum hefur átt sér stað öflug uppbygging, m.a. þekkingarseturs. Framhaldsskólinn er á fleygiferð, það er margt að gerast úti í Vestmannaeyjum. Því fer fjarri að Suðurland sé (Forseti hringir.) undanskilið í uppbyggingu menntunar. Ég vil einnig benda á þá miklu starfsemi sem á sér stað innan Keilis.