136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

fjárhagur og skyldur sveitarfélaga.

[11:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mér er þetta ljóst, sem kom fram í svari hæstv. ráðherra, en vek athygli á því að útsvarshækkun er jöfn yfir alla í prósentum talið. Hún leggst hlutfallslega þyngra á þá sem hafa lægri tekjur en þá sem hafa hærri tekjur.

Í mínum huga er það ekki góð jafnaðarmennska að fara þannig að. Ég tel að þetta sé ekki góð leið til að bæta sveitarfélögunum upp það tekjutap sem þau verða fyrir. Þar að auki mun þetta ekki koma jafnt á móts við aukaframlagið í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem hefur komið úr ríkissjóði. Það er alveg ljóst.

Ég held því fram að þessi leið sé ekki leið jafnaðarmennsku. Hún sé ekki góð til að tryggja sveitarfélögunum þær viðbótartekjur sem þau þurfa sannarlega á að halda. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann hefði ekki talið betra að taka viðbótarskattinn (Forseti hringir.) með öðrum hætti, jafnari hætti, og koma síðan með aukaframlag beint úr ríkissjóði.