136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það var sorglegt að mikill fjöldi fólks lagði peninga inn á þessa reikninga í góðri trú, var jafnvel sérstaklega hvattur til þess af bönkunum og jafnvel að færa fé af öruggum reikningum yfir í sjóði sem áhætta er bundin við. En vissulega verðum við að horfast í augu við að mikill fjöldi almennings á um sárt að binda af mismunandi ástæðum vegna þessa bankahruns og ekki endilega auðvelt að greina þar í sundur hverjir máttu vita betur og hverjir ekki.

Aðgerðin sem þarna var farið út í var að mínu mati fljótræðisleg og ekki nógu vel undirbúin. Þetta hefði þurft að yfirvega betur og gera svo með samræmdum hætti og tryggja jafnræði allra sem jafnt voru settir í þessum efnum.

Rannsaka þarf líka atburði sem gerðust í aðdraganda þess að þetta var gert og jafnvel í aðdraganda bankahrunsins sjálfs, eins og það sem Morgunblaðið upplýsti fimmtudaginn 20. nóvember, að bréf Stoða hefðu verið keypt út úr verðbréfa- og fjárfestingasjóðum Glitnis í lok september með samþykki hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haardes og hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesens.

Sömuleiðis þarf að athuga hvað gerðist dagana áður en neyðarlögin voru sett þegar miklir fjármunir runnu út úr sjóðum Landsbankans, um 70 milljarðar kr. á örfáum dögum, sem bendir sterklega til þess að einhverjir hafi haft vitneskju um hvað í vændum var og getað forðað sér en aðrir ekki. Þetta þarf að rannsaka og upplýsa. Síðan þarf að standa þannig að framkvæmdinni að hún sé hafin yfir vafa. Og að sjálfsögðu gengur ekki að skilja þá einstaklinga eftir sem voru í viðskiptum við fjármálafyrirtæki sem ekki hafa hrunið með óhemjulegum kostnaði fyrir þjóðarbúið. Það væri að bíta höfuðið af skömminni að mismuna mönnum beinlínis þannig og þessu verður hæstv. ráðherra að gjöra svo vel og kippa í liðinn.

Að síðustu skiptir aðferðin sjálf sem hér er notuð miklu máli og er það endilega sjálfgefið að bæta með sömu hlutfallstölu lágar fjárhæðir almennings og stórar fjárhæðir stórfjárfesta? Hefði ekki komið til greina að bæta jafnvel að fullu lágar upphæðir (Forseti hringir.) en láta svo skerðinguna frekar ganga yfir þá sem áttu þarna miklar fjárhæðir og máttu vita betur en svo að þetta væri örugg fjárfesting?