136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[12:28]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra hefur eflaust tekið eftir því að ég gaf ekki upp neina afdráttarlausa afstöðu í ræðu minni. Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að skoða hegðun Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. En við skulum muna það að Ríkisútvarpið hefur gríðarlega alvarlegar athugasemdir við álit Samkeppniseftirlitsins og segir ýmislegt sem þar er haldið fram vera ýkt og ekki rétt. Ég hygg að það sé í undirbúningi, ef það er ekki þegar búið, að skila erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem mótmælt er ákveðnum þáttum sem sagðir eru um hegðun Ríkisútvarpsins á markaði. Mér finnst sjálfsagt að Ríkisútvarpið – sjónvarp hagi sér þannig á markaði að auglýsingar séu ekki það ágengar í ríkissjónvarpinu að það fari í taugarnar á manni. Ég verð að viðurkenna að þeirri stefnu hefur ekki verið fylgt síðustu missirin. Mér finnst auglýsingar í ríkissjónvarpinu orðnar mun ágengari og kannski plebbalegri, ef maður leyfir sér að sletta, en mér finnst eðlilegt að þær séu. Ég skal styðja hæstv. ráðherra algerlega í því að gera einhverjar breytingar á þessu. Ríkisútvarpið hefur nú þegar breytt gjaldskrá sinni og gert ákveðnar ráðstafanir til þess að „plebbisminn“ haldi ekki áfram þannig að ég er sátt við að gera ákveðnar takmarkanir þarna. Ég var aðeins að velta upp efasemdum um að þessar aðgerðir geri það sem gera þarf til að bjarga því að hér sé einhver samkeppni. Svo velti ég því líka fyrir mér hvort í alvöru er samkeppni á milli Skjás eins og ríkissjónvarpsins því að Skjár einn er með allt annars konar dagskrá og ég sé ekki annað en að auglýsendur, auglýsingastofur og samtök auglýsenda krefji okkur um að fá að auglýsa hjá ríkissjónvarpinu. Þau segja að það sé hluti af þjónustunni við almenning og ég get tekið undir það sjónarmið líka. Ég segi einungis að það eru mörg álitamál í þessu máli. Ég er ekki búin að gera endanlega upp hug minn en vil þó segja að ég efast um að ég samþykki alveg á endanum að takmarka þetta svona mikið á kjörtíma eins og lagt er til í frumvarpi ráðherra.