136. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2008.

gjald af áfengi og tóbaki.

232. mál
[18:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru, í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2009, lagðar til hækkanir á tilgreindum gjöldum í lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki. Um er að ræða 12,5% hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi.

Í upphaflegu frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 kemur fram að reiknað sé með 11,5% hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi. Var sú hækkun áætluð í samræmi við áætlaða hækkun á vísitölu neysluverðs milli ársmeðaltala 2007 og 2008. Samkvæmt breytingum á tekjuáætlun fjárlagafrumvarps 2009 er nú gert ráð fyrir að þessi hækkun sé 12,5% og er því í frumvarpinu lagt til að umrædd gjöld hækki um 12,5%.

Eins og fram kemur í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins er sú hækkun sem hér er lögð til vel innan þeirra marka sem umrædd gjöld hafa rýrnað að verðgildi, ef miðað er við þróun á vísitölu neysluverðs frá því umrædd gjöld voru síðast hækkuð. Sem dæmi má nefna hefur fjárhæð áfengisgjalds af léttu víni og bjór verið óbreytt frá 1. júlí 1998.

Viðbótartekjur ríkissjóðs af þeirri hækkun sem frumvarp þetta kveður á um eru áætlaðar samtals um 1.300 millj. kr. á ársgrundvelli.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.