136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:21]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson undirstrikar einmitt meginveikleika þessa frumvarps og tillagna ríkisstjórnarinnar, þ.e. að ekki hefur verið lagt neitt mat á það til hvers það leiðir. Við gerum okkur öll grein fyrir alvarleika málsins en þeim mun mikilvægara er að geta metið áhrifin af þessum niðurskurði og þá forgangsraða. Ég kalla eftir slíkri ábyrgri vinnu áður en menn vaða beint út í þennan niðurskurð.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann: Í samkomulaginu sem ég kalla nú bara skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en stjórnarmeirihlutinn vill kalla samkomulag því að það lætur betur í eyrum en að heyra um þvingunarsamkomulagið — hvenær er gert ráð fyrir því að ríkissjóður eigi að vera orðinn hallalaus? Hallalaus rekstur ríkissjóðs í þessu samkomulagi? Mig minnir að það sé árinu 2011–2012 eða fyrr sem reksturinn eigi að vera orðinn hallalaus.

Til þess verðum við ekki hvað síst að efla og auka framleiðsluna einmitt til að skapa meiri útflutningstekjur. Í frumvarpinu sýnist mér það ekki vera sett í forgang. Ég spyr því hv. þingmann: Hvenær, samkvæmt samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, á rekstur ríkissjóðs að vera orðinn hallalaus? Hvaða líkur telur hv. þingmaður á að það náist? Og hver ætti þá að vera greiðslubyrðin á þeim árum, 2010–2012, af lántökum ríkissjóðs, hve stór hluti fjárlaganna verður þá að fara í að (Forseti hringir.) greiða vexti og afborgun af okurlánunum sem við verðum að taka erlendis ef fer sem horfir í þeim efnum?