136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:58]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Fjárlögin sem hér eru til umræðu eru verulega frábrugðin þeim sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir þann 1. október síðastliðinn. Miklar efnahagslegar breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu og bera breytingartillögurnar það með sér að þjóðin stendur á tímamótum og við verðum að taka verulega á í niðurskurði í ríkisrekstrinum til að minnka þann halla sem fyrirsjáanlegt er að verði á þjóðarbúinu. Við verðum að vinna okkur út úr þeim vanda sem við nú stöndum frammi fyrir eftir að viðskiptabankarnir hrundu og efnahagskreppa heimsins skall á okkur með mjög alvarlegum afleiðingum.

Niðurskurður er aldrei auðveldur. En stjórnarmeirihlutinn hefur lagt á það áherslu að niðurskurðurinn komi minna niður á velferðarkerfinu, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og löggæslunni. Augljóst er að verulega mun reyna á velferðarkerfi okkar á þeim mánuðum sem fram undan eru og við verðum að vera viðbúin því.

Við horfum fram á atvinnuleysistölur sem við höfum líklega ekki séð áður hér á landi. Við verðum að gera ráðstafanir til að mæta þeim vandamálum sem fylgja atvinnuleysinu. Að óbreyttu bendir allt til að halli á ríkissjóði hefði orðið um 215 milljarðar kr. En ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til ráðstafana og í þeim er gert ráð fyrir að hallinn verði ekki meiri en sem nemur um 165–170 milljörðum kr. Það markmið ríkisstjórnarinnar kallar á að minnsta kosti 45 milljarða kr. niðurskurð.

Þá er í tillögunni gert ráð fyrir skattahækkunum. Að tekjuskattur einstaklinga verði hækkaður um eitt prósentustig. Þá er gert ráð fyrir hækkun útsvars til handa sveitarfélögunum sem mörg hver standa höllum fæti. Þar sem atvinnuleysi verður mest mun mikið mæða á sveitarfélögunum á sviði fjölskyldu- og félagsmála og einnig hvílir sú ábyrgð á þeim að gera það sem þau geta til að verja atvinnulífið og halda upp atvinnustigi, en þau eru misjafnlega í stakk búin til að standa undir miklum kostnaðarauka. Ríkisstjórnin leggur til hækkun á útsvari þannig að hámarksútsvarsprósenta sveitarfélaganna verði 13,53% en er nú 13,03%.

Búast má við að margir sem missa atvinnuna sæki í nám, bæði til að auka við þekkingu sína og jafnvel til að ná sér í nýja þekkingu sem gæti nýst betur. Á landsbyggðinni eru símenntunarstofnanir og háskólasetur mjög mikilvægar stofnanir þar sem fólki er gert kleift að stunda nám í heimabyggð sinni. Ásókn í nám hjá símenntunarstofnunum hefur aukist á undanförnum árum og mun þörfin ekki minnka í efnahagsástandinu sem nú ríkir.

Í breytingartillögunum er lagt til að vegna símenntunar og fjarkennslu á háskólastigi fái fimm símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni 3 millj. kr. viðbótarframlag hver. Stöðvarnar eru á Sauðárkróki, í Borgarnesi, í Árborg, í Vestmannaeyjum og í Reykjanesbæ. Mikið og gott starf fer fram hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum um allt land og hafa með þeim opnast möguleikar fyrir fólk að sækja sér menntun án þess að þurfa að flytjast búferlum. Flestar símenntunarstofnanir bjóða auk háskólanáms upp á námskeið fyrir fólk sem vill auka færni sína á ýmsum sviðum. Námið er oft atvinnutengt en einnig er boðið upp á fjölbreytt námskeið af ýmsum toga. Mjög mikilvægt er að styðja starf símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni eins vel og kostur er og gera þeim kleift að opna fólki aðgang að fleiri námsleiðum.

Á erfiðum tímum þarf að standa vörð um heilsugæsluna, sem er sú grunnþjónusta sem fólk treystir á. Í þeim tillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram eru lagðar til leiðréttingar til handa nokkrum heilsugæslustöðvum vegna þess að reiknilíkan við fjárveitingu hefur sýnt of lágar fjárveitingar til viðkomandi stofnana og er verið að leiðrétta það. Þetta á t.d. við um heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem fær 60 millj. kr. og heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sem fær 25,2 millj. kr.

Til sömu stofnana eru einnig lagðar til töluverðar lækkanir fjárheimilda frá frumvarpi og verða þær fluttar á sérstakan safnlið til endurráðstöfunar til heilbrigðismála. Í heilbrigðisráðuneytinu er nú unnið að endurskipulagningu heilbrigðisstofnana. Stefnt er að því að ein heilbrigðisstofnun verði í hverju heilbrigðisumdæmi á landsbyggðinni. Gert er ráð fyrir að verkefni flytjist á milli stofnana og verði fjárheimild á liðnum nýtt í þeim tilgangi. Markmiðið með endurskipulagningunni er að standa vörð um grunnþjónustu heilsugæslunnar og bráðaþjónustu sjúkrahúsa í þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin gengur nú í gegnum.

Frekari útfærslur á skipulagsbreytingum varðandi einstakar stofnanir eiga eftir að koma fram. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að hæstv. heilbrigðisráðherra kynni þær og aflétti þar með þeirri óvissu sem óhjákvæmilega hefur skapast hjá starfsfólki einstakra heilbrigðisstofnana.

Ljóst er að nú þarf að hagræða og gæta aðhalds í ríkisrekstrinum. Landhelgisgæslunni er gert að hagræða í rekstri sínum og á það að skila rúmlega 130 millj. kr. og má benda á hvort ná megi þeirri hagræðingu með því að færa starfsemi stofnunarinnar að hluta til eða að öllu leyti til Keflavíkurflugvallar á fyrrverandi varnarsvæði þar sem vel búin flugskýli og annar húsakostur eru til staðar auk þess sem á svæðinu er hafnaraðstaða sem gæti nýst skipaflota Landhelgisgæslunnar.

Því sama má velta fyrir sér með lögregluskólann og ná fram hagræðingu þar með samnýtingu við skólastarfsemi sem nú þegar er til staðar á varnarsvæðinu fyrrverandi með samningum við Samgöngu- og öryggisskóla Keilis. Á gamla varnarsvæðinu er góð aðstaða fyrir hendi fyrir allt sem viðkemur öryggis- og þjálfunarmálum og gæti verið skynsamlegt að nýta hana.

Nú stöndum við einfaldlega frammi fyrir því að endurhugsa verður allt upp á nýtt með það að markmiði að ná fram sem bestri nýtingu á því fjármagni sem við höfum til skiptanna. Tekjur ríkissjóðs munu dragast saman um rúmlega 50 milljarða kr. á næsta ári og það þýðir einfaldlega að við verðum að stokka upp á nýtt og endurskoða ríkisreksturinn.

Sá niðurskurður sem hér er boðaður af ríkisstjórninni er nauðsynlegur við þær aðstæður sem við glímum við. En hér verður ekki staðar numið. Frekari hagræðingu þarf við til að við komumst sem fyrst út úr þeim vandamálum sem við glímum við. Ég er ekki í nokkrum vafa um að okkur mun takast það. Það verður erfitt í nokkur ár en okkur mun takast að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Nú þarf að forgangsraða og við þurfum að líta gagnrýnum augum á ríkisreksturinn og vera óhrædd við að gera þær breytingar sem þarf til að ná niður kostnaði, virðulegi forseti.