136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[20:37]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan hef ég fullan hug á því að þetta mál varðandi samgöngurnar verði tekið inn í samgöngunefnd núna í vikunni. Þá gefst tækifæri fyrir alla sem í samgöngunefnd sitja, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að koma fram með sín mál, sína forgangsröðun og sínar tillögur. Við skulum því bara bíða og sjá hvað setur með það.

Hins vegar varðandi það sem hv. þingmaður sagði um hátekjuskattinn. Ég lýsti ákveðinni skoðun minni áðan varðandi hátekjuskatt og þrepaskiptingu í skattkerfinu, niðurstaðan varð hins vegar önnur. Ég stend að sjálfsögðu að þeirri niðurstöðu sem kynnt er í fjárlagafrumvarpinu eins og allir aðrir í stjórnarmeirihlutanum. Ég verð því að hryggja hv. þingmann með því að ég mun líklega ekki greiða tillögu hans varðandi hátekjuskatt atkvæði mitt við afgreiðslu í fjárlaganefnd. (Gripið fram í.) Þá stend ég að þessu fjárlagafrumvarpi. Hávaði í þingsal. Þá mun þjóðin sjá það og það er (Gripið fram í.) ágætt. Ég tel líka að sú sem hér stendur hafi verið fullkomlega samkvæm sjálfri sér með að gera grein fyrir afstöðu sinni í þessum málum og ég gef ekkert eftir varðandi það.

Ég tel að mistök hafi verið gerð í hagstjórninni á síðasta kjörtímabili í skattamálunum eins og svo mörgu öðru og við erum að súpa seyðið (Gripið fram í: … með Sjálfstæðisflokknum?) af því núna. (Gripið fram í: Þetta er alveg rétt hjá þér.)