136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[23:33]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég taldi í umræðu um fjárlagafrumvarp síðasta árs að margt benti til þess að tekjufall gæti orðið á því ári sem nú er senn liðið. Ég vísaði þá til hinna kviku skatta, virðisauka- og fjármagnstekjuskatts, auk tekjuskatts á lögaðila. Það hvarflaði auðvitað ekki að mér frekar en öðrum að þau ósköp sem við stöndum nú frammi fyrir gætu dunið á okkur. Breytingin er ótrúleg, tekjufall ríkissjóðs hefur sennilega aldrei verið eins mikið. Í áföllum sem þessum er mikilvægt að öryggisnetið, velferðarkerfið sjálft, sé traust en það þarf fyrst og fremst að taka mið af þeim sem minnst hafa á milli handanna. Því miður er margt í velferðarkerfi okkar sem getur flokkast undir ákveðinn lúxus og við ákveðnar aðstæður verið fullkomlega réttlætanlegt. Nú er staðan hins vegar orðin sú að líta þarf ofan í hverja einustu matarholu.

Frumvarpið, eins og það liggur fyrir núna, ber keim af því að ríkisstjórnin virðist ekki átta sig á að bankakerfið á Íslandi er hrunið. Niðurskurðurinn í þessum fjárlögum endurspeglar engan veginn þann samdrátt sem ríkissjóður lendir í á næstu árum. Ég tel hægt að gera miklu meiri gangskör í niðurskurðinum án þess að það bitni illilega á neinum. Hversu sárt sem okkur þykir það getum við ekki lifað í þessari afneitun. Ef ekki er almennilega tekið til hendinni við setningu fjárlaga 2009 verður sársaukinn enn þá meiri við gerð fjárlaga árið 2010. Ýmsar góðar tillögur hafa komið fram í þessari umræðu og greinilegt er að margir þingmenn, þó alls ekki allir, eru mér sammála um að það þarf að skera meira niður. Um leið er ljóst að margir þingmenn gera sér grein fyrir því að hér er um mikla jafnvægislist að ræða því að niðurskurðurinn má ekki ganga það langt að kreppan verði dýpri en nauðsynlegt er. Það getur þó ekki verið komið að endapunkti í niðurskurði þessara fjárlaga. Mikilvægt er að ríkisstjórnin geri sér það ljóst og komi með frekari tillögur.

Hæstv. forseti. Ég vil nú koma inn á nokkra liði fjárlagafrumvarpsins sem ég tel að gera mætti betur í hvað niðurskurð varðar. Hér eru aðeins nokkur dæmi. Þau eru miklu fleiri en mörg hver í sama dúr. Nokkrar stofnanir munu klárlega geta minnkað umsvif sín í ljósi minnkandi umsvifa í atvinnulífinu og vil ég nefna nokkrar sem dæmi: Skipulagsstofnun, Brunamálastofnun og Umhverfisstofnun sem allar heyra undir umhverfisráðuneytið. Í þeim er auðvelt að ná fram 100 millj. kr. sparnaði til viðbótar við tillögur ríkisstjórnarinnar.

Greiðslur vegna fæðingarorlofs ætti líka að endurskoða. Ég teldi það raunhæft markmið að upphæð sem eytt er í þennan lið tæki mið af fjárlögum ársins 2007 með uppreikningi verðlags dagsins í dag. Með þessari nálgun mætti spara yfir 2 milljarða.

Ég tel fráleitt að leyfa sér lúxus eins og aðstoðarmenn þingmanna við núverandi aðstæður. Þar mætti auðveldlega spara í kringum 60 millj. kr. Ráðstöfunarfé ráðherra er kannski ekki stór upphæð en vissulega táknræn aðgerð. Með því að slá það af mætti spara um 75 millj. kr. og um leið gera ráðherrum þann stóra greiða að þurfa ekki að eyða tíma í að deila út þeim fjármunum.

Með tiltölulega varfærnum aðgerðum mætti spara 150 millj. kr. til viðbótar með niðurskurði í Vatnajökulsþjóðgarði, í landgræðslunni, skógræktinni og ofanflóðavörnum.

Hér er aðeins um sýnishorn að ræða og ég tek fram að ég er ekki að beita mér neitt sérstaklega gagnvart þessu tiltekna ráðuneyti. Eins og ég segi er hér aðeins um lítið sýnishorn að ræða en ég á mun fleiri tillögur í handraðanum sem ég væri tilbúinn til að kynna fyrir fjárlaganefnd.

Við fjárlagagerðina er nauðsynlegt að liggja yfir hverri krónu og velta henni fyrir sér en þeir sem leggjast gegn niðurskurði eru að ávísa á komandi kynslóðir. Það kerfi sem nú er unnið eftir er algjörlega úr sér gengið og ef einhvern tíma er ástæða til að taka upp ný vinnubrögð er það núna. Af þeim sökum hef ég lagt fram þingsályktunartillögu sem liggur fyrir Alþingi, og ég vonast til að geta mælt fyrir fljótlega, um endurskoðun vinnubragða við gerð fjárlaga, þ.e. að tekin verði upp svokölluð núllgrunnsfjárlög. Það getur ekki gengið lengur að horfa eingöngu til þess hversu miklu hefur verið eytt í einstaka liði á undanförnum árum og bæta við þá eða lækka þá lítillega milli ára eftir því hvernig árferðið er hverju sinni. Þá er nýjum liðum bætt við reglulega án þess að mikill eða öflugur rökstuðningur sé þar að baki. Núllgrunnsfjárlagagerð er þekkt vinnuaðferð sem ýmsir horfa til í þeim tilgangi að draga úr sjálfvirku hækkunarferli sem núverandi fyrirkomulag hefur leitt af sér. Núllgrunnsfjárlög eru ekki lausn allra vandamála fjárlagagerðarinnar, gildi þeirra felst fyrst og fremst í því að vald er fært til. Ríkisstofnanir og ráðuneyti, sem eru stærstu notendur fjár úr opinberum sjóðum, verða að endurmeta og rökstyðja öll útgjöld sín frá grunni. Alla liði útgjalda þarf að skýra út frá þörf og nauðsyn stöðunnar á hverjum tíma.

Rík þörf er á róttækum aðgerðum til að bæta vinnslu og framkvæmd fjárlaga. Ríkisútgjöld hafa vaxið úr hófi sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Á góðæristímum var þetta mögulegt en raunveruleikinn sem nú blasir við er allt annar. Alþingi, og þar með fjárlaganefnd, verður að fá virkari tæki í hendur til þess að hafa möguleika á bættu eftirliti með framkvæmd fjárlaga ríkisins. Af þessum sökum er augljóst að löggjafarvaldið þarf ný úrræði á þeim erfiðu tímum sem fram undan eru. Þetta er aðeins eitt púsl í stóru púsluspili til að bæta fjárlagagerð framtíðarinnar.