136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umfjöllunarefni þann niðurskurð sem boðaður er í fjárlögum sem voru til umræðu í gær og sérstaklega þegar kemur að menntamálum. Ég beini því máli mínu til formanns menntamálanefndar, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, en boðaður er niðurskurður upp á 4,4 milljarða í mennta- og menningarmálum í fjárlagafrumvarpinu — 1,5 milljarðar tæpir í Lánasjóð íslenskra námsmanna, frestun á öllum rannsóknasamningum háskólanna, rekstrarframlög til Háskóla Íslands lækkuð um 270 millj. kr., háskólasjóðurinn, sem sinnir ungu fræðafólki og nýdoktorum, skorinn niður um 118 millj. kr., háskólasetrin um land allt 24 millj. kr., ekki há upphæð en gríðarlega mikilvægar nýsköpunar- og þekkingarmiðstöðvar fyrir landsbyggðina hvort sem við erum að tala um Höfn í Hornafirði, Snæfellsnes, Austurland eða Húsavík, störf þar sem eitt starf hefur skapað fleiri störf.

Umræðan í þinginu hefur verið á þann veg að menntun og rannsóknir eigi að vera einn af lyklum okkar til að komast út úr þessari kreppu, það sé lykillinn sem við þurfum á að halda til að geta unnið okkur út úr henni, skapað störf, haldið unga fólkinu heima og þess vegna sé svo mikilvægt að við hugum að þessu. Það er t.d. búið að ræða um lánasjóðinn í því samhengi. Við verðum að gera fleira ungu fólki kleift að komast í nám og ég hef meira að segja rætt það hvort ekki ætti að rýmka úthlutunarreglurnar og leyfa fólki yfir tvítugt að sækja um lán til að komast til náms í framhaldsskólum en hann er skorinn.

Ég spyr: Höfum við ekki eitthvað að læra af reynslu Færeyinga sem sögðu: Peningurinn kemur aftur en fólk sem fer kemur ekki aftur? Ég vil inna hv. formann menntamálanefndar eftir því hvort hann telji hreinlega ekki of langt gengið í niðurskurði á þessum mikilvæga lið í mennta- og menningarmálum.