136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er nokkuð einkennilegt að ræða fjárlög undir störfum þingsins þegar þau hafa verið á dagskrá en umfjöllun málsins hefur öll verið í nokkru skötulíki og varla hægt að segja að fjárlögin hafi fengið neina þinglega umfjöllun að gagni fyrir 2. umr. eins og þó vert væri en það helgast auðvitað af því neyðarástandi sem hér er.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að menn hafi uppi varnaðarorð um að niðurskurðurinn komi niður þar sem síst skyldi en maður hlýtur að spyrja sig í hvers konar fílabeinsturni þessi umræða er eiginlega þegar fjárlögin fyrir komandi ár eru kölluð blóðugur niðurskurður.

Hér er verið að reka ríkissjóð Íslands með tæplega 200 milljarða halla, þ.e. tveggja millj. kr. halla fyrir hvert heimili í landinu. Ég vona að öllum þingmönnum sé ljóst að það verður sannarlega ekki hægt að endurtaka að ári. Hér verður að fara í enn frekari niðurskurð á því fjárlagaári sem koma mun og munu auðvitað allir málaflokkar líða fyrir það. Það er ekki þannig að það sé einhver málaflokkur sem geti orðið friðhelgur í þeirri vinnu vegna þess að menn skera einfaldlega ekki niður jafngríðarlegan halla sem nemur nærri helmingi fjárlaganna nema með því að fara á alla málaflokka. Það er þess vegna ekki hægt að koma hér og vera með einhverja óskalista í því efni eða tala eins og hægt sé að verða við öllu, gera allt og hlífa öllu. (Gripið fram í.) Við stöndum frammi fyrir gríðarlega erfiðu verkefni og ég bið menn um að hafa það í huga við þá umræðu sem hér fer fram. (Gripið fram í.)