136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[18:39]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Ég lýsti skoðunum mínum á málinu við 1. umr. frumvarpsins þannig að þær liggja í megindráttum fyrir. Ég vil þó bæta við í þessari umræðu og segja, virðulegur forseti, að mér sýnist á öllu að nefndinni hafi verið falið það erfiða hlutverk að finna rökstuðning fyrir málinu, fyrir þessum afskiptum ríkisstjórnarinnar af kjörum alþingismanna sem ég gagnrýndi mjög harðlega við 1. umr. málsins, sérstaklega ummæli hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra sem mér finnst vera fyrir neðan allar hellur gagnvart þinginu sem slíku, þ.e. að tilkynna það að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um kaup og kjör alþingismanna og það verði svo fundin leið til þess að koma því fram fyrst kjararáð var ekki nógu þægt í taumi til að gera það sem því var sagt í blóra við lög.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég kann ekki við svona stjórnsýslu, ég kann ekki við þetta oflæti í ráðherrunum gagnvart þinginu burt séð frá málinu sem þeir bera fram. Mér finnst að ráðherrarnir báðir hafi gert sig seka um valdhroka. Sumir verða fljótt gegnsýrðir af honum sýnist mér á öllu ef þessi ummæli eru til marks um almennt viðhorf þessara tveggja ráðherra til þingsins sem ég vona að sé ekki. Ég vona að þetta hafi verið einstakt, afmarkað tilvik, að ráðherrarnir sjái að sér og hagi ekki orðum sínum og gjörðum gagnvart þinginu framvegis líkt og þeir gerðu í aðdraganda þessa frumvarps.

Ég lýsti því að ég teldi eðlilegast að hafa hlutina eins og þeir eru í lögunum um kjararáð. Kjararáði er falið að úrskurða kaup og kjör alþingismanna og fleiri stétta og þau eiga að taka mið af viðmiðunarstéttum sem kjararáð fylgist með þannig að breytingar á kjörum þeirra eiga að fylgja því sem gerst hefur áður og hjá öðrum stéttum. Við erum ekki að ryðja nýja braut í kaupi og kjörum heldur að sigla á eftir því sem aðrir hafa ákveðið. Ég tel það skynsamlega stefnu og að menn eigi að halda sig við hana í öllum megindráttum.

Hins vegar get ég alveg fallist á að taka þátt í því ef menn vilja breyta út af núna við sérstakar aðstæður eins og eru sannarlega uppi. Ef menn ætla að láta æðstu embættismenn ríkisins ganga á undan með góðu fordæmi get ég fallist á það. En að ganga á undan með góðu fordæmi þýðir að aðrir verða að ganga á eftir. Það er til lítils að ganga á undan með góðu fordæmi ef aðrir sem í hlut eiga ganga ekki á eftir. Það er hlutverk ráðherranna að sjá til þess að svo verði.

Helst hefði ég kosið að í frumvarpinu hefði verið ákveðin tiltekin lækkun launa þeirra sem kjararáð úrskurðar kaup og kjör um, sú lækkun gilti í afmarkaðan tíma og félli svo niður. Sá er tilgangur málsins. Mér sýnist að nefndinni hafi ekki tekist að fá fram breytingar á því sem er í frumvarpinu sem er miklu lakari leið, sérstaklega vegna þess að með henni er ekki gengið á undan með góðu fordæmi með tímabundinni lækkun, heldur með varanlegri lækkun. Varanleg lækkun verður niðurstaðan af þessu frumvarpi og það er eins gott að þingmenn geri sér grein fyrir því. Því aðeins verður lækkunin tímabundin að ráðherrunum mistakist það hlutverk sitt að láta aðra ganga á eftir hinu góða fordæmi sem gefið er. Þá hækka launin aftur vegna þess að viðmiðunarhóparnir eru þá nokkurn veginn á sínum stað og þegar lögin taka aftur gildi og kjararáð ber saman launin hjá alþingismönnum annars vegar og viðmiðunarhópum hins vegar munu þau hækka ef viðmiðunarhóparnir hafa ekki lækkað. Hafi þau hins vegar lækkað eins og sagt er að eigi að gerast verður lækkunin varanleg. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þingmenn geri sér grein fyrir því að hér er um varanlega lækkun að ræða og menn séu þá bara meðvitaðir um það.

Eitt fannst mér dálítið athyglisvert í nefndarálitinu, málið er rökstutt með því að færa þurfi niður kostnað. Ég hef minnst á svokallaða niðurfærsluleið í þingsölum fyrr á þessu hausti og rifjað upp tilraunir sem voru uppi í aðdraganda þjóðarsáttarinnar fyrir nærri 20 árum sem Einar Oddur Kristjánsson leiddi ásamt fleirum þegar reynt var að ná saman en tókst ekki á þeim tíma. Þá byggðist efnahagsaðgerðin á því að ná tökum á erfiðri stöðu þjóðarbúsins í mikilli verðbólgu á því að fá marga aðila samtímis til að lækka sinn hlut, lækka laun, lækka vexti, lækka kostnað. Ef allir gerðu það sama, allir tækju þátt í aðgerðinni sýndist mönnum að von gæti verið til þess að ná verðbólgunni mjög hratt niður sem allir mundu hagnast á, ekki hvað síst launþegarnir. Rökstuðningurinn hér er í raun og veru niðurfærsluleið, það er sagt berum orðum að vegna þess að ríkissjóður er að missa svo og svo miklar tekjur verði að lækka kostnað og 70% af kostnaði ríkissjóðs séu laun. Þá vil ég segja við hæstv. ríkisstjórn: Gangið þá götuna á enda. Það eru þær aðstæður uppi — (Gripið fram í.) Fyrirgefðu? (LB: Láttu hana hafa það óþvegið.) Já, já, það er alveg óhætt að gera það þegar það á við, en ég leitast við, virðulegur forseti, að gera það bara þegar það á við. Það átti við áðan að mínu mati í upphafi ræðu minnar sem ég hygg að hv. þingmaður hafi misst af en ég er ekki viss um að hann sé ósammála mér um að það eigi við.

Ég ráðlegg þá ríkisstjórninni: Gangið þá þessa götu áfram og farið í niðurfærsluleiðina af alvöru. Það eru að mörgu leyti betri aðstæður til þess núna en voru fyrir 20 árum í ljósi þess að ríkið ræður þremur stærstu bönkum landsins. Hví skyldu menn ekki gera það? Hví skyldu menn ekki verða glaðir með að ganga til þess leiks að taka þátt í því að ná verðbólgunni niður fljótt og vel og öllum til hagsbóta, sérstaklega þeim tugum þúsunda sem menn telja að eigi á hættu að missa íbúðarhúsnæði sitt í hugsanlegri verðbólguholskeflu á næstu mánuðum? Ef það gengur eftir óttast margir að greiðslubyrðin af lánunum verði meiri en fólk getur staðið undir. Hví skyldu menn þá ekki leggja mikið á sig til að koma í veg fyrir að verðbólgan kæmi nokkurn tímann? Hér er þó upphafsskrefið í því og það er hægt að gera það að árangursríkri göngu ef menn kjósa svo.

Ég spyr hæstv. ríkisstjórn, sem ég sé því miður að er ekkert nálæg í augnablikinu: Eruð þið tilbúin til þess að leggja það á ykkur að ræða við alla þá sem hlut eiga að máli til að ná fram þessu markmiði? Það mundi bjarga fjárhag heimilanna betur en margt annað sem menn leggja til um þessar mundir. Ég trúi því ekki að Alþýðusamband Íslands leggist á móti því, ég á ekki von á því að launþegasamtökin telji það ganga gegn hagsmunum sínum að taka þátt í efnahagsaðgerð sem leiðir til lítillar verðbólgu og ef allt gengur upp verði hagur heimilanna betri eftir en áður. Þá teldi ég að menn hefðu gert gott upphaf í gönguför með því að ganga á undan með því fordæmi sem frumvarpið geymir ef það leiddi til þess áframhalds.

Ég bendi, virðulegur forseti, líka á það sem ég hygg að hafi lítið komið fram í fjölmiðlum um stöðu launakjara alþingismanna. Það virðist meira um að ætlað sé að þau laun séu óhófleg en unnt er að sýna fram á með staðreyndum og mér finnst margir leggja sig fram um að tala af nokkurri óvirðingu og ósannsögli um stöðu alþingismanna og kjör þeirra. Eru ýmsir alþingismenn í þeim hópi fyrr og síðar sem hafa lagt það á sig að fara með villandi upplýsingar skulum við segja um það efni.

Lítum aðeins á það sem kjararáð á að gera, úrskurða um laun æðstu embættismanna ríkisins og alþingismanna og ráðherra. Það eru býsna margir sem heyra undir þennan hóp, allt frá sendiherrum, prestum, ráðuneytisstjórum, forstjórum ríkisstofnana og framkvæmdastjórum ýmissa stofnana. Það er gefin út launatafla og þessum hópi er raðað niður í tvær töflur. Önnur taflan gildir fyrir þjóðkjörna fulltrúa, lægsta talan í þeirri töflu eru 562.020 kr. Hverjum skyldi vera raðað neðst á langan lista? Það eru alþingismenn. Efst er forseti Íslands með 1.827.143 kr. Staðreyndin er því sú að alþingismenn eru lægstir í hópi þjóðkjörinna fulltrúa. Þeir eru ekki hæstir, þeir eru lægstir.

Önnur launatafla er gefin út fyrir embættismenn og þar er lægsta talan 300.303 kr. og hæsta talan 1.638.865 kr. Hæsta talan sýnist mér vera þrisvar sinnum hærri en laun alþingismanna og ríflega það.

Ég spurðist fyrir um tvo hópa ríkisstarfsmanna sem eru á embættismannatöflunni í dag og þær upplýsingar sem ég fékk eru að laun skrifstofustjóra hjá ríkinu eru 596.960 kr. sem eru 34 þús. hærri en laun alþingismanna. Þeir þurfa ekki að fara í neinar kosningar, en að auki hafa þeir að jafnaði 15 til 20 einingar ofan á þannig að heildarlaun þeirra eru um 680–750 þús. kr. á mánuði. Þingmenn eru um 20% lægri í launum en skrifstofustjórar hjá ríkinu.

Hinn hópurinn sem ég spurðist fyrir um er sendiherrar. Laun sendiherra eru 617.413 kr. Þeir hafa að auki um 15 til 20 einingar ofan á eru þær upplýsingar sem ég fæ og þá eru heildarlaun þeirra 700–750 þús. kr. Það er svipað, alþingismenn eru um 20% eða jafnvel ívið meira lægri í launum en sendiherrar.

Ég spyr: Er þetta til marks um það að kjör alþingismanna séu óhófleg og tilefni til að sitja árum saman undir þungri umræðu úr þjóðfélaginu, m.a. frá fjölmiðlum, um að þau séu óhófleg á ýmsa vegu? Mér finnst það ekki. Mér finnst laun alþingismanna vera mjög hófleg í samanburði við aðra sem hægt og eðlilegt er að miða sig og jafnvel lægri en það ef eitthvað er.

Það má benda á og segja að eftirlaunaréttindi alþingismanna séu rýmri en þessara sem ég miða við. Ég býst við að það sé rétt og munurinn minnkar eitthvað ef við tökum það inn í dæmið og reiknum til launa. (PHB: Hærra iðgjald.) En ég held að þrátt fyrir þann mun séu kjör alþingismanna mjög hófleg í þessum samanburði og ég er alls ekkert viss um að þau séu hærri en þessara stétta sem ég nefndi jafnvel þó að mismunurinn á eftirlaunakjörum sé reiknaður með.

Nú stendur til að breyta eftirlaunaréttindunum, lækka þau umtalsvert hjá alþingismönnum og þá eykst munurinn. Ég held að menn verði aðeins að vita hvað þeir eru að gera. Ef menn vilja fá öflugt Alþingi geta þeir ekki vænst þess að fá Alþingi þar sem menn standa á rétti sínum og bjóða ríkisstjórninni birginn þegar það á við með launakjör sem eru ekki betri en verið er að veifa framan í þjóðina um þessar mundir að þau verði. Það vil ég segja, virðulegur forseti. Menn eru að veikja Alþingi með þessum aðgerðum í heild sinni. Það er ríkisstjórnin sem er að veikja Alþingi, það er hún sem knýr þessi mál fram. Mér hefur fundist ég heyra dálítið mikið í þjóðfélagsumræðunni um þessar mundir, frá almenningi sem er agndofa yfir falli bankanna og er að leita skýringa á því hvernig þetta gat gerst, að ein af skýringunum sé sú að Alþingi er of veikburða, það ráði ekki við að bjóða ríkisstjórninni birginn, fara almennilega yfir málin sem ríkisstjórnin leggur fram, hafi ekki aðstöðu til þess, ekki mannskap og málin séu oft keyrð áfram á þvílíkum hraða að þau fara nánast óskoðuð í gegn.

Mér finnst töluvert til í því. Hluti af vandanum sem þjóðin horfir á og glímir við um þessar mundir er veikburða Alþingi. Við réttum ekki stöðu Alþingis með því að raða alþingismönnum neðst á listann. Svo þegar reynt er að skapa alþingismönnum betri aðstæður til að vinna verk sitt eins og með því að hafa aðstoðarmenn til að aðstoða sig í starfi sitja menn undir stöðugum árásum utan úr þessu sama þjóðfélagi og menn segja að það sé algjör óþarfi.

Ég hvet menn til að líta á stöðu Alþingis í heild sinni, ekki bara þetta eina frumvarp sem við erum hér að ræða eða það sem á að ræða síðar í kvöld. Menn eru ekki að ganga fram götuna til góðs í þessum efnum þegar á málið er litið í heild sinni. Menn eru að veikja þingið og það er vondur gangur, virðulegur forseti.