136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram í umræðu að þetta frumvarp tryggir auðvitað ekki að mál verði höfðuð fyrir erlendum dómstólum vegna þeirra aðgerða sem Bretar gripu til. Það sem frumvarpinu er hins vegar ætlað að gera er að taka af allan vafa um að það verður ekki vegna fjárskorts hinna gömlu banka sem það verður ekki gert.

Það hefur flogið fyrir að a.m.k. einhverjar skilanefndanna hafi áhyggjur af því að þær geti ekki forsvarað það út frá hlutverki sínu að verja fé til málshöfðunar og því er þessu frumvarpi ætlað að taka á þeim vanda og tryggja að fjármunir verði til reiðu.

Það er síðan eftir sem áður í höndum skilanefndanna að meta hvort mál verði höfðað. Í því efni hljóta auðvitað að koma til álita þær aðstæður sem voru fyrir hendi þegar af aðgerðunum varð og skilanefndirnar hafa vonandi upplýsingar um því að ég geri ráð fyrir að skilanefndirnar hafi núna getað kannað atburði og aðstæður í viðkomandi bönkum, þá sérstaklega hvort eitthvað þar gæti verið þess eðlis að það hefði getað útskýrt beitingu hryðjuverkalaganna.

Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að við ryðjum þeirri hindrun úr vegi, ef það er ekki skýrt, sem felst í því að af málshöfðun geti orðið vegna fjárhagsaðstæðna. Þessu frumvarpi er ætlað að gera það.

Virðulegi forseti. Ástæða þess að þetta frumvarp er þingmannafrumvarp er einfaldlega sú, eins og hefur komið fram í umræðum hér á Alþingi og síðast í umræðum um störf þingsins fyrir einni eða tveimur vikum, að það er mjög mikilvægt að mínu áliti að víðtæk pólitísk samstaða sé um fjárútlát af þessum toga. Það er einfaldlega þannig að ekki má inna af hendi greiðslur úr ríkissjóði nema til þess sé lagaheimild þannig að það þarf að skapa lagaheimildina í formi annaðhvort sérlaga og/eða fjárlagaheimildar.

Það sem við reynum að gera með þessu frumvarpi er að leggja fram lagagrunn til að unnt sé að veita stuðning þeim bönkum sem vilja láta reyna á þessi réttaratriði. Það er eðlilegt og nauðsynlegt að um það ríki víðtæk samstaða meðal þingmanna. Það kann vel að vera að reikningarnir verði mjög háir. Það hef ég ítrekað bent á í umræðu um þessi atriði í þinginu á undanförnum vikum. Það getur vel verið að málaferlin verði mjög kostnaðarsöm og kostnaður geti þess vegna auðveldlega hlaupið á hundruðum milljóna. Þess vegna skiptir miklu máli að það sé víðtæk pólitísk samstaða um málið og að stjórnarandstaðan standi með okkur í þessu verki. Því er þetta lagt fram hér í formi þingmannafrumvarps.

Ég vil sérstaklega (ÁI: Við styðjum ykkur til allra góðra verka.) þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, 1. flutningsmanni, fyrir vinnu hans að málinu. Við leggjum fram þetta frumvarp en því er ekki endilega ætlað að komast í gegnum þingið á þessum fáu dögum fram að jólum. Við munum leggja fram samættaða breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið til að tryggja að í 6. gr. fjárlaga verði fjárheimild sem dugi til þessa og þetta frumvarp fer síðan sinn gang til nefndar, verður vonandi lögfest og verður þá til frekari fyllingar og styrktar þegar kemur vonandi að því að fjármálaráðherra þurfi að beita þessum heimildum.

Virðulegi forseti. Okkur ríður mikið á að fá að vita nákvæmlega hvað gerðist í þessu máli. Það er mikilvægt fyrir þjóðina og það er mikilvægt til þess að við áttum okkur á samhengi hlutanna. En það er ekki síður mikilvægt fyrir sjálfsmynd okkar til lengri tíma litið.

Það kann vel að vera, við skulum ekki útiloka það, að í aðdraganda málshöfðunar eða jafnvel fyrir dómi komi í ljós einhverjir hlutir sem gætu kollvarpað þeirri sýn sem við höfum í dag sem er sú að við höfum verið órétti beitt. Það kann vel að vera að við málsmeðferð fyrir dómi eða í aðdraganda málshöfðunar komi upp úr dúrnum að einhverjir atburðir hafi verið þess eðlis að þeir útskýrðu frekar hvers vegna þessum lagaheimildum var beitt og kannski ættu slík málaferli þá annaðhvort eftir að staðfesta þann grun sem við höfum í dag um að við höfum verið órétti beitt eða kollvarpa þeirri hugsun og útskýra fyrir okkur betur af hverju þessum heimildum var beitt. Þá verður væntanlega auðveldara fyrir okkur að sætta okkur við afleiðingarnar og lifa með þeim.

Það hlýtur að vera mjög mikilvægt, held ég, fyrir þessa þjóð að öll tildrög þessa máls og aðdragandi fáist hreint upp á yfirborðið og þess vegna skiptir miklu máli að allir þeir sem yfir upplýsingum búa um þetta hjálpi skilanefndunum að átta sig á stöðunni þannig að þær geti raunsætt lagt mat á aðstæður áður en til málshöfðunar kemur þannig að málarekstri yrði hagað með eins skynsamlegum hætti og kostur er.

Að síðustu, virðulegi forseti, er það auðvitað þannig að ríkið mun áfram horfa til sinnar lagalegu stöðu varðandi þau úrræði sem ríkið kann að hafa til að bera þessi mál undir dómstóla. Það er rétt sem hér hefur komið fram í umræðunni að það eru nokkur álitamál um það hversu auðvelt það kynni að vera. Það er áfram sjálfstætt úrlausnarefni. Þar eru ekki neinir sérstakir tímafrestir að renna út en hins vegar er greinilega fullur vilji til þess af hálfu forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins að vinna vel í því máli eins og gert hefur verið hingað til.