136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[12:36]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Samfylkingin kveinkar sér ekki undan þessari umræðu og ég hef rifjað það upp að þingheimur og þjóð urðu vitni að því á þriðjudag þegar hæstv. félagsmálaráðherra rassskellti hv. þingmann í umræðu um sama mál. Rassskellti hann bókstaflega þegar hann fór yfir velferðarmálin og rangfærslur um þau. Hv. þingmaður dregur kolranga mynd upp af verkum ríkisstjórnarinnar.

Við stöndum vörð um vaxtabæturnar, (BJJ: Nei, segðu satt.) barnabæturnar, (Gripið fram í.) og skattleysismörkin. Við tökum til baka hluta af tekjuskattslækkun sem hv. þingmaður stóð fyrir. Við gagnrýndum einmitt að tekjuskattslækkun, prósentulækkun, gagnast best þeim tekjuhæstu. Við tökum hana til baka, aðgerð sem hv. þingmaður stóð fyrir. Á móti verjum við skattleysismörkin, sem koma lágtekjufólki og millitekjufólki miklu betur en tekjuskattslækkun Framsóknarflokksins.

Lægstu tekjur hafa hækkað um 50% á einu ári og hlutfall bóta gagnvart dagvinnutryggingu hefur aldrei verið hærra þannig að hv. þingmaður dregur hér upp kolranga mynd af árangri okkar (Gripið fram í.) í velferðarmálum. Afnámum við ekki makatengingu? Það gerði hv. þingmaður ekki. Hækkuðum við ekki frítekjumörk, lækkuðum við ekki skerðingarmörk? Svona mætti lengi fara yfir.

Varðandi sjúklingamálin er líka kolrangt að við byrjum á sjúklingum, hvernig dettur hv. þingmanni það í hug? (BJJ: Það stendur hérna.) Við skulum hafa í huga að nú þegar eru ýmis gjöld í kerfinu og ef við gerum ráð fyrir að kostnaðarhlutdeild sjúklinga sé um 20% af heildinni samkvæmt OECD, sem er með því lægsta í OECD, þá tölum við um að kostnaðarhlutdeild sjúklinga aukist um hvað mikið? Tvö prósent, það er allt og sumt. Við leggjum ekki þungar byrðar á sjúklinga og rangt er að draga þá mynd upp. Við tökum sömuleiðis sérstaklega fram að komugjöld, (Forseti hringir.) sem eru víða í kerfinu, eiga að vera lægri fyrir aldraða, öryrkja og börn. Hér er því (Forseti hringir.) hópum hlíft en ekki vegið að þeim. Það er sérkennilegur málflutningur hv. þingmanns sem byggist á svona rangfærslum (Forseti hringir.) og útúrsnúningum.