136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[12:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að vekja máls á því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur ranghvolft sinni stefnu (Gripið fram í.) á nokkrum mánuðum. Ég spurði sjálfstæðismenn í þessari umræðu — hv. þingmaður fjallar um vanda atvinnulífsins — af hverju við séum með 18% stýrivexti hér á landi. Þegar fyrirtækin eru unnvörpum að segja fólki upp, þegar fyrirtækin flest eru orðin tæknilega gjaldþrota, hvers vegna búum við við 18% stýrivexti?

Hv. þingmaður talar um að við höfum lent í ákveðnum hlutum. Ég spyr hv. þingmann: Hvað skuldar þjóðarbúið? Vitum við það? Vitum við hvaða vextir eru á þeim skuldum? Vitum við það? Og hverjir eiga að útskýra það fyrir þjóðinni hvað við skuldum sem þjóð? Er það stjórnarandstaðan? Nei. Það eru þeir sem hafa vélað um þetta mál í tvo og hálfan mánuð, hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn, bankastjórn Seðlabankans og fleiri aðilar. Við höfum kallað eftir svörum á hv. Alþingi. Það er ósköp eðlilegt að við spyrjum margra spurninga í þessu.

Ég held að hv. stjórnarliðar hafi ekki gert sér neina grein fyrir því hvert heildarumfang vandans sé. Ef hv. þingmaður, sem talar um að við höfum lent í ákveðnum hlutum, telur að stjórnvöld beri ekki neina ábyrgð á því að við lentum í ákveðnum hlutum — sem ég held reyndar að hann telji ekki — þá lifum við náttúrlega ekki alveg í raunveruleikanum því það var margbúið að vara við þessu á undangengnum mánuðum. Formaður bankastjórnar Seðlabankans var búinn að vara formenn stjórnarflokkanna við þessu. Það er óumdeilt. Ég spyr hv. þingmann hvort ekki hefði mátt koma í veg fyrir þetta með einhverjum hætti ef (Forseti hringir.) ríkisstjórnin hefði gripið fyrr til aðgerða.