136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni hreinskilnina því að ég held að ef tillaga til þingsályktunar sem hv. þm. Guðni Ágústsson ásamt öllum þingflokki Framsóknarflokksins flutti á sínum tíma, fyrri hluta októbermánaðar, hefði verið samþykkt værum við ekki í jafnerfiðri stöðu í dag og raun ber vitni. Við værum örugglega í miklum erfiðleikum en ég er alveg viss um að við værum í mun betri málum. Reyndar hafa Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa ekki nægjanlegt samráð í mikilvægum málum. Látum stjórnarandstöðuna vera, við höfum alveg verið hunsuð hér, en þegar aðilar vinnumarkaðarins eru hunsaðir er það mjög alvarlegt.

Hæstv. forseti. Við hefðum þurft að taka heildstætt á þessum málum. Við þurfum líka að hugsa fyrir því sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Öll sterkustu öflin verða að setjast í samvinnu- og efnahagsráð til þess að gefa út skýr skilaboð þannig að menn tali ekki í eina áttina í dag og aðra á morgun. (Forseti hringir.) Við verðum öll að vera í þeim sama báti að bjarga þessari þjóð út úr þessum erfiðleikum.“

Það voru orð að sönnu, hæstv. forseti.