136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Þetta er búin að vera afar áhugaverð og upplýsandi umræða, ég þakka fyrir hana, hún hefur verið mjög góð. Það komu margar spurningar upp og sumum hefur verið svarað.

Ég ætla að byrja á því að svara hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem spurði mig fyrr í dag. Ég fór í andsvar við hana en það var svo margt sem ég þurfti að svara að ég gleymdi hreinlega að svara þessu. Hún spurði mig um gjöldin vegna innlagna á spítala. Í umsögn hv. meiri hluta heilbrigðisnefndar til hv. efnahags- og skattanefndar segir, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að tekjur heilbrigðisstofnana af innlagnargjaldi þessu muni nema um 100 millj. kr. á ári. Komugjaldið vegna innlagnar á sjúkrahús mun því ekki skila 360 millj. kr. eins og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem meginhluti þeirra tekna sem þau ákvæði frumvarpsins er varða breytingar á lögum um sjúkratryggingar gera ráð fyrir mun koma til vegna hækkana á núgildandi gjöldum.“

Vegna mjög erfiðs árferðis þurfa menn að hækka gjöld og menn þurfa líka að hækka skatta til að reyna að minnka þann gífurlega halla sem er á ríkissjóði. Það hefur komið fram að greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu í heild sinni er eitthvað um 17,5% og ég hygg að menn ætli sér að halda því, hvorki auka þátttöku ríkisins né minnka hana. En vegna þess að kostnaðurinn hefur vaxið mikið í heilbrigðiskerfinu þarf óneitanlega að hækka ýmis komugjöld á spítölunum sem sum hver hafa ekki verið hækkuð lengi.

Það var spurt um fleira. Sumir hafa talað um óþekktar stærðir í þessu frumvarpi og það er rétt. Við urðum fyrir fjórföldu áfalli, m.a. að 80–90% af fjármálakerfinu hrundi á einni viku sem hefur haft áhrif um allt kerfið, eftirköst, fyrirtæki fara á hausinn af því að þau fá ekki fyrirgreiðslu, einstaklingum er sagt upp, þeir missa vinnuna o.s.frv. Þetta hefur kostað óhemjufé og þess sér stað í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2009 og einnig fjáraukalögunum fyrir þetta ár. Síðan vorum við með jöklabréf hér á landi sem höfðu streymt inn vegna vaxtamunar og streyma núna út og valda miklum erfiðleikum við gjaldeyrisviðskipti og hafa lækkað gengið á krónunni til mikils skaða fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem ákváðu að taka lán í erlendri mynt án þess að hafa tekjur í erlendri mynt sem ætti að vera grundvallaratriði í lántökum, að hafa skuldirnar í sömu mynt og tekjurnar.

Við getum í rauninni ekki sagt hvað kostnaður af lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, vextirnir, sé mikill vegna þess að það er ekki búið að draga á þessi lán enn þá, (Gripið fram í.) ekki nema lítinn hluta, og kannski þarf ekki að draga yfirleitt á þau og ef við færum að draga á þau værum við í rauninni að gefa merki um að meiningin væri að ríkið færi að blanda sér inn í þennan markað og það kynni að hafa áhrif á markaðinn sjálfan.

Svo er það með Icesave-reikningana, þessa þekktu sem við erum í deilu við Breta út af. Ég hef sagt að lögfræðilega eigum við ekki að borga það. Við vorum eiginlega þvingaðir til þess, ekki eiginlega, við vorum bara þvingaðir til þess með kúgun Evrópusambandsins, þessara svokölluðu vinaþjóða okkar, líka Norðurlandanna. Við getum ekki sagt í fjárlagafrumvarpinu hvað sú tala er mikil því að þá værum við í rauninni búin að viðurkenna hver niðurstaðan úr samningnum ætti að vera. Ég segi að þessi tala sé einhvers staðar á bilinu frá 0 upp í 600 milljarðar og vonandi bara 0.

Það er eins með lánardrottnana. Ef við ætlum að taka lán í útlöndum, bæði til að fjármagna óhjákvæmilegan halla á ríkissjóði og eins til að fjármagna atvinnulífið áfram — það hefur verið fjármagnað erlendis — þarf hugsanlega að bæta eitthvað úr stöðu lánardrottna en það er sama sagan þar, við getum ekki sagt hvað það verður mikið vegna þess að þá værum við búin að semja.

Í umræðunni hefur mikið verið rætt um bændur og stöðu þeirra. Ég undirstrika að bændur fá 5,7% hækkun á sama tíma og flestir launþegar sætta sig við lækkun launa og atvinnuleysi. Ég held að það sé farin að verða regla nánast á hinum frjálsa markaði að laun lækki, a.m.k. er búið að skera niður yfirvinnu. Hjá bændum fer náttúrlega hluti af gjaldinu til greiðslu á kostnaði og kostnaðurinn hefur ekki lækkað þannig að ég hygg að þetta sé ekki langt í frá en ég er viss um að margir munu gagnrýna að þeir fái 5,7% á sama tíma og aðrir fá ekki neitt.

Hér var dálítið rætt um verðbætur. Ég var að lesa frá Vinstri grænum að þeir ætli að fara að stoppa verðbætur. Ekki líst mér á það. Hverjir fá verðbætur og af hverju fá menn verðbætur? Það eru sparifjáreigendur, oftast nær eldra fólk sem hefur nurlað einhverju saman, sleppt einhverri neyslu, hætt við að fara í ferð eða ekki keypt sér flottan bíl eða eitthvað svoleiðis og sparað það og vonast til að geta haldið neyslunni áfram seinna, sem sagt þeirri neyslu sem það frestaði. Verðtrygging gerir ekkert annað en það að menn geta keypt það sama eftir 10 ár og það sem þeir hefðu getað keypt fyrir það sem þeir lögðu til hliðar 10 árum áður. Ef menn ætla að breyta því er verið að hrekkja þetta fólk, það er ekkert annað. Eins með lífeyrissjóðinn, ef menn ætla að skerða verðbætur almennt þurfa lífeyrissjóðirnir til viðbótar við þetta áfall, þ.e. almennu lífeyrissjóðirnir, ekki opinberu lífeyrissjóðirnir, að skerða enn meira, einmitt sem nemur skerðingu á verðbótunum sem þeir ætla að skerða. Þetta er ekki einfalt. Ef menn ætla hins vegar að skerða og láta ríkið borga mismuninn er það ekkert annað en skattahækkun, ekkert annað eða enn frekari skerðing á velferðarkerfinu þannig að ég get ekki séð hvernig menn ætla sér að leysa það mál.

Hv. þm. Atli Gíslason held ég að hafi sagt að menn væru að bjarga bönkunum, ekki fólkinu. Ég man ekki betur en að hluthafar í bönkunum hafi tapað öllu og það talar enginn mikið um það. Þar af voru 11.000 aldraðir sem að meðaltali áttu 3 millj. kr. í hlutabréfum bankanna og töpuðu því fé. Það var ekkert verið að bjarga bönkunum. Það var verið að bjarga bankarekstri en hluthafarnir töpuðu öllu sínu, við skulum hafa það alveg á tæru. Það fóru þúsund milljarðar á einni viku og enginn er að bjarga bönkunum. Við erum að bjarga rekstrinum, við erum að bjarga innstæðunum og greiðslukerfinu. Það er allt annar handleggur.