136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[22:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil koma inn á í sambandi við þetta fjáraukalagafrumvarp núna við 2. umr. þess þó að kannski hafi ekki margt breyst í þeim efnum frá því að við ræddum það fyrir nokkrum dögum við 1. umr. Frumvarpið, eins og menn vita og hér hefur verið viðurkennt, kom mjög seint fram en var þó engu að síður að stofni til nokkurn veginn miðað við óbreyttar aðstæður eins og þær höfðu verið í haust og hafði ekki nema að óverulegu leyti tekið mið af þeim breytingum sem síðan hafa orðið. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum, jafnfjölrætt og það hefur orðið sem hér hefur á dagana drifið síðan í byrjun októbermánaðar. En það er þá líka viðfangsefni að skoða með hvaða hætti sé skynsamlegast að ganga frá þessum fjárauka fyrir yfirstandandi ár í ljósi þess sem orðið er og í vændum er. Ég lét það sjónarmið mitt koma fram við 1. umr., einhverjum hefur kannski ekki þótt það mjög ábyrgur málflutningur, að mér sýndist sem ekki mundi af veita að taka betur til í sambandi við stöðu ýmissa stofnana á þessu ári sem nú væri að líða þannig að þær legðu upp í leiðangurinn á árinu 2009 og áfram inn í framtíðina betur staddar til að takast á við þá miklu erfiðleika sem verða í hinum opinbera búskap og hinum opinbera rekstri í framtíðinni.

Enn vil ég halda því til haga að þó að það þýddi vissulega að halli yrði eitthvað meiri á þessu fjáraukalagafrumvarpi en nú er gengið út frá þar sem talað er um eina tæpa 5 milljarða, ef ég man rétt, hafi það ekki breyst eitthvað í forsendum milli umræðna, held ég að þá yrði bara svo að vera frekar en að leggja af stað með stofnanirnar eins og ýmsar heilbrigðis- og menntastofnanir sem draga hluta af þeim skuldahala áfram með sér inn á hið erfiða ár 2009 sem þær hafa búið við á þessu ári og sumar hverjar jafnvel lengur.

Það er að vísu þannig að horfur eru hér að versna svo snögglega að sennilega eru fá dæmi slíks. Má segja að þær séu sótsvartar. Íslendingur erlendis sem fylgist með umræðum hér á netinu og hefur samband heim spurði mig í dag hvað væri orðið ljóst og hvað lægi fyrir um þjóðhagshorfur á næsta ári og áfram. Ég sagði að enn væri óglögg myndin af því en það eina sem því miður yrði að teljast nokkuð víst væri að horfurnar væru sótsvartar eins og menn hefðu einhvern tíma orðað það. Tæplega 40 milljarða kr. afgangur sem átti að vera á fjárlögum ársins er að snúast upp í 5 milljarða kr. halla og á þó sennilega því miður eftir að reynast meiri þegar upp verður staðið því að tilfinning mín er sú að hinn harkalegi samdráttur haustmánaða sé ekki enn að fullu kominn inn. Hallinn hleypur upp, m.a. og ekki síst út af stórauknum vaxtakostnaði sem fer upp um 11 milljarða kr., þá í áætlaða 33 milljarða á árinu. Er það þá að gerast á nýjan leik að vaxtakostnaður vegna skuldabyrði hins opinbera er farinn að taka verulega í. Þó er það hátíð hjá því sem í vændum er ef vaxtakostnaður næsta árs verður kannski af stærðargráðunni 90–100 milljarðar kr.

Það eru nokkur atriði þessa frumvarps sem ástæða væri til að staldra betur við. Mér sýnast breytingartillögur fjárlaganefndar allar vera vel rökstuddar og geri ekki athugasemdir við þær. Ég held að allt sem þar er tínt til sé úrlausnarefni sem þarf að leysa og ekkert meira um það að segja í sjálfu sér annað en þetta sem ég hef áður sagt, að í mínum huga væri skynsamlegt að taka betur til og búa hinn opinbera rekstur og búskap betur undir það sem hann á í vændum en hér er gert. Það vekur athygli mína, m.a. vegna þess sem við kynntum og lögðum til í dag, þingmenn Vinstri grænna, í sambandi við áherslur okkar í ríkisfjármálum og skattamálum og leggjum þar til ásamt með öðru að hætt verði við þátttöku í heimssýningunni í Kína, að þar er á ferðinni mál að því er virðist sem hefur borið þannig að að engar fjárheimildir voru á yfirstandandi ári til þeirrar þátttöku eða undirbúnings hennar. Engu að síður er í frumvarpinu gert ráð fyrir 70 millj. kr. fjárheimild í þetta og allmiklum fjárhæðum á næsta ári í fjárlagafrumvarpinu. Þó að þar eigi að draga eitthvað úr fyrri stórbrotnum áformum um mikla sýningarhöll fara samt í þetta umtalsverðir fjármunir ef þetta verður að veruleika, annars vegar þær 70 millj. kr. sem hér er lagt til að komi inn í fjáraukalög og er þá trúlega búið að eyða að verulegu leyti í undirbúninginn og hins vegar kostnaðurinn sjálfur á næsta ári. Það sem vekur kannski meiri athygli og er meira umhugsunarefni er að í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar er upplýst að þar hafi einfaldlega komið fram í fjárlaganefnd í byrjun þessa árs og eftir að fjárlög voru samþykkt að ríkisstjórnin hafi samþykkt að fara út í þetta verkefni — heimildarlaus þar um frá Alþingi. Þá höfum við dæmi í höndunum um hlut af þessu tagi sem ríkisstjórnin ákveður og mætir svo til Alþingis og biður um stórar fjárveitingar, annars vegar í fjáraukalögum og hins vegar fjárlögum næsta árs, um eitthvert verkefni af þessu tagi sem Alþingi hefur aldrei lagt blessun sína yfir. Mér finnst það færa frekari rök fyrir því að það eigi að hætta við þetta, sætta sig þá bara við að afskrifa þann kostnað sem verður ekki endurheimtur, er farinn í þetta, en láta þar við sitja.

Ég held að við þurfum að vinna önnur og brýnni verkefni í landkynningarmálum okkar og til að endurheimta orðstír okkar en þann að vera eitthvað að monta okkur í Kína á næsta ári sem er dálítið langt í burtu. Vissulega er þetta heimssýning en ætli okkar verkefni liggi ekki nær okkur, að reyna að endurreisa orðspor okkar í okkar heimshluta og setja frekar fjármuni í markvisst og árangursríkt kynningar- og endurreisnarstarf, t.d. með því að tefla fram okkar bókmennta- og menningararfleifð á bókamessum og ferðasýningum í nágrenninu sem eru líklegri til að skila okkur árangri en endilega þátttaka þarna. Ég sakna þess t.d. að fjárlaganefnd skuli þá ekki hafa tekið á sig rögg í þessu máli og sagt við blessaða ríkisstjórnina að það væri vænlegast að hætta við þetta svo eitt lítið dæmi sé þarna tekið.

Skuldahalinn og skuldamálin og hvernig þau verða bókfærð eru enn í nokkurri þoku og ekkert er um það að finna enn í breytingartillögum eða meirihlutaáliti eða minnihlutaáliti nema þá gagnrýnina á það í nefndaráliti minni hlutans að þessir hlutir skuli enn liggja duldir. Minni hlutinn hefur þar reynt að draga fram upplýsingar og ítrekað óskað eftir því að fá um það gögn hvernig öllu sem tengist falli bankanna og fyrirhuguðum eða þegar orðnum lántökum og skuldbindingum verði fyrirkomið í ríkisbókhaldinu. Þetta hlýtur þá að skýrast núna í lokin á allra síðasta sprettinum í tengslum við 3. umr. fjárlaga og þá 3. umr. þessa máls en það er ekki besti hlutinn af þessum vinnubrögðum að standa frammi fyrir því að stór og vandasöm mál komi alls ekki fram og liggi alls ekki fyrir fyrr en við 3. og síðustu umræðu um mál. Í lögum stendur að öll lagafrumvörp skuli fara í gegnum þrjár umræður og fá þá rækilegu skoðun sem þar er. Aðalefnisumræða um frumvarp eftir skoðun eða rannsókn í nefnd er 2. umr. þannig að hér er verið að fara dálitla hjáleið í sambandi við góða og vandaða þingræðislega meðferð mála. Það er ekki hægt annað en að horfast í augu við það. Menn afsaka ýmislegt með því þessa dagana að það séu neyðaraðstæður, óvenjulegar aðstæður og tímaþröng og það verði að gera margt með hraði en menn verða samt að reyna að vanda sig eins og þeir geta og aðstæður leyfa og Alþingi á þá bara að taka sér þann óumflýjanlega tíma sem það telur þurfa til að gera þessa hluti eins vel úr garði og mögulegt er. Það lýtur m.a. að þeim vandasömu álitamálum sem kunna að verða mjög umdeild út frá lagalegu og þingræðislegu sjónarmiði um hvernig með þessa hluti verður farið. Ekki það að það skipti öllu máli fyrir hina efnislegu útkomu hvar skuldirnar eru bókfærðar eða hvernig frá þessu er gengið en ekki bætir úr skák ef menn fara að sveigja vinnureglur sem menn hafa baksað við að reyna að bæta og betrumbæta á undanförnum árum, svo sem með setningu fjárreiðulaganna á sínum tíma og ýmsu fleiru.

Ég hef líka verið að hugsa um það, virðulegur forseti, þótt það væri að vísu svo í Alþingi hinu forna að fjárlög voru afgreidd í sameinuðu þingi, voru eina frumvarpið sem var fjallað um í sameinuðu þingi en ekki í deildum, hefðu önnur frumvarp sem hér eru á ferðinni og því tengjast farið aðra leið og fengið sexfalda umræðu og jafnvel rúmlega það því að iðulega gerðist það að seinni deild sá ágalla á málum sem fyrri deildin var búin að fjalla um, lagfærði þá og sendi málið til baka. Þannig gekk það þangað til niðurstaða var fengin, annaðhvort báðar deildir þingsins orðnar sammála eða sameinað Alþingi skar úr að lokum. Þá fengu hlutirnir rækilegri skoðun, um það verður ekki deilt, og mér finnst ágætt að menn hafi þetta í huga og muni það þegar við erum að ræða um vinnubrögð á Alþingi í dag að það voru miklar heitstrengingar um það á sínum tíma þegar þingskapalögum og skipulaginu var breytt árið 1991 að menn mundu í staðinn vanda enn betur hina einföldu þriggja umræðna umfjöllun um mál og reyna að standa þannig að því að það kæmi ekki á nokkurn hátt niður á gæðum löggjafarstarfsins.

Hér eru líka hlutir, virðulegi forseti, sem maður undrast satt best að segja að skuli þurfa að ræða um og deila um. Ég tek undir nokkur af þeim atriðum sem hv. þm. Jón Bjarnason gerði að umtalsefni. Það er dálítið skrýtið að það skuli þó ekki einu sinni vera aðstæður uppi til þess að menn sameinist um að hætta við vissa hluti og gera ekki sumt sem er eiginlega ómögulegt að sjá annað en að valdi vandræðum og kostnaði ofan í allt sem menn hafa í höndunum til að glíma við eins og þessa vitleysu, skipulagsbreytingu í heilbrigðis- og tryggingamálum. Af hverju í ósköpunum hætta menn ekki við að kljúfa upp Tryggingastofnun með ærnum kostnaði og illdeilum og bæta því álagi ofan á þegar hart keyrt starfsfólk sem þarf nú að vinna við erfiðar aðstæður sem aldrei fyrr? Það eru nokkrir þannig hlutir á ferðinni eða jafnvel í farvatninu, að boðað er, sem maður bókstaflega skilur ekki að menn láti sér detta í hug að fara út í við þessar óvissu og erfiðu aðstæður. Það er langskást við þessar aðstæður að reyna að halda utan um reksturinn í grófum dráttum eins og hann er með sem minnstum átökum um hann og láta menn þá glíma við það viðfangsefni hver á sínum stað í því samhengi sem þeir eru með hlutina að ná endum saman en fara ekki að bæta óvissunni af skipulagsbreytingum og uppskiptum eða einhverri vanhugsaðri sameiningu út í loftið ofan á það sem fyrir er. Það vita allir og þekkja að jafnvel þótt sameining einhverra stofnana sem er hugsuð sem skipulagsbreyting og einföldun og að í því eigi að felast einhver hagræðing fylgir nánast undantekningarlaust því umróti í fyrstu umferð kostnaður, aukið vinnuálag, skörun og jafnvel viðbótarlaunakostnaður vegna þess að fólk lætur af störfum á einum stað en annað ráðið á móti eða hvernig sem þetta gerist allt saman. Ef menn eru í aðstöðu til þess að gera slíka hluti, hafa efni á kostnaðinum og sjá fyrir langtímaávinning, geta þeir fjárfest í honum þótt það kosti viss útgjöld tímabundið. En erum við endilega í þeirri aðstöðu í dag? Finnst okkur réttlætanlegt að kosta jafnvel hundruðum milljóna í eitthvað slíkt en þurfa að skera niður almannatryggingar, þurfa að skerða vaxta- og barnabætur? Það er veruleikinn á borðum okkar þingmanna þessa dagana. Þó að það eigi ekki beint erindi hér í sambandi við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir þetta ár því að auðvitað öflum við ekki tekna úr þessu á árinu sem er að kveðja mundi það samt skipta máli upp á framhaldið, og þá það hvað menn teldu réttlætanlegt að gera í sambandi við t.d. halla á þessu fjáraukalagafrumvarpi, hvað menn ætluðu sér svo í framhaldinu.

Ég held að hæstv. ríkisstjórn sé að falla mjög á prófinu í þeim efnum, að reyna ekki af einhverjum metnaði að skoða blandaðar aðgerðir frekar en þær sem enn hafa verið boðaðar sem fyrst og fremst eru tiltölulega flatur niðurskurður á öllu kerfinu, sem fela í sér annars vegar einhverja sanngjarna og tekjujafnandi tekjuöflun, sparnað á öðrum forsendum en þeim sem enn er a.m.k. fyrirhugaður, þ.e. velja frekar út starfsemi sem er ekki mjög tilfinnanlegt eða sárt að trappa niður, ég tala nú ekki um að hætta við að koma á fót og í rekstur óstofnuðum stofnunum sem eiga mikla sýn eins og Sjúkratryggingastofnun og ráðstafa frekar þeim fjármunum í það eða hugsa í samhengi við að við getum látið eftir okkur aðeins meiri halla á þessu ári. Ég hef skilið það svo að því ráðum við sjálf, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé ekki beinlínis að skipa okkur fyrir verkum með það hvernig við klárum fjárlagadæmið fyrir árið sem er að líða. Hann horfir meira á árið 2009 og þá alveg sérstaklega 2010, boðar þar ekkert fagnaðarerindi í þeim efnum, satt best að segja eins og þeir sjá sem fylgdust með viðtölum sem hér voru við talsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og við fengum sannarlega að upplifa sem áttum með þeim fund í þinghúsinu í fyrramorgun. En það kemur að því að glíma við þá hluti síðar.

Ég tel sem sagt, virðulegi forseti, að enn séu uppi ýmis álitamál í því dæmi sem hér er á okkar borði í kvöld, fjáraukalagafrumvarpinu fyrir yfirstandandi ár. Þetta er að vísu bara 2. umr. og málið kann að taka einhverjum breytingum í lokin. Ég mæli með því að þegar hv. fjárlaganefnd fer yfir málið milli 2. og 3. umr. velti hún alvarlega fyrir sér hvort hún eigi ekki að ræða þá við ríkisstjórnina eða forustumenn hennar um frekari breytingar í þessum efnum sem annars vegar feli í sér að höggva betur skuldahalann af þeim stofnunum sem eiga áfram að draga hann inn í næsta ár og hins vegar sé þá kannski hægt að ákveða líka tilteknar aðgerðir sem mundu þýða sparnað, minni fyrirhöfn og minna álag á starfsemina á næsta ári. Það hleypur ekkert frá mönnum að gera skipulagsbreytingar af því tagi sem menn hafa ætlað sér í heilbrigðis- og tryggingamálum síðar ef menn verða áfram sannfærðir um að þær séu réttmætar en fresta því við þessar erfiðu aðstæður, setja niður illdeilurnar, skapa um þetta frið og reyna að vinna þessa hluti með fólki en ekki á móti því eða í ágreiningi við það.

Herra forseti. Ég held að ég láti þessar athugasemdir mínar duga að svo stöddu. Ég veit ekki hvort hv. formaður fjárlaganefndar hyggst blanda sér frekar í umræðurnar en þá væri fróðlegt að hann lýsti aðeins inn í það hvað hann telur vera eftir í þessu máli, hvernig fjárlaganefnd hugsar sér að vinna það milli umræðna og hvort vænta megi umtalsverðra breytinga þegar þar að kemur.