136. löggjafarþing — 63. fundur,  20. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[00:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um breytingar á ýmsum lögum um kolvetnisstarfsemi eins og ítrekað hefur komið fram hér í kvöld, eða það sem við köllum öðrum orðum olíu- og gasleit í íslenskri efnahagslögsögu. Ég ætla að fá að ítreka hvaðan þessi skilgreining kemur.

Kolvetni þýðir samkvæmt lögum nr. 13/2001 jarðolía, jarðgas eða annars konar kolvetni sem er til staðar í jarðlögum undir hafsbotni frá náttúrunnar hendi og er hægt að nota í fljótandi eða loftkenndu formi. Það hefur lítið með hinn fræga og umtalaða kolvetniskúr að gera og þaðan af síður eitthvað með Ásmund Stefánsson að gera, sem hefur eiginlega eignað sér Atkins-kúrinn hér á Íslandi.

Svo að við rifjum aðeins frekar upp söguna samþykkti ríkisstjórnin vorið 2005 tillögu fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, um að hefja undirbúning fyrir hugsanlega útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á norðanverðu Drekasvæðinu rétt við Jan Mayen hrygginn. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa verið jákvæðar. Fram hafa komið skýrar vísbendingar um að þar sé olíu og gas að finna en nauðsynlegt er að fara í frekari rannsóknir til að sannreyna að svo sé. Drekasvæðið er nyrst og austast í íslensku efnahagslögsögunni og eiginlega eins langt og við komumst frá Íslandi ef við miðum við efnahagslögsöguna og er það 42.700 ferkílómetrar að flatarmáli. Rannsóknir hafa leitt í ljós að áhugaverðar myndanir eru í jarðlögum á norðanverðu svæðinu á allt að 4.400 ferkílómetra svæði. Hluti, eða um 800 ferkílómetrar, er í norsku efnahagslögsögunni við Jan Mayen en um 3.600 ferkílómetrar eru innan íslensku lögsögunnar og er í gildi milliríkjasamningur á milli Íslendinga og Norðmanna um hvernig skipta beri kostnaði og hugsanlegum olíu- og gasfundi á milli ríkjanna.

Íslenska ríkið er samkvæmt lögum eigandi kolvetnis eða vetniskolefnis, sem er nú miklu fallegra orð, eða vetniskola, sem kann að finnast á íslensku yfirráðasvæði utan netlaga og fellur stjórn olíu- og gasmála undir iðnaðarráðuneytið. Orkustofnun er leyfisveitandi í rannsóknum og vinnslu kolvetnis á ókunnum svæðum og hafa tvö leyfi verið veitt til leitar á olíu og gasi til olíuleitarfyrirtækjanna InSeis árið 2001 og TGS Nopec árið 2002.

Það frumvarp sem við fjöllum hér um var samið sameiginlega af iðnaðarráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu. Verið er að leggja til breytingar á áðurnefndum lögum nr. 13/2001 um þessa kolvetnisvinnslu — og það er algjörlega óþolandi að þurfa að nota þetta orð svona oft — en einnig eru lagðar til breytingar á skipulags- og byggingarlögum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum, lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og lögum um brunavarnir — aðrar nefndir og önnur ráðuneyti hafa verið heppnari með orð, það er ánægjulegt að sjá.

Markmiðið með breytingunum er að setja skýrari lagaumgjörð um skipulag mengunarvarna og öryggismál og utan um rannsóknir, leit og vinnslu á olíu og gasi á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Einnig kemur fram að verið er að útvíkka hlutverk Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Brunamálastofnunar. Þau eiga þá einnig að taka til starfsemi við rannsóknir, leit og vinnslu á kolvetni (Gripið fram í.) og landgrunnsmarka Íslands. Lagt er til að Skipulagsstofnun ákvarði um matsskyldu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, annist gerð og framkvæmd skipulagsáætlana, veiti framkvæmdarleyfi og hafi eftirlit með leyfisskyldri starfsemi. Umhverfisstofnun er ætlað að veita starfsleyfi og hafa eftirlit með starfsemi sem getur haft í för með sér mengun í hafi eða á hafsbotni, og Brunamálastofnun á að annast eldvarnaeftirlit, staðfesta öryggismat vegna mannvirkja á svæðinu og endurskoða það mat reglulega.

Í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar eru lagðar til mjög umfangsmiklar breytingar á frumvarpinu og má gróft sagt flokka það í tvo þætti. Fyrri hlutinn snýr að þeirri kröfu nefndarmanna að þekking, reynsla og störf myndist hér á landi um rannsóknir og vinnslu á olíu og gasi. Í frumvarpinu virðist einfaldlega gert ráð fyrir að leyfishafar geti stofnað hér útibú og verið skattlagðir en engar aðrar sérstakar kröfur eru gerðar um starfsemi hér á landi. Nefndin leggur því til að fyrirtækin verði ekki bara að stofna sérstakt félag hér á landi heldur verði þau líka að vera með starfsstöð og starfsemi sem tryggir sjálfstæða stjórnun og umsjón framkvæmda frá Íslandi á öllum þáttum sem tengjast áðurnefndri kolvetnisstarfsemi. Orkustofnun verði jafnframt heimilt að setja sérstök skilyrði er lúta að þessu skipulagi fyrirtækjanna og fjármögnun þeirra.

Þetta atriði er að mínu mati mjög mikilvægt í ljósi þess að í skýrslu iðnaðarráðuneytisins frá því í mars 2007 um Drekasvæðið koma ítrekað fram þær væntingar höfunda skýrslunnar að starfsfólk við leit, rannsóknir, framkvæmdir og framleiðslu verði að langmestu leyti erlent. Það var hreinlega sláandi hversu litlar væntingar eru gerðar til sköpunar nýrra starfa fyrir Íslendinga vegna rannsókna, leitar og vinnslu olíu og gass í skýrslunni. Ég hef í fyrirspurn bent hæstv. iðnaðarráðherra á að einna helst virðist vera gert ráð fyrir einhverjum störfum við að lesa yfir umsóknir um rannsóknarleyfi og svo eru einhverjar vangaveltur um að eftir 10–20 ár, þegar erlend olíufyrirtæki hafa hugsanlega hafið vinnslu á svæðinu, verði kannski hægt að staðsetja þar eina þyrlu frá Landhelgisgæslunni auk þess sem einhver störf kunni að skapast fyrir heilbrigðisstarfsmenn vegna þjónustu við starfsmenn borpallanna.

Frumvarpið sem var lagt fram á hinu háa Alþingi virðist endurspegla þessar sorglega litlu væntingar um atvinnusköpun hjá iðnaðar- og umhverfisráðuneytinu. Ég fagna því mjög að meiri hluti iðnaðarnefndar var ekki tilbúinn að taka undir þessar væntingar, sérstaklega í ljósi þeirra válegu frétta og atburða sem við höfum verið að fást við hér á Íslandi, sem hefur síðan leitt til þess að stórastoppið er komið í sambandi við orkufrekan iðnað, samgönguframkvæmdir, byggingariðnað og svo að sjálfsögðu hinn margumtalaða fjármálageira.

Óskað var eftir upplýsingum um hvernig önnur lönd hafa reynt að tryggja sem mesta atvinnustarfsemi við vinnslu olíu og gass og í þeirri yfirferð kom fram að í norskum lögum um kolvetnisstarfsemi er lagaákvæði sem ætlað er að tryggja sem mesta starfsemi í þessari atvinnugrein í landinu, þannig að á því verði tekið og óskað eftir því að mjög skýrt komi fram að fyrirtækin geti ekki einungis stofnað útibú hér og verið skattlaus heldur yrðu þau að stjórna starfsemi sinni og reka héðan frá Íslandi.

Nefndarmenn í meiri hluta í iðnaðarnefnd, og raunar allir nefndarmenn, töluðu um það hversu mikilvægt er að byggja upp menntun og rannsóknir á þessu sviði. Því er það lagt til í áliti meiri hluta iðnaðarnefndar — og minni hlutinn hefur tekið mjög sterklega undir þá kröfu — að stofnaður verði sérstakur menntunar- og rannsóknarsjóður að færeyskri fyrirmynd og þurfi væntanlegir leyfishafar að greiða árlegt framlag í hann. Sjóðurinn verði síðan nýttur til þess að byggja upp þekkingu og menntun á sviði olíu- og gasvinnslu hér á landi bæði við háskólana og hjá fyrirtækjum.

Hin stóra breytingin sem ég nefndi — flokka má breytingarnar í tvo aðalþætti — er sú að teknar eru út fyrirhugaðar breytingar á skipulags- og byggingarlögum. Aðalathugasemdirnar sem nefndinni bárust varðandi frumvarpið vörðuðu þann þátt og má benda á að meiri hluti umhverfisnefndar tók undir þær athugasemdir sem iðnaðarnefnd bárust. Þær athugasemdir komu m.a. frá Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins og voru þess efnis að verið væri að útvíkka hlutverk Skipulagsstofnunar á þann máta að Skipulagsstofnun fengi algjörlega nýtt hlutverk. Fulltrúar stofnunarinnar sem komu á fund nefndarinnar töluðu mjög skýrt þess efnis að þeir teldu raunar að frumvarpið brjóti í bága við góða stjórnsýsluhætti þar sem stofnuninni er ætlað að gera áætlanir, meta umhverfisáhrif, veita leyfi og sinna eftirliti með leyfishöfum og sitja þannig ekki báðum megin við borðið heldur hreinlega allan hringinn. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að þessi ákvæði í frumvarpinu verði felld út og að Orkustofnun muni áfram sinna afgreiðslu á rannsóknar- og vinnsluleyfum. Var það m.a. byggt á því að Orkustofnun er samkvæmt gildandi lögum ætlað að leita umsagnar hjá umhverfis- og sjávarútvegsráðuneyti.

Einnig er lagt til að lögfestur verði sérstakur samráðshópur eftirlitsaðila þar sem allar stofnanir sem sinna eftirliti á þessu sviði eigi fulltrúa. Var m.a. tekið undir ábendingar hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um það að Náttúrufræðistofnun kæmi þar að, sem er í samræmi við athugasemdir sem bárust frá umhverfisnefnd.

Það kom líka mjög skýrt fram í umsögnum og hjá gestum nefndarinnar að til staðar er ákveðinn ágreiningur á milli sveitarfélaganna og umhverfisráðuneytisins um skipulagsvald sveitarfélaga og ríkisins og þá út í sjó. Sveitarfélögin hafa óskað eftir því að útvíkka skipulagsvald sitt þannig að þau nái ekki bara að mörkum netlaga heldur miðist við grunnlínu plús eina sjómílu út í haf. Þetta er ágreiningur sem áður hefur komið á borð Alþingis og þá hvað varðar skipulag á fiskeldi og einnig hefur verið mikill ágreiningur, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á, um efnistöku sem hefði nánast verið uppi í fjöru hjá sveitarfélögum.

Verið er að leggja til ákveðið bráðabirgðaákvæði, eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Í sjötta lagi leggur meiri hlutinn til að í bráðabirgðaákvæði við lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis verði kveðið á um að iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti skuli fyrir 1. janúar 2010 hafa lokið skoðun á því hvort þörf sé breytinga á ákvæðum 14.–18. gr. þeirra laga og ákvæðum skipulags- og byggingarlaga varðandi efni, gerð og málsmeðferð skipulagsáætlana og leyfisveitinga vegna einstakra framkvæmda á grundvelli leyfa til rannsóknar og vinnslu kolvetnis útgefnum af Orkustofnun.“

Skemmtilegar umræður spunnust um það í nefndinni hvort — ef frumvarpið mundi fara í gegn án þess að þessir liðir hefðu verið teknir út — við værum þá farin að tala um að deiliskipuleggja ákveðin hafsvæði og gátu menn ekki alveg séð fyrir sér hvernig þau skipulagsgögn ættu að vera og hvort það væri óleyfilegt fyrir öldurnar að fara yfir ákveðna hæð og ég veit ekki hvað. Það var sem sagt ákveðið að við mundum leggja til að þessar greinar laganna yrðu felldar út og vona ég að sú tillaga verði samþykkt.

Eins og allir þeir sem fylgst hafa með umræðunni um íslenskt efnahagslíf vita er mjög dimmt yfir hjá okkur. Við á Alþingi ræðum dag eftir dag og kvöld eftir kvöld — núna vantar klukkuna tíu mínútur í eitt — um aukna skuldsetningu ríkisins og einstaklinga og fyrirtækja. Við erum að tala um mikinn niðurskurð hjá ríkinu og því miður líka hjá fyrirtækjum landsins og fjölskyldum. Við erum að tala um aukið atvinnuleysi og auknar álögur á Íslendinga. Nefna má nýjasta dæmið sem er hinn svokallaði bandormur ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar er m.a. verið að leggja til að kostnaðarhlutdeild sjúklinga hækki um 360 millj. kr., eldri borgarar og öryrkjar verði fyrir um 3,9 milljarða kr. skerðingu og nýbakaðir foreldrar verði af um 400 millj. kr. vegna lækkunar heildargreiðslna í fæðingarorlofi. Það má því segja að kjaftshögg eftir kjaftshögg ríði á íslenskum almenningi sem ríkisstjórnin verður algjörlega að axla ábyrgð á eftir að hafa hunsað viðvörunarorð um ástandið í fjármálageiranum og í heiminum.

Það má kannski afsaka það og hafa skilning á því af hverju hæstv. iðnaðarráðherra hefur aðeins misst sig yfir hugsanlegum olíugróða og þrýst á að þetta frumvarp yrði að lögum. Það má svo sem minna á setningu hæstv. ráðherra af vefsíðu hans, með leyfi forseta:

„Við munum fyrr eða seinna skipa okkur á bekk með olíuþjóðum heimsins. Ég bind sterkar vonir við að olía og gas muni skapa mikinn auð á Íslandi og afrakstur okkar mun allur renna í sameiginlega sjóði.“

Það kemur fram í áðurnefndri skýrslu að settir eru upp fjórir mismunandi möguleikar þar sem verið er að áætla tekjur af Drekasvæðinu. Þær tölur eru allt frá núlli upp í 3.600 milljarða kr., eins gott að hafa núllin á hreinu. Ekkert nema kostnaður ef ekkert finnst á Drekasvæðinu en ef eitthvað finnst — og talað er um möguleika 1, 2, 3 og 4, og best væri að við gætum fundið bæði olíu og gas. Ef það mundi gerast hefðum við nægan pening til þess að borga skuldir ríkisins vegna bankanna, Icesave, vexti, eiginfjáraukningu Seðlabanka og nýju bankanna og ýmislegt fleira skemmtilegt.

Það má því alveg skilja af hverju ákveðinn þrýstingur er til staðar, menn sjá kannski einhverja smávonarglætu í öllu myrkrinu. En þótt olía finnist mun það lítið hjálpa okkur á næstu árum. Við horfum til þess að olía finnist — ef hún finnst — ekki fyrr en eftir 10–20 ár, eins og kemur mjög skýrt fram í áðurnefndri skýrslu.

Ég vona svo sannarlega að ef olía finnst þá fari menn mun varlegar en við höfum t.d. gert með bankana okkar og komið verði í veg fyrir að í staðinn fyrir bankabóluna verði olíubólan mikla. Afleiðingin af því — þó að það sé kannski ekki það sem við þurfum að hafa mestar áhyggjur af — gæti orðið sú að hæstv. iðnaðarráðherra neyddist til að loka blogginu sínu líkt og hæstv. viðskiptaráðherra neyddist til að gera þegar bankabólan sprakk.

Að lokum vil ég þakka fyrir samstarfið í nefndinni við vinnslu frumvarpsins. Mjög vel var tekið í athugasemdir og ábendingar nefndarmanna og umsagnaraðila og ég hef því miður allt of sjaldan séð slíkt á þeim stutta tíma sem ég hef verið á Alþingi.