136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[11:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að laun og réttindakerfi eiga að vera gagnsæ. Mér finnst það skipta miklu máli og ég er sammála honum um þetta. Kerfið sem alþingismönnum, ráðherrum — svokölluðum æðstu embættismönnum — er búið er mjög ógagnsætt, ég tek alveg undir það, það er það. Kerfið á að vera gagnsætt.

Varðandi einstaklingsbundið val á lífeyrissjóðum, ég er ekki fylgjandi því. Ég vil félagslega aðkomu að lífeyrissjóðunum, að stéttir eigi aðild að þeim lífeyrissjóðum sem þær hafa samið um sem stéttir, félagslegar einingar. Ég færi þau rök fyrir því, og hef gert það, að með því móti stöndum við best vörð um þetta kerfi. Það hefur reynst vel að hafa þann hátt á í stað þess að fara þá leið sem bankarnir og fjármálafyrirtæki hafa talað fyrir og hv. þingmaður gerir greinilega sjálfur, að þetta verði einfaldlega einstaklingsbundin kjör þar sem menn geti leitað hvert sem þeir vilji. Ég er fylgjandi hinni félagslegu aðkomu.

Varðandi þá spurningu hvort ég telji rétt að það eigi að skerða greiðslur úr lífeyrissjóðum séu menn í launaðri vinnu, nei, ég er því ekki fylgjandi, alls ekki. Hið sama gildir ekki um þá sem heyra undir þessi sérréttindi vegna þess að þeir eru ekki í neinum lífeyrissjóði í raun. Þetta er millifærslukerfi þar sem þeir að sönnu greiða inn í LSR. Ríkið greiðir hins vegar mismuninn og tryggir réttindi þessara aðila þannig að það er ekki saman að jafna. Það er ekki saman að jafna því sem gerist í almennum lífeyrissjóðum og því sem gerist (Forseti hringir.) hjá þessum hópi. Ég kem að öðrum svörum á eftir um skerðingar, launagreiðslur og annað slíkt.