136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[12:13]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin sem hv. þingmaður beindi til mín, hafi ég heyrt hana rétt, var hvað ég héldi að kjararáð mundi gera eftir að við værum búin að skerða lífeyrisskuldbindingu um 40% í heild, 60% hjá ráðherrum, 20% hjá þingmönnum. Það er erfitt fyrir mig að segja. Þetta er góð spurning í ljósi þess að í 9. gr. laganna um kjararáð stendur, með leyfi forseta:

„Kjararáð skal meta og taka tillit til kvaða sem störfunum fylgja, svo og hlunninda og réttinda sem tengjast embætti og launum, svo sem lífeyrisréttinda og ráðningarkjara.“

Mér dettur ekki í hug að vera með einhverjar getgátur um hvað kjararáð gerir vegna þess að þetta er mat kjararáðs og það tekur tillit til alls konar þátta en þarna er sérstaklega minnst á að það á að taka tillit til lífeyrisréttinda og þetta getur að mínu mati hugsanlega haft áhrif á þá ákvörðun þegar að henni kemur.