136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[09:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem hér kemur til afgreiðslu markar mikil tímamót. Það afnemur ekki aðeins hin umdeildu lög frá 2003, hin umdeildu eftirlaunalög, heldur gengur enn lengra og takmarkar verulega þau réttindi sem þingmenn og ráðherrar hafa hingað til haft til eftirlauna. Réttindaávinnsla þingmanna er minnkuð, enginn getur nú bæði tekið laun og eftirlaun úr ríkissjóði, aldursmörk eru hækkuð til viðmiðunar þegar hægt er að taka eftirlaun, sérákvæði um réttindaávinnslu forsætisráðherra umfram aðra eru afnumin og lífeyrisskuldbindingar vegna ráðherra og þingmanna lækka um 40% ef þetta frumvarp nær fram að ganga.

Hér er á ferðinni mikill áfangi í því að færa eftirlaun ráðherra og þingmanna nær því sem almennt gerist og fyrir hönd Samfylkingarinnar fagna ég samþykkt þessa frumvarps því að sl. fimm ár hefur Samfylkingin haldið þessu máli lifandi og núna tala verkin af hálfu ríkisstjórnarinnar.