136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[09:54]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það skref sem við erum að taka hér er fagnaðarefni. Þetta er skref sem Samfylkingin hefur iðulega kallað eftir undanfarin fimm ár en hér erum við að afnema hinar umdeildu tvöföldu greiðslur frá hinu opinbera. Við erum að lækka réttindaávinnsluna þannig að hún verður í samræmi við A-deildina að teknu tilliti til hærri iðgjalda sem þessi hópur greiðir. Við erum að afnema forsætisráðherrasérregluna, hækka aldursmörkin, jafna réttindaávinnslu milli þingmanna og ráðherra sem er mikilvægt og þetta allt saman lækkar lífeyrissjóðsskuldbindingar gagnvart ráðherrum um 60%. Það er þess vegna ekki rétt sem hv. þingmenn Vinstri grænna hafa sagt að hér sé verið að taka lítil skref eða hér sé einhvers konar kattarþvottur, hér erum við að taka stór skref í að afnema þau sérréttindi sem voru sett á fót með lögunum 2003. Í sumum tilfellum erum við að ganga lengra en það sem var sett 2003.

Að lokum, herra forseti, undirstrika ég að við erum ekki að ljúka umræðunni um þessi mál hér og nú. Meiri hluti allsherjarnefndar kallar eftir frekari skoðun (Forseti hringir.) á þessum málum og m.a. kemur fyllilega til greina að færa þennan hóp undir A-deildina en sú skoðun og sú umræða á einfaldlega eftir að eiga sér stað. Það vita hv. þingmenn. (Gripið fram í.)