136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[09:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum að greiða atkvæði um það hvort við viljum halda í sérreglur eða ekki. Flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti að það ætti að afnema sérreglur fyrir þingmenn og ráðherra þannig að það er með mikilli ánægju sem ég segi já við þessari tillögu sem við erum að greiða atkvæði um. Ég átta mig satt best að segja ekki á því af hverju stjórnarflokkarnir vilja ekki stíga það skref að fara inn í A-deild LSR. Það eru eiginlega engin rök fyrir því að hafna þeirri leið. Þau rök sem komu í umræðunni þegar þetta mál var til umfjöllunar fyrir helgi voru hol þannig að það er mjög skrýtið að við göngum ekki alla leið. Ég bind þó vonir við þær yfirlýsingar sem komu fram í umræðunni að þingmenn vilja skoða þetta eftir áramót. Ég skora á ríkisstjórnina að setja af stað vinnuhóp til að skoða þessi réttindi enn frekar þannig að við getum þá farið í A-deildina með breytingum á lögum á næsta ári.

Ég segi já.