136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[10:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér er enn eitt dæmið um lýðskrum hv. þingmanna Vinstri grænna sem í öllum þessum tillögum vilja að þingmenn greiði til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson situr í stjórn. Hann er búinn að sitja lengi, er ekki kosinn af hinum almennu sjóðfélögum í sjóðnum heldur af stéttarfélaginu og er með þau forréttindi að réttindi hans og opinberra starfsmanna eru pikkföst, þeim verður ekki breytt. Þau eru föst með lögum á meðan hinir almennu kjósendur hv. þingmanns og mín, um 80% af almennum kjósendum, eru í almennum lífeyrissjóðum. Réttindi þeirra verða skert og þau munu verða skert enn frekar þegar tillögur hv. þingmanna Vinstri grænna sem njóta fastra réttinda ganga í gegn en þeir vilja setja þak á hækkun verðtryggðra lána, þ.e. skerða réttindi annarra en opinberra starfsmanna enn meira, varanlega. Ég býst ekki við því að hv. þingmenn þekki þá tilfinningu að vera með varanlega skert lífeyrisréttindi. Ég segi nei.