136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[10:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar. Það liggur fyrir á þskj. 440.

Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarpið til athugunar frá því að 2. umr. fór fram 14. desember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn ráðuneyta.

Ég vil einnig geta þess, virðulegi forseti, í þessari framsögu að rétt er að fram komi í upphafi að fjárlaganefnd tók fjáraukalögin úr nefndinni snemma í morgun eða fyrir um klukkutíma síðan. Ég geri því ráð fyrir því að þau verði tekin til umræðu síðar í dag. Er rétt að þingmenn séu upplýstir um að fjárlaganefndin hefur þar af leiðandi lokið störfum sínum nú í desember nema eitthvað óvænt komi upp.

Eins og venja er samkvæmt 25. gr. þingskapa fjallaði formaður efnahags- og skattanefndar, Pétur H. Blöndal og flutningsmaður meirihlutaálits um tekjuhlið frumvarpsins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kynnti einnig álit minni hluta nefndarinnar. Undir nefndarálitið skrifa, auk mín, hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson, Ármann Kr. Ólafsson, Guðbjartur Hannesson, Jón Gunnarsson í forföllum Ástu Möller, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Björk Guðjónsdóttir og Illugi Gunnarsson. Þá gerum við grein fyrir tekjuhlið frumvarpsins, fyrst þeim breytingum sem verða á 2. og 5. gr. og að lokum þeim breytingum sem eru lagðar til á sundurliðun 2.

Fram kom í fjárlagafrumvarpinu að skiptingu á útfærslu fjárheimilda til rekstrar á öldrunarþjónustu milli ráðuneyta væri ekki lokið og fyrirhugaðar tillögur um það kæmu fram við 2. umr. Gerð er ítarleg grein fyrir því í nefndarálitinu hvernig við hyggjumst leggja til lausnir á þeim málum því að þær lausnir komu ekki fram við 3. umr. Þetta er í samræmi við reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 177/2007, en þá fer félags- og tryggingamálaráðuneytið með mál er varða málefni aldraðra og uppbyggingu á öldrunarþjónustu á hjúkrunarheimilum. Heilbrigðisráðuneytið fer hins vegar með mál sem varða heilbrigðisþjónustu almennt, þar með talið heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum. Þetta er í samræmi við breytingar á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, sem tóku gildi 1. janúar 2008 þegar yfirstjórn öldrunarmála fluttist milli ráðuneytanna.

Eins og ég sagði áðan var verið að vinna að þessari skiptingu og það kann að hafa í för með sér flutning milli fjárlagaliða en þeirri vinnu er ekki lokið. Því er það niðurstaða meiri hlutans að skipuð verði sameiginleg verkefnastjórn félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðismálaráðuneytisins sem hafi það hlutverk að tryggja og samhæfa skilvirka ákvörðunartöku á sviði öldrunarmála og annast framkvæmd verkefna sem henni eru falin. Meiri hluti nefndarinnar setur niður ítarlegt vinnufyrirkomulag en verkefnastjórnin skal skipuð fimm sérfræðingum. Skipi heilbrigðisráðuneytið tvo, fjármálaráðuneytið einn en fjármálaráðuneytið heldur utan um fjárlagaliðina og útfærslu þeirra innan ráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins skipi tvo. Allar ákvarðanir og tillögur til ráðuneytanna skulu samþykktar samhljóða. Ráðuneytin setja verkefnastjórninni erindisbréf þar sem verkefni hennar er lýst og henni settar starfsreglur. Verkefnastjórnin skal njóta aðstoðar starfsmanna ráðuneytanna á sviði öldrunarmála og fjármála en einnig getur hún aflað sér sérþekkingar annarra aðila. Vil ég í þeim efnum sérstaklega benda á sérfræðinga innan Alþingis á fjárlaganefndarsviði og aðra sérfræðinga sem Alþingi hefur yfir að ráða, meðal annars þá sem heyra undir landskjörstjórn. Við höfum verið að skoða þessi mál í sameiningu. Málið er flókið úrlausnarefni tæknilega og þar af leiðandi er rétt að menn fari ítarlega yfir það þegar þeir skipta fjárlagaliðunum.

Verkefnastjórninni eru sett tímamörk. Hún skal skila fjárlaganefnd Alþingis tillögum um skiptingu fjárlagaliðanna sem lúta að öldrunarmálum í samræmi við reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 177/2007 fyrir lok janúar 2009. Í samræmi við 43. gr. laganna um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, mun meiri hlutinn því leggja fram frumvarp um fjáraukalög í febrúar nk. þar sem leitað verður eftir heimildum Alþingis til fjárráðstafana um millifærslu milli fjárlagaliða í samræmi við framangreint. Tímamörkin eru því fastsett í þessum efnum og er því lýst yfir að það eigi að klárast innan mánaðar. Ég vona að það gangi fljótt og vel og menn fari ítarlega yfir það. Síðan mun hv. fjárlaganefnd fá málið til umfjöllunar og getur þá farið yfir þetta flókna efni. Hér segir áfram í framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar:

„Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins var gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs yrðu rúmir 395 milljarðar eða 65 milljörðum minna en á árinu 2008. Samdrátturinn nemur 14,2% að nafnvirði en 24,6% umfram verðbólgu sem spáð er að verði 13,8% á næsta ári [meðan samdrátturinn er mjög mikill og ljóst er að ríkistekjur eru að falla mjög ört]. Gert er ráð fyrir að tekjur hækki [milli umræðna, eins og sagt er í spánni] um 6,6 milljarða en gert er ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga hækki um 2,2 milljarða kr., þar af eru 1,5 milljarðar ætlaðir til að fjármagna auknar greiðslur ríkisins til sveitarfélaga. Einskiptistekjur að fjárhæð 3 milljarðar eru áformaðar af sölu sendiherrabústaða en á móti koma áætluð 2 milljarða kr. útgjöld við kaup á ódýrari húseignum. Þá er gert ráð fyrir 3.830 millj. kr. tekjum af nýjum skatti vegna Ríkisútvarpsins en niður falla 2.945 millj. kr. af afnotagjöldum.“

Þetta er það helsta um tekjumálin en síðan er gerð grein fyrir því í 2. gr. að ríkissjóður geti yfirtekið tryggingabréf frá Seðlabanka Íslands að fjárhæð 385 milljarða og áformað er að verja á árinu 2009 vegna eiginfjárframlags ríkissjóðs á nýju bönkunum þremur.

Í öðru lagi að afborganir af veittum lánum hækka um 950 millj. kr. í samráði við endurskoðaða áætlun og í þriðja lagi afborganir ríkissjóðs af teknum lánum hækkaðar um 43.500 millj. kr. í samræmi við endurskoðana lánsfjáráætlun.

Í 5. gr. er gerð grein fyrir því að hækkun sé um 105 milljarða á lántökuheimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Í öðru lagi er 1.200 millj. kr. hækkun á endurlánaheimildum til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Er rétt að Lánasjóður ísl. námsmanna hafi þessa endurlánaheimild og hækkun á henni. Í þriðja lagi er lögð til 5.000 millj. kr. hækkun á heimild til veitingar ríkisábyrgðar á lántöku Landsvirkjunar í ljósi endurskoðaðrar rekstrar- og fjárfestingaráætlana fyrirtækisins. Þetta eru allt saman uppfærslur á eldri tillögum sem fram komu í frumvarpinu og er verið að uppfæra þær í samræmi við áætlanir eða verðbótafærslu.

Þá er í fjórða lagi lögð til 87 milljarða kr. hækkun á heimild til ríkisábyrgðar á lántökum Íbúðalánasjóðs vegna almennra lána og munar mestu um 100 milljarða kr. hækkun til kaupa á fasteignalánum bankanna. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að dragi úr eftirspurn eftir almennum íbúðalánum. Það er þá væntanlega mismunurinn á 100 og 87 sem mun enn þá vera 13.

Loks er í fimmta lagi lögð til 743 millj. kr. lækkun á heimild til veitingar ríkisábyrgðar á lántökum Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða í ljósi nýrra áætlana sjóðsins. Sjóðurinn hefur enn þá þó nokkra heimild til að lána og endurlána vegna leiguíbúða, svo og leiguíbúða og almennra íbúða, eins og komið hefur fram í upplýsingum frá sjóðnum.

Tillögur meiri hlutans er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs leiða til 67 milljarða kr. hækkunar útgjalda og er gert ráð fyrir að heildarútgjöld verði 556 milljarðar og tekjuafgangur neikvæður um 153 milljarða.

Það verður að segjast eins og er að það er ekki skemmtilegt hlutverk mitt sem formanns fjárlaganefndar, sérstaklega þegar ég horfi yfir salinn og sé tvo fyrrverandi formenn fjárlaganefndar sem hafa flutt nefndarálit líkt og þetta áður, (Gripið fram í.) að flytja frumvarp þar sem tekjuafgangur er neikvæður um 153 milljarða. En svona eru hlutirnir og ég stend algerlega í lappirnar gagnvart því. Skýringar á þessum breytingartillögum meiri hlutans koma fram við sundurliðun 2 sem fylgja skjali sem viðauki. Þessar tillögur komu margar hverjar fram við 2. umr., meðal annars launa- og verðlagsliðirnir sem gerð var grein fyrir í 2. umr. Nú hafa þeir verið uppfærðir og koma fram við 3. umr. eins og jafnan er. Svo eru fjölmargir úthlutunarliðir fastanefnda þingsins og/eða fjárlaganefndar þar sem vikið er að smáum hlutum vítt og breitt um landið. Þar hafa mjög margir komið að málum, bæði fagaðilar sem gefið hafa ráð til nefndanna og þingsins en ekki síst þingmenn sem lagt hafa ýmislegt til. Hv. þingmenn þekkja jafnframt til einstakra erinda. Þetta eru kannski ekki stóru hlutirnir í þessum heildarútgjöldum, 556 milljarðar, en hins vegar eru hér mjög mörg mál eða stór verkefni sem fá brautargengi eins og jafnan er.

Ég vék að því í ræðu minni — ég ætla ekki að hafa nein lýsingarorð um ræðuna, það hefur verið fjallað um það annars staðar, við 2. umr. — að ég sæi það fyrir mér að þessir hlutir gætu breyst og er vonandi að þingheimur nái samstöðu um það. Það eru þverpólitískar áherslur á milli þingmanna um hvernig fjallað skuli um þessa safnliði eða stofnkostnaðarliði. Ég sé fyrir mér að hægt sé að ná sátt varðandi þau mál, að þingið hafi enn meiri tíma til að fara yfir hlutina og jafnvel að fleiri fái að koma að því en um leið að sjóðir og sjóðsstjórnir hafi ákveði umboð og vald eins og þau hafa í dag. Það sem sjóðir og sjóðsstjórnir fjalla um geti þannig fengið kynningu á þinginu eða að hugsanlega verði leitað umsagna og öfugt. Þessi mál liggja ekki í flokkslínum heldur frekar í reynslu og þekkingu hv. þingmanna þannig að ég mun beita mér fyrir því hér eftir sem hingað til að reyna að ná fram þeirri breytingu sem verið er að leita eftir í sátt við virðulegt Alþingi.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fjalla nánar um þessar breytingartillögur. Þær skipta hundruðum. Varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, mun fara yfir þær stærðir. Við munum hafa sama háttinn á og fyrir ári að skipta þessari umfjöllun upp þannig að í framsögunum mun ekki verða farið yfir einstaka liði heldur mun það vera gert eftir að framsögumenn minni hluta hafa lokið máli sínu.

Ég geri grein fyrir því að í rekstraryfirliti í 1. gr. og viðeigandi liðum með sjóðsstreymi er greinum breytt í samræmi við áhrif og þeim breytingum sem gerð er tillaga um. Síðan vil ég einnig koma að tvennu fyrir utan það sem ég hef sagt í þessari ræðu. Það er í fyrsta lagi að ég legg gríðarlega áherslu á að fjárlaganefnd komi fyrir hönd Alþingis enn frekar að eftirliti. Við höfum verið að reyna að þróa þau vinnubrögð á þinginu og fengið leiðbeiningar frá hv. þingmönnum þess efnis. Fjárlaganefndarsviðið hefur verið styrkt. Ég tala alltaf um fjárlaganefndarsviðið, virðulegur forseti — nú það er búið að skipta um forseta í miðri ræðu.

(Forseti (KÓ): Forseti samt.)

Hann er samt forseti, það er rétt. Þá vil ég ítreka, hv. þingmenn og virðulegur forseti, að ég held að það skipti gríðarlegu máli fyrir þingið að fara fram með breytingar gagnvart þingi og þá ekki hvað síst ef það gæti fengið beinan aðgang að upplýsingakerfunum þannig að upplýsingar berist með hraða ljóssins en ekki með haustskipunum eins og nú er. Það er til vansa að starfshættirnir séu ekki með þeim hætti að við getum fengið upplýsingar fljótt og vel. Væri gott að þurfa ekki að fara fram með þær í fyrirspurnarformi gagnvart ráðuneytum, ríkisendurskoðun eða slíku heldur sé þinginu treyst fyrir, líkt og ég greindi frá í ræðu minni við 2. umr., að afla sér þessara upplýsinga sjálft. Þingið hafi þá e.t.v. takmarkaðan aðgang að ákveðnum, sundurliðuðum upplýsingum sem skipta kannski ekki máli — þar er ég að tala um launamál og slíkt sem eru viðkvæmar persónuupplýsingar — heldur geti það fengið upplýsingar og haft beinan aðgang að heildaryfirsýn á rekstri A-hluta stofnana og jafnvel hvernig einstaka samningar standa. Eftirlitið er ríkur þáttur af hálfu þingsins, ekki einungis gagnvart stofnunum heldur líka gagnvart ráðuneytunum. Við eigum öll að standa að því, sérstaklega á þessum tímum þegar fjármagnið er takmarkað eins og sést í þessu nefndaráliti og þessum tillögum, að við getum fylgt fjárlögum mun betur með auknu eftirliti.

Ég vísa til ræðu minnar við 2. umr. þar sem ég fór ítarlega yfir þessi mál hvað varðar framkvæmd fjárlaga. Þá vil ég einnig í framhaldi af því segja að upplýsingarnar hefðu mátt vera mun betri og vísa ég til ræðna meiri og minni hluta við 2. umr. varðandi þau mál.

Ég þakka fjárlaganefnd fyrir góð störf á liðnum vikum og mánuðum. Þetta er búinn að vera um margt erfiður tími, langir dagar, ekki hvað síst hjá mér og varaformanni, en líka öllu fjárlaganefndarfólki. Það má segja að vertíðin hafi strax byrjað þann 3. október. Við höfum verið undir miklu álagi daga og klukkutíma en allir hafa staðið sig afskaplega vel, bæði meiri hluti og minni hluti. Ég þakka öllum nefndarmönnum fyrir góð störf í fjárlaganefnd og eins og kom fram í upphafi ræðu minnar sleit ég vonandi síðasta fundi fjárlaganefndar á þessu ári nú fyrir klukkutíma síðan. Verið er að ganga frá síðustu þingskjölum fyrir fjáraukalagaumræðu. Ég færi fyrir hönd fjárlaganefndar starfsfólki sviðsins, sem unnið hefur afskaplega vel fyrir sviðið, þingið og fjárlaganefndina, þakkir fyrir góð störf. Án þessa starfsfólks geri ég ráð fyrir að við værum ekki komin jafnlangt og raun ber vitni þrátt fyrir að við getum verið gagnrýnin á sjálf okkur fyrir það að málið hefði mátt koma fyrr fram. Starfsfólkið hefur lagt nótt við nýtan dag til að þetta gæti orðið að veruleika.

Einnig höfum við átt gott samstarf við fjölmargar ríkisstofnanir, ráðuneyti, sjálfseignarstofnanir og C-hluta og D-hluta stofnanir og fengið upplýsingar frá þeim. Það má kannski segja að við höfum fengið fæstar upplýsingar frá E-hluta stofnunum sem ég hef oft nefnt að séu ríki í ríkinu. Fjárlaganefnd vinnur nú að frumvarpi sem mun koma fram á vormánuðum þannig að E-hluta stofnanir munu vonandi, ef það frumvarp nær fram að ganga, líka þurfa að kynnast hv. fjárlaganefnd. Veit ég að E-hluta stofnunum mun þykja vænt um að fá að mæta á fund fjárlaganefndar til þess að fara yfir fjárreiður þessara stofnana. Það eru stofnanir eins og Ríkisútvarpið, Landsvirkjun, þróunarfélag, Flugstoðir og ekki hvað síst þrír nýir ríkisbankar sem heyra undir E-hluta ríkisstofnanir í ríkisreikningi. En það skiptir gríðarlegu máli að Alþingi hafi tækifæri til að eiga greiðan aðgang að fjárreiðum og framkvæmd fjárhagsáætlana þessara stofnana eins og uppgjör þeirra sýna þannig að ekkert í rekstri eða efnahag þessara stofnana komi Alþingi á óvart.

Virðulegi forseti. Ég lýk því máli mínu varðandi þetta framhaldsnefndarálit og ítreka að varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, mun fara betur yfir sundurliðanir varðandi útgjaldaþáttinn. Að öðru leyti hef ég farið yfir tekjuliðina og vísa til þingskjala varðandi breytingar á sjóðstreymi og lántökuheimildum og heimildargreinum 6. gr.