136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Oft og tíðum er svolítið sérstakt að koma hér upp og fara í andsvar við ræðu þegar maður ætlar að þakka fyrir ræðuna sem hefur verið flutt en ekki hvað síst að benda á og taka undir ýmislegt.

Ég vil, virðulegur forseti, þakka minni hluta fjárlaganefndar fyrir efnisríkt framhaldsnefndarálit. Ég tel að það sé mjög faglega unnið og fjölmargar athugasemdir og ábendingar, sem hafa komið fram í umræðunni, eru settar þar fram. Auðvitað eru ólíkar pólitískar skoðanir á milli stjórnmálaflokkanna og jafnvel á milli stjórnmálaflokkanna í minni hlutanum en ég ætla að víkja því til hliðar, virðulegur forseti, og í sjálfu sér ekki að elta ólar við slíkt í nefndarálitinu.

Að öðru leyti og þá sérstaklega því sem viðvíkur hinu tæknilega og verklaginu og ýmsu öðru get ég svo sannarlega tekið undir það, líkt og minni hlutinn hefur tekið undir ýmislegt sem meiri hlutinn hefur sagt, þannig að ég vil þakka fyrir það.

Ég vil einnig í ljósi breytingartillögunnar benda á framhaldsnefndarálit meiri hlutans þar sem vikið er að því að meiri hlutinn muni leggja fram frumvarp um fjáraukalög í febrúar nk. í samræmi við 43. gr. laga um fjárreiður ríkisins þannig að boðað er að fara ítarlega yfir fjárlögin og horfa til þess að upplýsingar geti borist, bæði varðandi þennan flutning á milli liða og ýmislegt annað sem kannski hefur misfarist og ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem boðað er hér við 3. umr. að slíkt frumvarp komi fram.

Að öðru leyti tek ég undir þann þátt sem lýtur að eftirliti og upplýsingastreymi til að tryggja (Forseti hringir.) að framkvæmd fjárlaga geti verið betri en raun ber vitni.