136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:02]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst láta í ljós ánægju mína með þá eindrægni sem var í fjárlaganefnd um að koma með fjárveitingar inn til þekkingarsetranna en það hafði verið skorið niður í tillögum ríkisstjórnarinnar og í ýmis önnur verkefni er lutu að náttúrustofum og fjarkennslu og einnig líka að þessum minni verkefnum sem hv. þingmaður nefndi. Ég tek undir með hv. þingmanni um að þau séu mjög mikilvæg og ekki aðeins fyrir það að verkefnin eru góð og í höndum duglegs og baráttuglaðs fólks heldur líka að þrátt fyrir allt eigi almenningur þessa lýðræðislegu aðkomu að þinginu sínu, að það sé ekki allt þó í gegnum ráðuneytin sem loka hurðum misfast á fólk eða opna þær eftir því hvernig út í það er farið.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um agaleysið af hálfu ríkisstjórnarinnar og agaleysið af hálfu ráðuneytanna. Það má vel vera að eitthvað megi bæta hjá stofnunum. En ég vil spyrja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson í ljósi fjárlagavinnunnar undanfarna daga og vikur hvort hann sé ekki sammála mér um að brýnast sé að setja þessa ríkisstjórn og ráðherra undir járnaga þannig að þeir geti skilað sinni vinnu sem þeim er ætlað að gera inn til fjárlaganefndar á eðlilegum tíma og séu ekki að vaða út úr heimildum, hvort heldur það er til Kína að stofna Expo-sýningu án nokkurrar heimildar eða annarra verkefna án heimilda. (Forseti hringir.) Mér sýnast ráðherrarnir vera langverstir og þeir eru sérstakt vandamál við fjárlagagerðina.